Vona að ég nái að veita yngri iðkendum innblástur

12. júlí 2024

Höskuldur Gunnlaugsson, fyrirliði meistaraflokks karla hjá Breiðabliki er fótboltaáhugafólki, eflaust vel kunnur, enda hefur hann verið að gera góða hluti undanfarið. Vörður er eins og áður aðalstyrktaraðili Breiðabliks og fengum við að spyrja kappann spjörunum úr um ýmislegt sem viðkemur boltanum, heilsunni og lífinu almennt. 

Fyrsta mál á dagskrá, svefn. Hversu mikilvægur er hann fyrir þig sem íþróttamann? 

„Svefninn skiptir miklu máli. Áður var ég ekki mikið að velta honum fyrir mér, en í seinni tíð hef ég reynt að temja mér betri svefnvenjur og það skilar sér beint út á völl“ segir Höskuldur og bætir við að lykillinn sé að vera í góðri rútínu. „Svefngæðin eru líka best ef ég er ekki að nasla mikið á kvöldin og fæ mér góðan kvöldgöngutúr.“ 

Talandi um nasl, hvað færðu þér að borða fyrir leik? 

„Við erum nokkrir í liðinu sem förum nánast undantekningarlaust á Saffran á leikdegi. Þar fær maður næringarmikinn og góðan mat sem hefur aldrei klikkað. Svo er auðvitað mikilvægt að vera vel vökvaður yfir daginn,“ segir Höskuldur sem leggur mikla áherslu á hollt og gott mataræði. „Ég er samt ekki fanatískur, reyni að halda svona 80/20 hlutfalli – það er 80% hollt,“ bætir hann glettinn við. 

Gott að vera með marga bolta á lofti 

Íþróttamenn þurfa ekki aðeins að halda líkamanum í standi, því andlega hliðin skiptir einnig gríðarlegu máli. En hvernig skyldi Höskuldur halda toppstykkinu í lagi? 

„Lykillinn fyrir mér er að binda ekki alla sjálfsmyndina við fótboltann. Mér líður vel þegar ég er með marga bolta á lofti og það hefur í gegnum tíðina hjálpað mér að dreifa huganum og halda mér ferskum. Auðvitað er svo bara mikilvægast að vera í kringum gott fólk.“ 

„Þetta skiptir klárlega máli“ 

Eins og aðrir ungir krakkar átti Höskuldur margar fyrirmyndir í boltanum á yngri árum, bæði innlendar og erlendar, og má þar nefna David Beckham. 

„Hérna á Íslandi horfði ég svo auðvitað upp á marga frábæra leikmenn spila með Breiðablik, til dæmis Alfreð Finnbogason og Kristin Steindórsson, sem er einmitt úr Kársnesinu eins og ég,“ segir Höskuldur sem sjálfur vonast til að veita yngri iðkendum innblástur. „Ég man vel hvað maður leit mikið upp til leikmannanna í meistaraflokknum þegar maður var ungur, þannig þetta skiptir klárlega máli.“ 

Lífið er ekki bara fótbolti 

Þó að fótbolti sé auðvitað efstur á blaði í augnablikinu er Höskuldi ýmislegt annað til lista lagt, meðal annars þykir honum gaman að grípa í golfkylfurnar. 

„Það hefur sprottið upp rosaleg golfmenning hjá vinahópnum að undanförnu. Ég er að reyna að halda í við þá og má segja að ég hafi byrjað að spila af einhverju viti í fyrra,“ kveður Höskuldur, sem er með 18,9 í forgjöf. Aðspurður hvort hann eigi uppáhaldsvöll nefnir hann sinn heimavöll, Leirdalinn, þótt honum þyki líka sérstaklega skemmtilegt að spila golf í Vestmannaeyjum. 

En hvað skyldi kappinn ætla að taka sér fyrir hendur seinna meir þegar hann leggur skóna á hilluna? 

„Ég sé fyrir mér að ég verði aktívur að fótboltaferlinum loknum. Mér finnst gaman að taka crossfit-æfingar, fara í fjallgöngur, spila golf, lyfta lóðum, synda, spila tennis og padel. Þannig það er ansi margt sýnist mér.“ 

Að lokum, hvert er þitt besta heilsuráð? 

„Fjárfestu mest í fólkinu þínu, það er það dýrmætasta sem þú átt,“ segir Höskuldur, sem okkur þykja hin prýðilegustu lokaorð. 

Saman vilja Vörður og Breiðablik stuðla að hollri hreyfingu og heilbrigðu líferni og þannig styðja við heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um heilsu og vellíðan. Regluleg hreyfing hefur margþættan ávinning fyrir heilsuna, hún minnkar líkur á sjúkdómum, eykur lífsgæði og lengir lífið.   

author

12. júlí 2024

Deila Frétt