Mannauðsstefna Varðar

Starfsfólkið er lykillinn að farsælum rekstri Varðar. Metnaður og kraftur þess, vilji, þekking og hollusta er það sem færir félaginu árangur.

Samkeppnishæfni Varðar byggist á metnaðarfullu starfsfólki sem sýnir frumkvæði, snerpu og heilindi, nýtur sjálfstæðis í starfi og hefur viðskiptavininn í öndvegi. Forsendan er nútímalegt vinnuumhverfi og umbótamenning þar sem áhersla er lögð á framsækna hugsun, sveigjanleika, árangur, samfélagslega ábyrgð, vellíðan og starfsánægju.

Til að styðja við stefnuna hefur Vörður sett sér fjóra lykilvísa:

Ánægja starfsfólks

Öflugt og árangursmiðað starfsfólk

Vörður er tryggingafélag í sókn sem gerir kröfur um áræðni, árangur og framsækna hugsun. Félagið leggur áherslu á að fá til liðs við sig öflugt, traust og metnaðarfullt starfsfólk með fjölbreyttan bakgrunn. Við ráðningar er horft til jafnréttis, menntunar, þekkingar, reynslu og hæfni en einnig er mikið lagt upp úr persónulegum eiginleikum. Horft er í samsetningu teyma við ráðningar til að stuðla að fjölbreyttri hæfni og getu innan þeirra.

Vörður leggur áherslu á starfsþróun og bíður öfluga þjálfun og fræðslu henni tengdri á hverjum tíma. Starfsfólk er hvatt til að sýna metnað og áræðni og boðið að sækja starfskynningar innanhúss sem gefur því möguleika á að kynnast öðrum verkefnum og hlutverkum.

Vörður veitir viðskiptavinum sínum tækifæri til að veita endurgjöf á þá þjónustu sem þeir njóta hjá félaginu og metur þá um leið árangur starfa og framlegð starfsmanna. Endurgjöfin er hvatning til starfsfólks að sýna afburða frammistöðu og góða þjónustu.

Mannauðssvið Varðar kemur að öllum ráðningum til að tryggja fagleg og samfelld vinnubrögð. Nýráðningar eru auglýstar innanhúss og stendur öllum stafsfólki til boða að sækja um laus störf, uppfylli það kröfur um hæfni og getu. Mikil áhersla er lögð á að bjóða nýtt starfsfólk velkomið með öflugri nýliðamóttöku. Í henni felst fræðsla og kynning á helstu þáttum í starfsemi félagsins. Þannig er stuðlað að því að nýtt fólk nái að upplifa og aðlagast vinnustaðnum hratt og vel, upplifi menningu félagsins og skapi fljótt jákvæð tengsl við vinnustaðinn.

Þekkingardrifið umhverfi

Vörður leggur áherslu á viðeigandi þekkingu starfsfólks á hverjum tíma, sem er lykill að árangri. Mikilvægt er að starfsfólk sé vel upplýst, hæft og búi yfir sérþekkingu á faginu. Félagið fjárfestir í þekkingu starfsfólks, hvetur einstaklinga til að sækja sér þekkingu, býður sérsniðin og almenn námskeið og stuðlar þannig að starfsmiðaðri og einstaklingsmiðaðri þjálfun.

Vörður vill stuðla að þekkingarstjórnun og lögð er rík áhersla á að starfsfólk miðli þekkingu sinni til samstarfsfólks. Með þátttöku í endurmenntun, þjálfun og fræðslu aukast möguleikar starfsfólks á að styrkjast og þróast í starfi. Með þetta að leiðarljósi skapar Vörður þekkingardrifið starfsfólk og myndar um leið lærdómssamfélag.

Þróun starfa, og framtíðin með öllum sínum kröfum, kallar á síaukna endurmenntun og framsækni í fræðslu og þjálfun nýrrar getur og færni. Vörður horfir til framtíðar og hvetur starfsfólk til að finna til ábyrgðar við að þroskast og þróast í starfi með framtíðarkröfur að leiðarljósi.

Starfskjör

Vörður leggur áherslu á að bjóða samkeppnishæf kjör sem er ein lykilforsenda þess að halda í gott og frambærilegt starfsfólk. Unnið er í anda jafnréttis og eftir reglum jafnlaunavottunar sem tryggir sanngirni í öllum ákvörðunum um starfskjör. Þær breytur sem félagið horfir til í öllum sínum ákvörðunum varða þætti eins og árangur, gæði starfa, ábyrgð, álag, frammistöðu, endurmenntun, starfsreynslu og fleira.

Árangurs- og umbótadrifin fyrirtækjamenning

Framsækið starfsumhverfi

Vörður leitast eftir því að hafa starfsumhverfi, tæki og aðbúnað með hvað bestum hætti á hverjum tíma. Hjá félaginu er boðið upp á verkefnamiðaða vinnuaðstöðu þar sem starfsfólk getur nýtt ólíkar starfsstöðvar eftir eðli verkefna og starfa hverju sinni. Starfsmannarými býður upp á aðstöðu til slökunar og æfinga sem nauðsynlegt getur verið þeim sem sinna kyrrsetustörfum og starfa við mikið áreiti alla daga. Lögð er áhersla á að hafa starfsumhverfið fjölbreytt og nútímalegt sem styður við starfsemina og um leið sveigjanlegan vinnutíma þar sem því verður við komið. Allur aðbúnaður á vinnustaðnum er til fyrirmyndar og öryggi tryggt en þessir þættir styðja við vellíðan starfsfólks.

Markmið Varðar er að stuðla að heilsusamlegu líferni starfsfólks, bæði andlegu og líkamlegu. Hluti af menningu félagsins er að skapa heilsuvitund. Stutt er við markmiðið með fjölbreyttum hætti, s.s. með fræðslu, hollustu í hádeginu og góðum millibita alla daga, veitingu íþrótta-, tómstunda- og samgöngustyrkja og sveigjanleika í vinnu. Þá er veittur stuðningur við andlega og líkamlega heilsu starfsfólks með aðgengi að og stuðningi frá fagaðilum og fleira sem stuðlar að góðri heilsu, vitund og hreysti starfsfólks í leik og starfi.

Innan Varðar starfar öflugt starfmannafélag (SVAT) sem leggur sitt af mörkum við að halda uppi góðu félagslífi með því að standa fyrir fjölskylduvænum viðburðum og öðrum viðburðum til að styrkja samstöðu og gleði meðal starfsfólks.

Jákvæð menning

Vörður leggur áherslu á vellíðan starfsfólks, jákvæðni, uppbyggilegt umhverfi og góðan starfsanda. Félagið vill að starfsfólk geti samræmt starfsskyldur sínar annars vegar og ábyrgð gagnvart fjölskyldu hins vegar. Vörður styður við sveigjanleika í vinnu og horfir til þess að skipulag taki tillit til fjölskylduaðstæðna starfsfólks á sama tíma og þarfa félagsins. Þættir í starfseminni eru greindir með mánaðarlegum vinnustaðagreiningum og eru niðurstöður nýttar til að hlúa að vinnustaðnum, menningunni og árangri á lykilvísum. Einn áhrifaþáttur í uppbyggingu á ánægjulegri fyrirtækjamenningu eru öflugir leiðtogar. Vörður leggur áherslu á að þjálfa og þróa leiðtoga sem styðja við stefnumótandi vegferð félagsins, hlúa vel að mannauð og styðja undir árangur. Starfsfólk er einnig ábyrgt fyrir því að byggja upp jákvæða fyrirtækjamenningu, skapa öfluga liðsheild og gott starfsumhverfi, sem um leið stuðlar að bættri starfsánægju.

Samskipti og teymisvinna

Vörður stuðlar að uppbyggilegum, jákvæðum og lausnarmiðuðum samskiptum sem einkennast af faglegu viðmóti, gagnkvæmri virðingu, umhyggju og jafnræði. Áhersla á teymisvinnu er töluverð en þar reynir mikið á traust og samskipti. Teymisvinna er notuð til að auka sköpunargleði, skilning og lærdóm en hún eykur einnig traust manna á milli, þjálfar einstaklinga í því að færa rök fyrir máli sínu og hvetur til ákvarðanatöku. Samfélagslega ábyrgur rekstur

Sjálfbærni í rekstri

Vörður einsetur sér í allri starfsemi sinni að hafa jákvæð áhrif á samfélagslega þróun og umhverfið sem félagið starfar í. Vörður ábyrgist að starfað sé eftir stefnu um samfélagslega ábyrgð með því að setja skýr markmið sem unnin eru í samstarfi við hagsmunaaðila og samræmast heildarstefnu félagsins. Í stefnunni er eitt af markmiðunum að vera leiðandi fyrirtæki þegar kemur að því að rækta mannauðinn. Þannig ætlar félagið að hlúa að heilsu og vellíðan, vera fjölskylduvænt fyrirtæki þar sem horft er til samræmingar vinnu og einkalífs og leggja áherslu á jafnrétti í hvívetna.

Vörður vinnur eftir Heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna og er fyrsta tryggingafélagið á íslandi til að gefa út sjálfbærniskýrslu þar sem uppgjör eru unnin með hliðsjón af áhrifum félagsins á umhverfið, samfélagið og stjórnarhætti. Vörður hefur valið sér að setja sérstaka áherslu á heimsmarkmið sem snúa að heilsu og vellíðan (3), jafnrétti kynjanna (5) og ábyrgri neyslu og framleiðslu (12).

Jafnrétti

Jafnréttisstefnu Varðar er ætlað að tryggja réttindi um jafna stöðu og rétt kvenna og karla innan félagsins óháð aldri, kyni, litarhætti, trúarbrögðum, skoðunum, þjóðerni, kynhneigð eða fötlun og tryggja að hver starfsmaður sé metinn á eigin forsendum. Velferðarnefnd er starfandi innan félagsins en hlutverk hennar er meðal annars að fylgja eftir jafnréttisstefnunni og áætlun hennar sem og að vinna að málum sem snúa að einelti, kynferðislegri áreitni og kynbundnu áreiti.

Markmið jafnlaunastefnunnar er að tryggja að ávallt sé horft til sanngirnis og jafnréttis í öllum launaákvörðunum innan félagsins.

Heilsa og vellíðan Vellíðan, heilsa og öryggi starfsfólks, bæði innan og utan vinnu, er Verði mikilvæg og er starfsfólk hvatt til að huga að þessum þáttum. Með því styður það undir ánægju og árangur í starfi. Vörður hefur komið á samstarfi með fagaðilum til að tryggja að heilsa og vellíða starfsfólks sé ávallt í forgangi og það fái formlega og faglega meðferð. Áhættumat starfa er reglulega unnið með aðstoð frá utanaðkomandi sérfræðingum og gripið til ráðstafana ef þörf þykir. Vörður stenst allar lagalegar kröfur um vinnuvernd, bæði sem snúa beint að umhverfinu sem og félagslega og andlega þættinum.

Vörður vill stuðla að farsælum starfslokum starfsfólks vegna aldurs og hefur sett sér verklag þeim tengdum sem vel er kynnt innan félagsins. Starfsfólk sem nálgast eftirlaunaaldur getur haft áhrif á það hvernig því hugnast að haga aðdraganda starfsloka sinna en félagið bíður starfsfólki einnig upp á sérsniðið námskeið og ráðgjöf til að aðlagast ferlinu betur.

Hluttekning, vinátta, traust og umhyggja er mikilvægur þáttur í samstarfshópnum og er lögð áhersla á að starfsfólk hugi að þessum þáttum gagnvart hvort öðru. Vörður hefur mótað sér stefnu og aðgerðaráætlun gegn einelti, kynbundnu áreiti, kynferðislegri áreitni og ofbeldi, svokallaða EKKO stefnu. Hún tryggir að viðeigandi úrræði og inngrip séu til staðar og stuðlar að forvörnum og aðgerðum í samræmi við lög og reglur. Allt starfsfólk Varðar, óháð kyni, á rétt á því að komið sé fram við það af virðingu og að það sæti ekki einelti, kynbundnu áreiti, kynferðislegri áreitni eða ofbeldi. Eftirsóknarverður vinnustaður

Með því að einblína á ánægju starfsfólks í árangurs- og umbótadrifinni fyrirtækjamenningu og stuðla að samfélagslega ábyrgum rekstri mótar Vörður eftirsóknaverðan vinnustað.

Vörður býður upp á ánægjulegt, hvetjandi en um leið krefjandi starfsumhverfi þar sem horft er til starfsánægju sem lykilmælikvarða. Öflug fyrirtækjamenning ríkir þar sem áheyrsla er lögð á vellíðan, jákvæðni og góðan starfsanda en um leið á árangur og umbætur. Nútímalegt umhverfi er til staðar þar sem framsækin hugsun ræður ríkjum og þekkingardrifið starfsfólk tekur upplýstar ákvarðanir. Vörður leggur áherslu á að starfsfólk nái að samræma vinnu og einkalíf með því að móta sveigjanlegt starfsumhverfi.

Starfskjör og aðbúnaður Varðar eru samkeppnishæf á markaði. Einstaklingar eru metnir á eigin forsendum og ákvarðanir um starfskjör byggja á jafnlaunakerfi en um leið er horft til frammistöðu, eðli starfa, álags og ábyrgðar. Starfsaðstæður bjóða einnig upp á stöðuga endurgjöf þegar kemur að þjónustu og frammistöðu sem gefa einstaklingum næg tækifæri til að þroskast í starfi. Starfsfólk er einnig hvatt til að koma með nýjar leiðir til að einfalda störf og auka ánægju viðskiptavina.

Unnið er í anda jafnréttis í hvívetna en einelti, kynferðisleg áreitni, kynbundið áreiti og ofbeldi er fordæmt og aldrei liðið á vinnustaðnum.

Með öfluga mannauðsstefnu að leiðarljósi er Vörður ávallt eftirsóknarverður vinnustaður #1 Mælingar og mælaborð mannauðs – styður við árangur stefnunnar.

Vörður hefur innleitt mælaborð mannauðs og sett lykilmælikvarða á þau markmið sem það vinnur að og tengjast mannauðsmálum. Mælaborðið styður undir árangur í rekstri, eykur vitund stjórnenda, auðveldar ákvarðanir og hefur forspárgildi. Félagið gerir einnig mánaðarlegar vinnustaðagreiningar og nýtir niðurstöður til framfara og umbóta á ýmsum þáttum í vinnuumhverfinu.

Uppfært 25.11.2019