Verum örugg í vor­um­ferðinni

23. apríl 2023

Nú eru árstíðaskipti í umferðinni og tími sumardekkja runninn upp. Maí er líka skoðunarmánuður ferðavagna, bifhjóla og fornbíla. Takturinn í umferðinni er að breytast, bifhjól koma á götuna, fleiri fara út að ganga og átakið hjólað í vinnuna hefst. Það er umhverfislegur ávinningur af því að nota liprari farartæki í léttari færð og betra veðri. Áherslan á öryggi verður samt að fylgja líka en tölfræði alvarlegra umferðarslysa bendir til að úrbóta sé þörf. Árið 2022 voru alvarlega slasaðir og látnir í umferðinni 204 sem er 31% yfir markmiðum umferðaröryggisáætlunar ríkisstjórnarinnar. Hár fjöldi alvarlega slasaðra á rafhlaupahjólum og reiðhjólum er áhyggjuefni og bifhjólaslys eru of mörg.

Líttu tvisvar

Árið 2022 slösuðust 22 alvarlega á bifhjólum en það er töluvert yfir markmiðum. Ef þú átt bifhjól en hefur ekki sest á það lengi er kjörið að taka æfingu áður en farið er í lengri ferðir. Farðu á plan og taktu léttar jafnvægisæfingar, æfðu öfugstýringu og nauðhemlun. Ef það eru mörg ár síðan þú fórst á bifhjól síðast þá gæti verið skynsamlegt að taka upprifjunartíma hjá ökukennara. Ökumenn bifreiða geta líkið spilað stórt hlutverk í að auka öryggi bifhjólafólks með því að vera meðvitaðir um umferð bifhjóla, líta tvisvar á gatnamótum og áður en þeir skipta um akrein.

Alvarleg slys á reið- og rafhlaupahjólum eru of mörg

Árið 2022 urðu 82 alvarleg slys á hjólandi vegfarenda, þar af 48 á rafmagnshlaupahjóli, 28 á reiðhjóli en 5 af öðrum gerðum. Þessi fjöldi er 210% yfir markmiðum um fækkun slysa en neikvæða slysaþróun vegfarenda á ýmiss konar hjólum hefur verið viðvarandi undanfarin 3 ár. Það ætti að ýta við okkur að bæta okkur á þessu sviði. Ekki liggur fyrir greining á orsökum slysanna en fyrri rannsóknir benda til þess að meiðsli á efri útlimum séu algeng, fólk ýmist lendir á hliðinni við fall eða ber hendur fyrir sig. Slys á rafhlaupahjólum eru frábrugðin hjólreiðaslysum í tveimur grundvallaratriðum. Hlutfall ölvaðra sem detta á rafhlaupahjólum er hátt og notkun öryggisbúnaðar er mjög ábótavant.

Markmið um fækkun alvarlegra slysa í bifreiðum nást frekar

Það er ánægjulegt að sjá að markmið um fækkun slysa sem rekja má til ölvunar- eða fíkniefnaaksturs nást, en jafnframt æskilegt að svipuð þróun ætti sér stað í flokki rafhlaupahjóla. Alvarlegum slysum ungra ökumanna 17-20 ára heldur áfram að fækka, sem og framanákeyrslum. Verulegt átak hefur verið gert sl. áratugi í aðgreiningu umferðar úr gagnstæðum áttum og það skilar sér.

Vert er að fagna því sem vel er gert og halda áfram á sömu braut. En við viljum ná markmiðum okkar líka í fjölbreyttri umferð á stígum og götum í þéttbýlinu. Æskilegt er að bæta við þekkingu á því sviði og nýta við fækkun umferðarslysa. Undanfarna áratugi hefur verið lögð þung áhersla á að fækka alvarlegum umferðarslysum og banaslysum á þjóðvegum í dreifbýli enda „beindi“ tölfræði slysanna okkur þangað. Spurningin er hvort við höfum gleymt okkur og vanrækt aðra umferð eða náum ekki að bregðast nógu hratt við breytingum.

Eru dekkin í lagi?

Viðskiptavinir Varðar fá sérkjör á dekkjum og annarri þjónustu hjá samstarfsaðilum okkar.

author

Vörður tryggingar

23. apríl 2023

Deila Frétt

Fleiri fréttir