forvarnir

Varað við asahláku um helgina

18. janúar 2023

Búast má við asahláku föstudaginn 20. janúar en spáð er allt að 10 stiga hita og talsverðri rigningu. Snjórinn getur bráðnað hratt sem veldur miklu yfirborðsvatni á skömmum tíma og flughálku. Við þær aðstæður getur skapast mikil slysahætta og hætta á vatnstjónum þar sem niðurföll hafa ekki undan. 

Við hvetjum viðskiptavini til þess að nota tímann vel áður en veðrið skellur á og huga að forvörnum.

Hér höfum við tekið saman nokkur góð ráð til að koma í veg fyrir slys og tjón.

Gott að hafa í huga!

Asahláka

  • Mokum snjó af svölum og hreinsum úr rennum.

  • Brjótum klaka frá og hreinsum óhreinindi úr niðurföllum til þess að vatnið komist sína leið.

  • Ekki keyra hratt í polla sem myndast á götum. Passið sérstaklega rafhlöðuna ef þið eruð á rafmagnsbíl.

Hálka

  • Við þessar aðstæður er betra að nota sand en salt.

  • Söndum kringum niðurföll og við innganga til að koma í veg fyrir mikla hálku.

  • Losum grýlukerti ef það er hægt. Förum þó varlega.

  • Göngum varlega um í hálkunni. Gott ráð er að bera sig að eins og mörgæs, taka stutt skref, halla sér aðeins fram og setja hendur út.

Tryggingar fyrir heimilið

Almennt bæta tryggingar ekki þegar utanaðkomandi vatn kemst inn og veldur tjóni. Hins vegar má finna undantekningu þegar skýfall og asahláka myndast og niðurföll hafa ekki undan.

Vatnstjón á fasteign eru bætt í Húseigendatryggingu vegna yfirborðsvatns þegar skyndileg úrhelli eða ásahláka myndast og vatnsmagn verður svo mikið að frárennslisleiðslur hafa ekki undan.

Ef innbúið skemmist má leita í Innbústryggingu Heimilisverndar en sú trygging tekur á sjálfu innbúinu í áðurnefndum tilfellum.

Hafa ber í huga að við ákvörðun bótaskyldu er litið til þess hvort niðurföll séu í lagi og hreinsað hafi verið frá þeim.

Viðbrögð við tjóni
  • Mundu að ef þetta er neyðartilvik að hafa strax samband við 112.

  • Ef ekki skaltu gera þær ráðstafanir sem nauðsynlegar eru, til að draga úr tjóni sé þess nokkur kostur en farið jafnframt að öllu með gát.

  • Þegar þú hefur brugðist við þá er næsta skref að tilkynna tjónið til okkar.

  • Að senda myndir með tjónstilkynningu getur flýtt fyrir afgreiðslu.

  • Eftir að tjón hefur verið tilkynnt hafa starfsmenn samband við fyrsta tækifæri til að hefja úrvinnslu málsins.

  • Sé brýn neyð á aðstoð vegna tjóns bendum við á neyðarsímann 514 1099 sem opin er allan sólarhringinn.

Fræðsla og forvarnir

Með forvörnum lágmörkum við líkur á óhöppum og slysum. Við viljum vinna markvisst að auknu öryggi á vinnustöðum, heimilum og í umferðinni. Þannig stöndum við vörð um heilsu og öryggi.

author

Vörður tryggingar

18. janúar 2023

Deila Frétt