fréttir

Fjárfestingar í þágu sjálfbærrar uppbyggingar

01. október 2020

Vörður skrifaði nýverið undir viljayfirlýsingu um fjárfestingar í þágu sjálfbærrar uppbyggingar, ásamt Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra, fyrir hönd ríkisstjórnarinnar, og fjölda annarra fyrirtækja á íslenskum fjármálamarkaði. Festa - miðstöð um samfélagsábyrgð og sjálfbærni, Samtök fjármálafyrirtækja (SFF), Landssamtök lífeyrissjóða (LL) og Forsætisráðuneytið unnu að mótun hennar í víðtæku samráði við fulltrúa helstu aðila á fjármálamarkaði.

Okkur er umhugað að draga úr losun gróðahúsalofttegunda og lágmarka neikvæð umhverfisáhrif og sýna þar með frumkvæði og ábyrgð gagnvart umhverfinu og samfélaginu. Með þessu styðjum við einnig heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um aðgerðir í loftlagsmálum en Vörður leggur áherslu á 5 af heimsmarkmiðunum þar sem þau eiga best við kjarnastarfsemi félagsins. Þannig stöndum við vörð um samfélagið, segir Guðmundur Jóhann Jónsson, forstjóri Varðar.

Í viljayfirlýsingunni kemur meðal annars fram að tekið verður tillit til alþjóðlegra skuldbindinga Íslands og þeirra viðmiða sem íslensk stjórnvöld hafa sett sér. Þar má nefna markmiðið um kolefnishlutlaust Ísland eigi síðar en árið 2040, markmið Parísarsamkomulagsins um að dregið verði úr losun gróðurhúsalofttegunda þannig að hlýnun jarðar fari ekki yfir 1,5 gráður og heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun 2030.

Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, Þórey S. Þórðardóttir framkvæmdastjóra LL, Hrund Gunnsteinsdóttir framkvæmdastjóra Festu, Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, Kristján Þór Júlíusson sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, Guðmund Inga Guðbrandsson umhverfis- og auðlindaráðherra og Katrínu Júlíusdóttur framkvæmdastjóra SFF við undirritun í dag.

author

Vörður tryggingar

01. október 2020

Deila Frétt