forvarnir

Vertu klár í eldhúsinu

23. mars 2022

Eldvarnarteppi hafa margsannað gildi sitt og ættu að vera á öllum heimilum og sumarbústöðum. Matseld er algeng orsök eldsvoða og ætti eldvarnarteppi að vera hluti af eldhúsinu. Ef upp kemur eldur við matseld er mikilvægt að geta gripið í eldvarnarteppið. Best er að hafa það staðsett á sýnilegum og aðgengilegum stað en þó ekki of nærri eldunarstaðnum, því komi upp eldur þá getur reynst erfitt að ná í eldvarnarteppið.

Skvettið alls ekki vatni á eld í olíu því það getur valdið sprengingu. Vatn og olía eru ólík efni og blandast ekki. Ef vatni er hellt á olíu sem logar sekkur vatnið í olíuna og vegna hitans hvellsýður vatnið. Við það þeytast vatnsdropar út í loftið og draga með sér hluta af brennandi olíunni og þannig getur eldur breiðst hratt úr í allar áttir. 

Eldvarnarteppið útilokar súrefni frá eldinum sjálfum en hann nærist á súrefni. Með því að koma eldvarnarteppi yfir eldinn og þétta vel þá útilokum við að súrefni berist í eldinn og með þeim hætti kæfum við hann. 

Allt miðast þetta við eld á byrjunarstigi. Gullna reglan er alltaf að gæta að eigin öryggi og koma sér og sínum út ef eldurinn hefur breiðst út.

author

Vörður tryggingar

23. mars 2022

Deila Frétt