13. nóvember 2020
Vörður hefur hlotið viðurkenningu Jafnvægisvogarinnar 2020, annað árið í röð. Félag kvenna í atvinnulífinu, ásamt samstarfsaðilum úr forsætisráðuneytinu og viðskiptalífinu standa að hreyfiaflsverkefninu Jafnvægisvogin.
Jafnvægisvogin veitti viðurkenningarnar úr hópi aðila sem undirrituðu viljayfirlýsingu fyrir tveimur árum um að vinna að því að jafna hlutfall karla og kvenna í framkvæmdastjórnum fyrirtækja á Íslandi og styðja við innleiðingu á kynjakvóta í stjórnum hlutafélaga. Markmiðið er að árið 2027 verðu kynjahlutfallið 40/60 í framkvæmdastjórnum fyrirtækja á Íslandi. Stór hluti fyrirtækjanna hafa náð góðum árangri á þessu sviði og fjölgaði þeim sem náðu markmiðinu.
Skýr stefna í jafnréttismálum
Vörður hefur skýra sýn og stefnu í jafnréttismálum sem tryggir sanngirni, jöfn tækifæri og kjör alls starfsfólks. Félagið hefur frá árinu 2014 starfrækt jafnlaunakerfi og hlotið Gullmerki PCW, jafnlaunavottun VR og jafnlaunamerki velferðarráðuneytisins, fyrst fjármálafyrirtækja. Reynsla Varðar er að fjölbreytt samsetning mannauðs auki víðsýni, kalli fram ólík sjónarhorn og fjölbreytta nálgun verkefna svo ekki sé talað um almenna gleði og ánægju. Stjórn og framkvæmdastjórn Varðar er að meirihluta skipuð konum og hlutfall millistjórnenda er nærri því að vera jafnt.
Vörður tryggingar
13. nóvember 2020