Um­ferðar­reglur og öryggi fyrir Hjólað í vinnuna

08. maí 2024

Hjólað í vinnuna hefst 8.maí og margir sem ætla að nota annan ferðamáta en bílinn til að komast í vinnuna. Átakið er hvatning til að notast við virka og umhverfisvæna ferðamáta en með því er t.d. átt við að hjóla, labba, hlaupa eða taka strætó til vinnu. Samhliða átakinu og hækkandi sól má búast við aukinni umferð á göngustígakerfinu og mikilvægt að sú umferð gangi vel og óhappalaust.

Umferðarreglur á hjólastígum

Það er hægri umferð á Íslandi og sú regla gildir á stígunum líka. Höldum okkur hægra megin og tökum fram úr vinstra megin. Sem betur fer hefur stígum fjölgað þar sem gert er ráð fyrir gangandi umferð öðru megin en reiðhjólum og smáfarartækjum hinum megin. En það er ekki algilt og þar sem umferðin er blönduð verður hjólreiðafólk að fara hægar og hringja bjöllu er það nálgast gangandi umferð. Þrátt fyrir miklar umbætur undanfarin ár verður svo að segjast að sumir stígar eru mjóir og illa merktir. Engin uppskrift er til um hvernig er best að fara þá nema rólega.

Hvaða hámarkshraði gildir á stígunum?

Þar sem er blönduð umferð eiga hjólin að fara framúr á gönguhraða fótgangandi. Samkvæmt lögum mega smáfarartæki og rafmagnshjól ekki fara hraðar 25 km/klst og það er ágætis viðmið fyrir aðra umferð hjóla líka. Gleymum samt aldrei meginstefi umferðarlaganna um alla umferð: Hraða skal jafnan miða við aðstæður með sérstöku tilliti til öryggis annarra.

Hvað er hjálmurinn þinn gamall?

Almennt mæla framleiðendur reiðhjólahjálma með því að þeim sé skipt út á 5 ára fresti. Ef komin er sýnileg skemmd á hjálminn þinn er samt betra að kaupa nýjan þó 5 ár séu ekki liðin. Plastið sem hjálmurinn er framleiddur úr er útsettur fyrir sólarljósi og varnarefnið inn í hjálminum rýrnar með árunum. Hjálmaskylda er fyrir alla 16 ára og yngri á reiðhjólum og smáfarartækjum. Við mælum með að allir noti hjálm til þess að draga úr líkindum á alvarlegum höfuðmeiðslum ef fólk dettur.

Notum góða lása

Hjólreiðaþjófnaður er hvimleitt vandamál en öruggasta forvörnin þar eru öflugir lásar. Það þarf að læsa hjólum með öflugum lás ef þau standa úti og það er góð regla að skrá hjá sér verksmiðjunúmer hjólsins. Það er of auðvelt að klippa sundur ódýra víralása og þá ætti ekki að nota fyrir verðmæt hjól. Kaupið frekar sterkari lása úr hertu stáli, keðjur, tommustokkalása eða D-lása. Sölumenn í reiðhjólaverslunum veita ráðgjöf um val á lásum en líka er hægt að fletta upp á netinu hvaða lásar eru sterkastir. Þá eru þeir flokkaðir eftir styrk (t.d. brons-silfur-gull-demantur) sem segir til um hversu auðvelt eða erfitt er að brjóta þá upp.

Verum vakandi í umferðinni á göngu- og hjólastígum

Hvort sem þú ert gangandi, hlaupandi eða hjólandi þá verður þú að vera vakandi fyrir umhverfinu og umferðinni. Svo vitnað sé til almannaróms þá kvarta sumir yfir því að aðrir séu utan við sig eða tillitslausir á stígunum. Tónlistin má sem dæmi ekki vera svo hávær í eyrunum að þú heyrir ekki í bjöllunni þegar hjólari nálgast þig. Göngu- og hjólahópar eiga ekki að mynda breiðfylkingar sem taka allt plássið á stígnum og það getur verið hættulegt gefa hundinum of lausan tauminn þar sem aðrir þeysast um. Það verður því að vera góður og jafn taktur i í umferðinni hjá öllum á göngustígunum og merkjagjöf í lagi.

Er hjólið í góðum gír?

Ástand hjólsins skiptir miklu máli um upplifun þína á hjólaferðinni. Gættu sérstaklega að hafa nægan lofþrýsting í dekkjum og vel smurða keðju. Það stendur á dekkinu hver ráðlagður þrýstingur er, bæði í börum og pundum per fertommu (psi) og flestar hjólapumpur sýna bæði. Stilltu hæðina á sætinu þannig að þú réttir nánast alveg úr fætinum þegar pedalinn er í lægstu stöðu. Ekki streða að óþörfu með of lágt stilltan hnakk þannig að hnén á þér nemi við eyrun. Reyndu á læri og kálfa þegar þú hjólar en minna á bak og mjaðmir. Ef þú ert í vafa um eitthvað tengt hjólinu þá er alltaf hægt að fara í hjólabúð og fá ráðgjöf.

Regluleg hreyfing hefur margþættan ávinning fyrir heilsuna og dregur úr líkum á sjúkdómum. Með því að hjóla í vinnuna velur þú líka umhverfisvænni fararmáta og þarft ekki að hugsa um hvort þú fáir stæði fyrir bílinn. Á álagstímum í umferð munar ekki miklu í tíma hvort þú ferð á bíl eða hjólar og suma daga verður þú sennilega fljótari á hjólinu. Gleðilegt sumar og góða ferð.

Tryggjum fólk á hreyfingu

Regluleg hreyfing hefur margþættan ávinning fyrir heilsuna. Hún minnkar líkur á sjúkdómum, eykur lífsgæði og lengir líf okkar. Það er mikilvægt að hafa réttar tryggingar fyrir alla fjölskylduna hvort sem það er heima eða þegar þú stundar hreyfingu.

Skoða nánar

author

Vörður tryggingar

08. maí 2024

Deila Frétt

Fleiri fréttir