forvarnir

Eldgos, jarðskjálftar og tryggingar

24. febrúar 2021

Vegna hættustigs almannavarna á Reykjanesi og höfuðborgarsvæðinu vekjum við athygli á að allar húseignir og allir lausamunir sem eru brunatryggðir hjá okkur, eru tryggðir hjá Náttúruhamfaratryggingu Íslands. Hvaða tryggingar taka á eldgosum og jarðskjálftum?

Náttúruhamfaratrygging Íslands bætir tjón á öllum brunatryggðum fasteignum sem verða fyrir tjóni vegna eldgosa og jarðskjálfta. NTÍ bætir einnig tjón á innbúi og lausafé, en þó aðeins ef það er brunatryggt hjá almennum tryggingafélögum. Tjón ber að tilkynna til NTÍ. Eigin áhætta er 2% af hverju tjóni, en þó aldrei lægri en kr. 200.000 vegna innbús og lausafjár og kr. 400.000 vegna húseignar.

En hvað með mínar tryggingar?

  • Fasteign Ef þú átt fasteign s.s. íbúð, sumarhús, hesthús eða atvinnuhúsnæði, ber þér að kaupa lögboðna brunatryggingu. Þannig ertu sjálfkrafa með tryggingavernd hjá NTÍ. Ef húseign er talin vera verðmætari en brunabótamat segir til um getur viðbótarbrunatrygging verið góður kostur.

  • Innbú Ef þú ert með Heimilisvernd, sem er samsett trygging fyrir fjölskylduna og innbúið, þá ertu með brunatryggingu á innibúi og lausafé, sem er þá tryggt hjá NTÍ vegna eldgosa, jarðskjálfta og annarra náttúruhamfara. Engu síður er mikilvægt að fara yfir tryggingar á innbúi og lausafé til að tryggja að það fáist bætt ef tjón verður.

Á Mínum síðum hefur þú aðgang að öllum upplýsingum um tryggingarnar þínar. Ef spurningar vakna um tryggingavernd þína getur þú haft samband við okkur í síma 514 1000. Einnig getur þú átt samskipti við okkur í gegnum netspjall á vordur.is og heimsótt okkur á þjónustuskrifstofur okkar í Reykjavík, Reykjanesbæ og Akureyri.

Hvað á að gera þegar verður jarðskjálfti?

For­varn­ir á heim­il­um eru mik­il­væg­ar þegar kemur að jarðskjálftum sem gera sjaldan boð á undan sér, til að minnka lík­ur á slys­um og tjón­um. Hér eru nokkur góð ráð:

Hvernig hugað skal að húsnæði:

  • Festið skápa, hillur og þunga muni í gólf eða veggi. Hafið hjól sem eru á húsgögnum alltaf í læstri stöðu. Ef engin læsing er á hjólunum, setjið þá ramma utan um hjólin til að koma í veg fyrir að húsgagnið fari af stað í jarðskjálfta. Munið hinsvegar að rammi eða læsing á hjólum kemur ekki í veg fyrir að húsgagnið velti

  • Látið þunga muni ekki vera ofarlega í hillum eða á veggjum nema tryggilega festa. Hægt er að nota kennaratyggjó til að tryggja að léttari munir færist ekki úr stað við jarðskjálfta

  • Festið kynditæki og ofna. Kynnið ykkur staðsetningu vatnsinntaks og rafmagnstöflu

  • Festið myndir og ljósakrónur í lokaðar lykkjur

  • Hafið þungan borðbúnað staðsettan í neðri skápum og skúffum og setjið öryggislæsingar eða barnalæsingar á skápahurðir til varnar að innihald þeirra falli út úr þeim

  • Fyrirbyggið að hlutir geti fallið á svefnstaði

  • Gangið vel frá niðurhengdum loftum og upphækkuðum gólfum

  • Byrgið glugga eða setjið öryggisfilmu á rúður til að koma í veg fyrir skæðadrífu glerbrota ef rúða brotnar. Látið rúm ekki standa undir gluggum ef hætta er á jarðskjálftum

  • Hlustið á tilkynningar og fyrirmæli sem gefin eru í útvarpi og munið: Krjúpa-skýla-halda

Ef þú ert innandyra þegar jarðskjálfti byrjar – ekki hlaupa af stað:

  • Haltu kyrru fyrir, mörg slys verða þegar hlaupið er af stað

  • Farðu undir borð eða rúm og haltu þér í borð-  eða rúmfót

  • Krjúptu niður í horni við burðarvegg eða í hurðaropi við burðarvegg

  • Verðu höfuð þitt og andlit með kodda- ef þú vaknar upp við jarðskjálfta

  • Haltu þig frá gluggum – þeir geta brotnað

  • Láttu vita af þér með SMS þegar jarðskjálftinn hættir

Ef þú er utandyra þegar þú finnur jarðskjálfta – ekki hlaupa inn:

  • Vertu áfram úti

  • Ekki vera nálægt háum byggingum sem geta hrunið eða háum trjám

  • Grjóthrun, skriður og snjóflóð geta fallið úr hlíðum og fjalllendi

  • Raflínur geta verið hættulegar – varist að snerta þær

  • Reyndu að komast á opið svæði þar sem byggingar þrengja ekki að

Ef þú ert að keyra bíl þegar þú finnur jarðskjálfta:

  • Legðu bílnum og stoppaðu. Vegir og brýr geta skemmst í jarðskjálfta

  • Hafðu sætisbeltin spennt

  • Haltu kyrru fyrir í bílnum þar sem hann getur varið þig gegn brotum og braki sem fer af  stað í jarðskjálfta – hlustaðu á útvarpið, þar koma jafnan fyrstu upplýsingarnar um jarðskjálftann.

author

Vörður tryggingar

24. febrúar 2021

Deila Frétt