Starfsfólk Varðar gekk 77% af götum höfuðborgarsvæðisins

09. nóvember 2020

Í október var starfsfólk Varðar hvatt til þess að taka sér hvíld frá daglegu amstri með reglubundnum hætti og rækta líkama og sál með útiveru. Starfsmannafélagið stóð fyrir átaki sem fólst í því að ganga eða hlaupa um sem flestar götur höfuðborgarsvæðisins. Til að gæta öryggis var ákveðið að telja stofnbrautir ekki með og ekki götur án göngustíga, götur í uppsveitum og heimreiðar að bæjum.

Margir nýttu hádegishléið á heimaskrifstofunni og gengu í sínu nærumhverfi en aðrir fóru út síðdegis eða á kvöldin og sumir skelltu sér yfir í önnur bæjarfélög og gengu þar. Hundaeigendur voru sérlega afkastamiklir í átakinu en almennt var þátttakan frábær og skapaðist mikil stemning og góð liðsheild. Starfsfólk hafði á orði að skemmtilegasta við átakið væri að kynnast nýjum götum í borginni, jafnvel í sínu nánasta umhverfi.

Mest 130 götur gengnar á einum degi

Þegar átakið var gert upp í lok mánaðarins kom í ljós að búið var að ganga eða hlaupa um 77,4% af götum höfuðborgarsvæðisins. Mest voru gengnar 130 götur á einum degi og á Seltjarnarnesi voru allar götur gengnar. Þá voru allar götur í tíu póstnúmerum höfuðborgarsvæðisins gengnar og margar götur voru þrammaðar oftar en tíu sinnum enda sumar götur vinsælli en aðrar. Þrátt fyrir að áskorunin sé búin ætla nokkrir göngugarpar að taka að sér að klára allar göturnar sem eftir eru.

Sérlega gott veður var í október og haustlitirnir skörtuðu sínu fegursta sem á örugglega sinn þátt í því hversu vel átakið heppnaðist.

Vörður er heilsueflandi vinnustaður og styður heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um heilsu og vellíðan.

Stöndum vörð um heilsuna.

Hér má sjá á korti þær götur sem voru gengnar í október.

author

Vörður tryggingar

09. nóvember 2020

Deila Frétt