Það er stefna Varðar að vinna að heilindum að sjálfbærnimálum og hafa jákvæð áhrif á hagaðila með því að gæta að beinum og óbeinum umhverfis- og félagslegum áhrifum í starfsemi sinni og styðja við heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna.
Vörður er alhliða vátryggingafélag sem hefur það að markmiði að bjóða viðskiptavinum viðeigandi vátryggingarvernd á samkeppnishæfu verði. Félagið leggur áherslu á hagkvæman rekstur, einföld og þægileg vátryggingaviðskipti og persónulega þjónustu þar sem byggt er á nútímalegum þjónustu- og samskiptaleiðum.
Síbreytilegur heimur hefur áhrif á allt umhverfi og samfélög og má nefna loftlags- og tæknibreytingar. Breytingarnar hafa áhrif á viðskiptavini, starfsfólk og starfsemi félagsins. Til að mæta þeim til hagsbóta fyrir alla hagaðila ætlar Vörður að hafa áhrif á umhverfið og samfélagið sem það starfar í með ábyrgum og sjálfbærum hætti í rekstri sínum.
Vörður er stofnaðili að IcelandSIF, er aðili að Festu og þátttakandi í loftslagsyfirlýsingu Festu og Reykjavíkurborgar. Félagið fékk jafnlaunavottun árið 2014, fyrst allra fjármálafyrirtækja og hefur verið fyrirmyndar fyrirtæki í stjórnarháttum frá 2019, auk þess að vera með vottun samkvæmt ISO 27001 (stjórnkerfi um upplýsingaöryggi). Vörður stefnir á að vera árlega í flokki fyrirmyndar fyrirtækja í vali VR á Fyrirtæki ársins.
Það er stefna Varðar að vinna að heilindum að sjálfbærnimálum og hafa jákvæð áhrif á hagaðila með því að gæta að beinum og óbeinum umhverfis- og félagslegum áhrifum í starfsemi sinni og styðja við heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna.
Markmið Varðar er að rekstur félagsins sé til fyrirmyndar í íslensku atvinnulífi og er ekki eingöngu horft til fjárhagslegra markmiða sem tengjast arðsemi og hagkvæmni, heldur einnig til umhverfismála, félagslegra þátta og stjórnarhátta (hér eftir “UFS viðmiða“ eða „UFS“).
Árlega er gefin út sjálfbærniskýrsla sem unnin er samkvæmt UFS viðmiðum Nasdaq. Vörður leggur áherslu á þá málaflokka innan UFS sem félagið getur haft mest áhrif á og eru viðeigandi og mikilvægir fyrir kjarnastarfsemina. Félagið setur sér mælanleg markmið til þess að fylgja eftir framkvæmd stefnunnar og til að takmarka neikvæð áhrif og er árangurinn birtur árlega í sjálfbærniskýrslunni. Með markvissum hætti er stefnt að því að auka þekkingu starfsfólks, samstarfsaðila, birgja, viðskiptavina og annarra hagaðila í vegferðinni að sjálfbærri framtíð.
Tryggingafélög bera almennt mikla ábyrgð, gegna mikilvægu samfélagslegu hlutverki og mæta sívaxandi kröfum um aukna sjálfbærni í rekstri. Allir hagaðilar Varðar hafa hlutverk og ábyrgð tengda sjálfbærnistefnunni. Hagaðilar eru stjórn og starfsfólk, eigendur, viðskiptavinir, birgjar og samfélagið allt.
Stjórn setur stefnuna og tryggir innleiðingu hennar. Forstjóri og framkvæmdastjórn ber ábyrgð á innleiðingu stefnunnar og að eftir henni sé farið. Stjórnendur bera ábyrgð á því að efni stefnunnar endurspeglist í starfseminni allri og starfsfólk ber að starfa samkvæmt þeim ferlum, reglum og verklýsingum sem félagið hefur innleitt á grundvelli hennar.
Vörður leggur að auki áherslu á ábyrg og traust samskipti við hagaðila í átt að sjálfbærni og auknum verðmætum fyrir samfélagið. Vörður gerir þá kröfu til stærri viðskiptavina sinna og birgja að þeir hugi að sjálfbærni í sinni starfsemi.
Vörður leggur áherslu á að halda neikvæðum umhverfisáhrifum af starfseminni í lágmarki og stuðlar að því að gætt verði að umhverfissjónarmiðum í tengslum við hana. Vörður stefnir að því að greina og þekkja hvernig loftslagsmál og önnur umhverfismál geta haft bein og óbein áhrif á reksturinn og með þeim hætti auka líkur á að þekkja hver áhrifin eru og hvernig megi milda þau. Vörður skuldbindur sig til að setja ákvæði um umhverfismál í birgjamat.
Losun gróðurhúsalofttegunda eru mæld og birt árlega, bæði bein losun frá rekstri félagsins sem og óbein. Unnið er að því að auka upplýsingar um óbeina losun, t.d. frá fjárfestinga- og tryggingasafni. Vörður einsetur sér að þekkja og skilja áhættuþætti sem tengjast loftlagsbreytingum og áhrifum þeirra á virðiskeðju og grunnstarfsemi sína, og nýta til áhættustýringar til að takmarka neikvæð loftslagsáhrif.
Félagið horfir til skuldbindinga Íslands við Parísarsáttmálann en stefnt er að 55% minnkun á losun koltvísýrings fyrir árslok 2030 miðað við losun árið 2018 og verði losun hvers árs kolefnisjöfnuð.
Sem fjárfestir skal Vörður þekkja möguleg áhrif loftslagsbreytinga á eignasafn sitt og þau áhrif sem félagið getur haft á loftslagsbreytingar í gegnum það, og einsetur sér að lágmarka áhrifin. Félagið mun starfa eftir alþjóðlegum viðmiðum um ábyrgar og sjálfbærar fjárfestingar.
Félagsleg sjónarmið skulu höfð að leiðarljósi í allri starfsemi Varðar. Félagið virðir mannréttindi hagaðila líkt og kveðið er á um í Mannréttindasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Gerð er sama krafa til hagaðila að þeir virði mannréttindi. Vörður líður aldrei barnaþrælkun eða nauðungarvinnu og verði hagaðili uppvís að slíku, áskilur félagið sér rétt til að slíta viðkomandi viðskiptasambandi. Vörður skuldbindur sig til að setja ákvæði um barnaþrælkun og nauðungarvinnu í birgjamat.
Vörður skal leita samtals við ytri hagaðila með það að markmiði að skilja hlutverk sitt í samfélaginu og væntingar þeirra og sýn á starfsemina. Hagaðilagreining verður framkvæmd reglulega með heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna til hliðsjónar.
Stjórn Varðar er meðvituð um að Vörður getur haft mikil samfélagsleg áhrif í gegnum vöruframboð félagsins, bæði aukið jákvæð áhrif og dregið úr neikvæðum áhrifum af umhverfis- og félagsmálum eða haft önnur óbein áhrif. Vörður skal leitast við að auka framboð af vörum sem styður sjálfbæra framtíð.
Eitt af markmiðum Varðar er að vera leiðandi fyrirtæki þegar kemur að því að rækta mannauðinn. Þannig skapar félagið jákvætt og uppbyggilegt umhverfi, hlúir að heilsu og vellíðan, skapar öruggt starfsumhverfi og er fjölskylduvænt fyrirtæki þar sem horft er til sveigjanleika og samræmingar vinnu og einkalífs. Vörður leggur áherslu á viðeigandi þekkingu starfsfólks á hverjum tíma, sem er lykill að árangri. Vörður styður við viðeigandi þekkingu og hæfni starfsfólks og býður því upp á tækifæri til að sækja sér nám og þekkingu með hvatningu, fjárhagslegu framlagi og sveigjanleika í vinnu. Þannig skapar félagið öflugt lærdóms- og þekkingarsamfélag og gefur starfsfólki færi á að styðja við sína eigin þróun og þroska í starfi. Þá er haldið utan um starfsmannaveltu og ástæður starfsloka til að auka þekkingu og faglega nálgun varðandi starfslok.
Vörður leggur áherslu á fjölbreytileika og jafnrétti í öllum störfum sínum. Unnið er í anda jafnréttis í hvívetna en einelti, kynferðisleg áreitni, kynbundið áreiti og ofbeldi er fordæmt og aldrei liðið á vinnustaðnum. Jafnréttisstefnu Varðar er ætlað að tryggja réttindi um jöfn laun fyrir jafnverðmæt og sambærileg störf, jafna stöðu og rétt kvenna og karla innan félagsins óháð aldri, kyni, litarhætti, trúarbrögðum, skoðunum, þjóðerni, kynhneigð eða fötlun og tryggja að hver starfsmaður sé metinn á eigin forsendum. Félagið hefur verið með jafnlaunavottun frá árinu 2014 auk þess sem fylgst er með launamun kynjanna mánaðarlega.
Hér má sjá stefnur Varðar í mannauðs- og jafnréttismálum sem styðja við félagslega þáttinn:
Jafnréttis- og mannréttindastefna
Stjórn Varðar leggur áherslu á góða stjórnarhætti og að þróa þá stöðugt og styrkja. Hún einsetur sér jafnframt að stjórnarhættir samræmist þeim lögum og reglum sem um starfsemina gilda. Góðir stjórnarhættir leggja grunninn að ábyrgri stjórnun og vandaðri ákvarðanatöku og stuðla að traustum samskiptum milli hluthafa, stjórnar, stjórnenda, starfsfólks og annarra hagaðila og draga þannig úr líkum á hagsmunaárekstrum. Stjórn hefur sett starfsreglur sem ramma inn stjórnarhætti félagsins.
Til staðar er stefna um reglufylgni, sett af stjórn, sem styður við skilvirkt stjórnkerfi og er fylgt eftir af regluverði. Félagið skal fara að lögum, reglugerðum og öðrum reglum sem gilda um starfsemina og starfa í samræmi við heilbrigða og eðlilega viðskiptahætti.
Allt starfsfólk undirritar siðareglur og staðfestir með því ætlun sína að framfylgja þeim. Siðareglurnar endurspegla hvernig starfsfólk hagar samskiptum sínum við viðskiptavini, samstarfsfólk, eftirlitsstofnanir, hluthafa, birgja, samkeppnisaðila sem og samfélagið allt. Tilgangur siðareglna er að vinna að sjálfbærni, stuðla að heiðarleika, réttsýni og sanngirni í viðskiptum og efla traust viðskiptavina og almennings á Verði.
Stefna um varnir gegn hagsmunaárekstrum, sem samþykkt hefur verið af stjórn, hefur það að markmiði að draga úr hættu á að starfsfólk tengist einstökum úrlausnarefnum þannig að draga megi í efa óhlutdrægni þess við meðferð og afgreiðslu einstakra mála. Stefnan byggir á þeirri skyldu stjórnar að stuðla að því að félagið standi vörð um hagsmuni viðskiptavina sinna og orðspor sitt með því að sjá til þess með skilvirkum hætti að viðskipti fari ekki fram eða ákvarðanir séu ekki teknar sem geti gefið tilefni til gagnrýni á stjórnarhætti, stjórnendur eða starfsfólk vegna mögulegra hagsmunaárekstra.
Félagið stundar heiðarleg og ábyrg viðskipti þar sem hvers konar mútur eða spilling er hvorki viðhöfð né liðin. Starfsfólk staðfestir í gegnum siðareglur félagsins viðskiptahætti án spillingar. Stefnt er að því að setja verklagsreglur til að taka á mútum og spillingarmálum og innleiða í áhættustýringu.
Vörður hefur sett sér öryggisstefnu en hún hefur það að markmiði að stuðla að öruggu og traustu umhverfi viðskiptagagna. Vörður hefur innleitt og er vottað samkvæmt ISO 27001, stjórnkerfi um upplýsingaöryggi og starfar samkvæmt leiðbeinandi tilmælum FME um rekstur upplýsingakerfa. Fyllsta öryggis er gætt við meðhöndlun persónuupplýsinga sem félaginu eru veittar og lýsir persónuverndarstefnan ábyrgri meðhöndlun persónuupplýsinga. Sem þáttur í sjálfbærum rekstri verða upplýsingaöryggismál og öll meðferð viðskiptagagna áfram forgangsmál hjá Verði.
Virðiskeðja Varðar er byggð á siðrænum og ábyrgum gildum. Með framkvæmd birgjamats getur Vörður haft samfélagsleg áhrif á samstarfsaðila sína og nærumhverfi til framtíðar og valið að starfa með birgjum sem starfa eftir sömu ábyrgu gildum og Vörður. Fjárfestingarstefna Varðar tekur tillit til aðferðafræði um ábyrgar fjárfestingar, sem tekur mið af UFS þáttum við fjárfestingarákvarðanir með það að markmiði að draga úr áhættu og skila sjálfbærri ávöxtun til langs tíma. Vörður mun innleiða UFS þætti í áhættustýringu fyrirtækisins.
Hér má sjá þær stefnur sem styðja við stjórnarhætti félagsins: Persónuverndarstefna
Reglur um vernd uppljóstrara Siðareglur Starfskjarastefna Starfsreglur stjórnar Stefna um hagsmunaárekstra og sviksemi Stefna um meðferð kvartana og ábendinga
Stefna um reglufylgni Stjórnarháttayfirlýsing
Heimsmarkmiðin eru samþætt og órjúfanleg og mynda jafnvægi milli þriggja stoða sjálfbærrar þróunar; hinnar efnahagslegu, félagslegu og umhverfislegu. Þá fela þau einnig í sér fimm meginþemu sem eru mannkynið, jörðin, hagsæld, friður og samstarf. Vörður styður öll heimsmarkmiðin en leggur þó áherslu á eftirfarandi markmið þar sem þau eiga best við kjarnastarfsemi félagsins:
Heimsmarkmið númer 3 - Heilsa og vellíðan Í gegnum forvarnir eru viðskiptavinir Varðar hvattir til að huga að sinni heilsu og vellíðan. Einnig er lögð mikil áhersla á heilsu og vellíðan meðal starfsfólks og er þá horft til líkamlegrar, faglegrar, félagslegrar, persónulegrar og andlegrar heilsu.
Heimsmarkmið númer 5 - Jafnrétti kynjanna Vörður fékk jafnlaunavottun árið 2014 fyrst allra fjármálafyrirtækja og hefur því haft jafnrétti kynjanna í forgrunni um langt skeið. Félagið mun halda áfram þeirri vegferð og um leið hvetja sína birgja og samstarfsaðila til að leggja áherslu á jafnrétti.
Heimsmarkmið númer 9 - Nýsköpun og uppbygging Með því að leggja áherslu á að þróa eigin stafrænar lausnir og með því að vátryggja og fjárfesta í fyrirtækjum sem eru í nýsköpun og uppbyggingu styður Vörður þetta heimsmarkmið.
Heimsmarkmið númer 12 - Ábyrg neysla og framleiðsla Vörður leggur áherslu á þetta heimsmarkmið í sínum daglega rekstri og hefur jafnframt áhrif á sína birgja gegnum árlegt birgjamat.
Heimsmarkmið númer 13 - Aðgerðir í loftslagsmálum Vörður er þátttakandi í loftslagsyfirlýsingu Festu og Reykjavíkurborgar og einsetur sér að ná markmiðum Parísarsáttmálans fyrir árið 2030.
Stefna þessi skal rýnd árlega og uppfærð eftir þörfum.
Halda áfram að auka veg viðgerða í stað skipta í framrúðutjónum, að hlutfall rúðuviðgerða nái 15% .
Vinna stöðugt að því að ná betur utan um losun vegna aðkeyptra vara og þjónustu (umfang 3) í starfsemi fyrirtækisins.
Að niðurstaða jafnlaunagreiningar sýni launamun kynjanna undir 3%.
Að hlutfall miðgilda heildarlaunagreiðslna kynjanna sé undir 1,3.
Að einkunn í könnun um upplifun starfsfólks á jafnvægi milli vinnu og einkalífs sé að lágmarki 4,2.
Að starfsfólki verði að jafnaði tryggt 80% af launum í fæðingarorlofi í 6 mánuði óháð kyni.
Starfsfólk þekki sjálfbærnistefnu sem og forvarnar- og viðbragðsáætlun vegna eineltis, kynbundinnar- og kynferðislegrar áreitni og ofbeldis.
Í virðiskeðju félagsins, er leitast við að ganga úr skugga um að alþjóðleg mannréttindi séu virt og að gætt sé að jafnrétti.
Framleiðsla á forvarnafræðslu sem kennsluefni fyrir stærri fyrirtæki.
Að allt starfsfólk ljúki skyldufræðslu, m.a. um siðareglur, upplýsingaöryggi, varnir gegn peningaþvætti og persónuvernd.
Að a.m.k. 90% nýrra birgja sem gera samning við félagið hafi farið í gegnum birgjamat þar sem frammistaða í umhverfis- og félagsþáttum og stjórnarháttum er metin og að sama hlutfall nýrra birgja hafi samþykkt siðareglur félagsins.
Innleiðing viðeigandi löggjafa og skýrslugjöf í samræmi við þær.
Innleiðing aukinnar áherslu á sjálfbærni í vöruþróunarferil fyrir nýjar vörur og stærri uppfærslur.
Draga úr losun gróðurhúsalofttegunda sem hlýst af eigin starfsemi (umfang 1 og 2) um 80%m.v. árið 2015 og kolefnisjafna þá losun sem eftir stendur.
Vinna stöðugt að því að ná betur utan um losun vegna aðkeyptra vara og þjónustu (umfang 3) í starfsemi fyrirtækisins