Vörður er bakhjarl Á allra vörum

21. mars 2025

Á allra vörum átakinu, til stuðnings Kvennaathvarfinu, var hrint af stað í gær. Af því tilefni undirrituðu forsvarskonur Á allra vörum bakhjarla samning við Vörð tryggingafélag.

“Við erum í skýjunum með samkomulagið, enda styður það undir átakið og gerir okkur kleift að koma skilaboðunum okkar á framfæri”, segir Elísabet Sveinsdóttir, ein forsvarskvenna Á allra vörum.

“Það er okkur sannur heiður að leggja þessu öfluga átaki lið, enda vandfundið verðugra verkefni”, segir Guðbjörg Heiða Guðmundsdóttir, forstjóri Varðar.

Á dögunum kynnti Vörður nýja vernd sem er ætlað að veita neyðaraðstoð, í formi fjárhagslegra bóta, fyrir þolendur ofbeldis í nánum samböndum og gera þeim þannig vonandi frekar kleift að breyta aðstæðum sínum. Verndin var mótuð með faglegri ráðgjöf Kvennaathvarfsins og er nú hluti af öllum heimilistryggingum Varðar.

,,Heimilið á að vera öruggur staður fyrir öll og það er sorgleg staðreynd að það sé einn hættulegasti staðurinn fyrir konur. Við sem samfélag getum breytt þessu. Hlutverk okkar hjá Verði er að vera til staðar þegar áföll dynja á og með nýju verndinni er það okkar von að fleiri geti stigið út úr ofbeldisaðstæðunum", segir Guðbjörg.

Á allra vörum átakið hófst í dag og stendur til 5. apríl.

author

Vörður tryggingar

21. mars 2025

Deila Frétt