fréttir

Forstjóri Varðar fær Stjórnunarverðlaunin

16. febrúar 2022

Guðmundur Jóhann Jónsson, forstjóri Varðar, hlaut Stjórnunarverðlaun Stjórnvísi 2022 í flokki yfirstjórnenda og voru verðlaunin veitt við hátíðlega athöfn á Grand hóteli 15. febrúar síðastliðinn. Stjórnvísi er stærsta stjórnunarfélag á Íslandi og hefur þrettán ár í röð verðlaunað stjórnendur fyrirtækja sem þykja hafa skarað fram úr á sínu sviði. Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands afhenti verðlaunin.

Guðmundur Jóhann hefur starfað innan vátrygginga í um 35 ár en síðastliðin 16 ár hefur hann starfað sem forstjóri Varðar. Hann hefur leitt uppbyggingu félagsins í erfiðu samkeppnisumhverfi, margfaldað stærð þess og gert það að einu öflugasta og best rekna fyrirtæki landsins. Vörður hefur hlotið margs konar viðurkenningar í gegnum tíðina þannig að eftir því hefur verið tekið. Má þar helst nefna Ánægjuvog, Fyrirmyndarfyrirtæki Creditinfo, Jafnréttisvog, Hvatningarverðlaun fyrir frammúrskarandi samfélagsábyrgð, Fyrirtæki ársins þrjú ár í röð hjá VR og síðast en ekki síst Hvatningarverðlaun jafnréttismála.

Í umsögn dómnefndar segir: Guðmundur er ákafur keppnismaður sem leggur áherslu á öfluga liðsheild, hefur sterka sýn og er mjög fylgin sér. Guðmundur er opin í samskiptum og ávallt hreinskiptin, gengur beint til verks og vinnur í málum. Hann er stemningsmaður, stuðlar að skemmtilegri og uppbyggilegri fyrirtækjamenningu, er góður samstarfsfélagi, óþreytandi við að gefa samstarfsfólki tíma og góð ráð sem gera góðar hugmyndir enn betri. Guðmundur hefur afslappaðan leiðtogastíl sem byggir á sanngirni, virðingu og trausti til samstarfsfólks, um leið og hann gerir ríkar kröfur um árangur. Það kemur skýrt fram í leiðtogastíl Guðmundar hversu jafnréttissinnaður hann er, en jafnréttis- og mannréttindamálum hefur ætíð verið gert hátt undir höfði innan félagsins með frábærum árangri. Guðmundur er fyrirmyndar leiðtogi og samstarfsfélagi sem gefur samstarfsfólki sínu traust, óskorað vald og ábyrgð sem leiðir af sér frábæran árangur heildarinnar.

author

Vörður tryggingar

16. febrúar 2022

Deila Frétt