fréttir

Sjálfbærniskýrsla Varðar 2019

02. apríl 2020

Vörður gefur árlega út sjálfbærniskýrslu sem er hluti af samfélagsábyrgð félagsins. Í henni eru ófjárhagslegar upplýsingar um áhrif starfseminnar á umhverfið, félagsmál og stjórnarhætti. Skýrslan er unnin í samræmi við UFS-viðmið Nasdaq með tilvísun í Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun og leiðbeiningar Greenhouse Gas Protocol.

Vörður einsetur sér í allri starfsemi sinni að hafa jákvæð áhrif á samfélagslega þróun og umhverfið sem félagið starfar í. Samfélagsábyrgð Varðar grundvallast á að starfa af heilindum til hagsbóta fyrir alla hagaðila, eins og viðskiptavini, starfsfólk, eigendur og samfélagið í heild, til að skapa sameiginlegt virði. Samfélagsábyrgðin er samþætt stefnu og starfsháttum Varðar og í sinni einföldustu mynd snýst hún um ábyrga starfshætti. Grunnurinn er siðferðislegur og forsenda góðra verka og faglegra ákvarðana.

Umhverfið varðar okkur öll

Markvisst er unnið að því að auka umhverfisvæna þætti í allri starfsemi Varðar og draga úr neikvæðum áhrifum á umhverfið. Í sjálfbærniskýrslunni kemur fram að Vörður hefur bein og óbein áhrif á loftlagsbreytingar í gegnum starfsemi sína. Langmest losun kemur frá ferðum starfsfólks til og frá vinnu. Nemur hún um 53 tonnum af koltvísýringi og minnkar um 8% milli ára. Þrátt fyrir aukin umsvif starfseminnar, bæði í veltu og fjölgun starfsfólks, er heildarlosun gróðurhúsalofttegunda frá rekstri að dragast saman um 7% milli ára.

Frá 2016 hefur reksturinn verið kolefnisjafnaður í samvinnu við Kolvið og á síðasta ári skipti félagið út bensín- og díselbílum fyrir rafmagnsbíla. Vörður er aðili að Festu og eitt af 104 fyrirtækjum sem undirrituðu loftslagsyfirlýsingu Festu og Reykjavíkurborgar árið 2016 þar sem fyrirtækin skuldbinda sig til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda, minnka myndun úrgangs og mæla árangurinn.

Fyrirmyndarfyrirtæki í stjórnarháttum og jafnrétti

Jafnrétti er stór hluti af samfélagsábyrgð Varðar. Sjálfbærniskýrslan sýnir að kynjahlutföll innan félagsins eru nokkuð jöfn. Stjórn og framkvæmdastjórn eru t.d. að meirihluta skipuð konum og hlutfall millistjórnenda er nærri því að vera jafnt. Kynjajafnrétti hefur lengi ríkt hjá Verði og má segja að það sé greipt í menningu félagsins. Árið 2014 varð Vörður fyrsta fjármálafyrirtækið á Íslandi til að fá jafnlaunavottun og á síðasta ári hlaut félagið Jafnvægisvog FKA. Þá var Vörður nýlega valið Fyrirtæki ársins í könnun VR og fékk hæstu einkunn fyrir jafnrétti meðal stórra fyrirtækja.

Í skýrslunni kemur einnig fram að Vörður hefur sett sér siðareglur í þeim tilgangi að vinna að samfélagslegri ábyrgð, stuðla að heiðarleika í samskiptum við viðskiptavini, viðhafa réttsýni og sanngirni í viðskiptum og efla þannig traust viðskiptavina og almennings. Þá fylgir Vörður leiðbeiningum Viðskiptaráðs um stjórnarhætti fyrirtækja og fékk félagið viðurkenningu í fyrra fyrir að vera fyrirmyndarfyrirtæki í stjórnarháttum.

Skoðaðu sjálfbærniskýrslu Varðar 2019 hér.

author

Vörður tryggingar

02. apríl 2020

Deila Frétt