forvarnir

Mikilvægi öryggisbelta

22. júlí 2020

Bílbeltin eru ótvírætt einn mikilvægasti öryggisbúnaður bílsins og hefur notkun þeirra oftar en ekki bjargað mannslífum, komið í veg fyrir slys á fólki í umferðaróhöppum og dregið mjög úr áverkum í öðrum slysum. Samkvæmt lögum eiga allir farþegar bíls að vera í öryggisbeltum eða öðrum öryggisbúnaði.

Börn undir 36 kíló eiga að vera í sérstökum öryggisbúnaði, í bílstól eða á bílpúða með baki og með spennt belti. Tryggja verður að öryggisbúnaður sé rétt notaður og að hann hæfi stærð og þyngd barnsins. Fylgjast verður með því hvort barn losi öryggisbúnað eða geri hann á einhvern hátt óöruggan, svo sem með því að færa þverband öryggisbeltis undir handlegg.

Athygli vakin á bílbeltanotkun

Nýr veltibíll var vígður á dögunum en tilgangur hans er að vekja athygli á bílbeltanotkun. Bíllinn er á vegum Brautarinnar, bindindisfélags ökumanna, til að auka umferðaröryggi. Hann verður fluttur á valda staði vítt og breitt um landið til þess að leyfa fólki að prófa að velta á meðan það er fast í öryggisbelti.

Samkvæmt könnun Samgöngustofu láta tæplega 10% Íslendinga það gerast að nota ekki öryggisbelti eða um 35 þúsund einstaklingar. Það eru átta sinnum meiri líkur á því að farþegar í bíl láti lífið ef þeir spenna ekki beltin. Samgöngustofa hefur sett leik í loftið þar sem ökumenn eru hvattir til að setja á sig bílbeltið og ber yfirskriftina: Það tekur bara 2 sekúndur… að spenna beltið.

Förum ávallt gætilega, verum til fyrirmyndar og sjáum til þess að allir á ferð í bíl noti öryggisbelti. Alltaf.

author

Vörður tryggingar

22. júlí 2020

Deila Frétt

Fleiri fréttir