14. nóvember 2024
Nú er veturinn kominn og við förum til vinnu og skóla með sól í hjarta þó úti sé svarta myrkur. Snjór og myrkur skapa aðstæður sem krefjast varúðar, hvort sem þú ert að keyra, hjóla, ganga eða njóta útivistar. Sýnileiki er lykilatriði í myrkrinu en ökumenn verða líka að gæta þess að sjá út. Það er ekki í boði að skafa bara smá gægjugat á framrúðuna og aka svo af stað með hökuna á stýrinu.
Með hökuna á stýrinu
Í október varð slys þar sem ekið var á gangandi vegfaranda. Ökumaður sá ekki þann sem var að ganga yfir götuna, en bifreiðin var með hélaðar rúður og hafði verið skafin illa. Útsýni ökumanns var verulega skert og hefur það átt stóran þátt í slysinu samkvæmt dagbók lögreglu. Slys eins og þessi gerast nokkrum sinnum á veturna vegna þess að ökumenn skafa rúðurnar illa, bæði í snjó og hélu, og eru í vandræðum með að sjá út. Við þurfum að gefa okkur auka tíma á veturna til að skafa og hreinsa snjóinn áður en við leggjum í hann.
Í svörtum fötum
Endurskinsmerki auka sýnileika margfalt og hafa sumar rannsóknir sýnt að ökumenn sjái manneskju með endurskinsmerki 5 sinnum fyrr samanborið við þá sem ekki nota endurskinsmerki. Í myrkrinu getur verið erfitt að greina liti því mannsaugað treystir á ljós, svartir og dökkir litir birtast okkur sem djúpir skuggar. Víða er hægt að nálgast ókeypis endurskinsmerki og ættu börn og fullorðnir að verða sér úti um nokkur stykki. Endurskinsmerki verða í boði í öllum útibúum Varðar og Arion banka í vetur meðan birgðir endast.
Vetrarumferð á göngu- og hjólastígum
Styttri vetrardagar þýða að þú ert líklegri til að hlaupa eða hjóla í lítilli birtu. Notaðu endurskinsbúnað eins og endurskinsvesti, armbönd og borða á fatnaði sem endurvarpa ljósi vel. Að hlaupa á veturna getur kallað á neglda hlaupaskó. Öll reiðhjól eiga að vera með öflugum framljósum enda veitir ekki af. Það geta verið allskonar hindranir kyrrstæðar á stígunum eins og önnur hjól, leigurafhlaupahjól, innkaupakörfur og framkvæmdasvæði með óvæntum uppákomum. Rautt afturljós, ýmist blikkandi eða stöðugt á að snúa aftur. Ef mögulegt er skaltu hlaupa eða hjóla á vel upplýstum svæðum sem eru hálkuvarin.
Birgjum okkur upp af salti og sandi
Það er afskaplega vont að detta í hálku en við getum a.m.k. séð til þess að ekki sé sleipt fyrir utan hjá okkur. Salt er góð lausn til að vinna á hálku en virkni saltsins er þannig að það lækkar frostmark vatnsins og leysir klakann upp ef svo má segja. Sandurinn virkar vel líka en hann eykur viðnám íssins og gefur meira grip. Á mörgum þjónustustöðvum sveitarfélaga er hægt að fá salt og sand í kistum, en einnig er hægt að versla í byggingavöruverslunum. Innkeyrslur, inngangar, tröppur og brekkur eru staðir sem hús- og fyrirtækjaeigendur eiga að moka, salta eða sanda reglulega.
Ágúst Mogensen
14. nóvember 2024