11. mars 2021
Á stjórnarfundi þann 24. febrúar 2021, samþykkti stjórn og forstjóri samstæðureikning Varðar fyrir árið 2020.
Guðmundur Jóhann Jónsson forstjóri Varðar:
„Þrátt fyrir krefjandi samfélags- og efnahagsaðstæður var rekstrarafkoma Varðar á árinu 2020 góð. Hún skýrist helst af góðri ávöxtun fjárfestingaeigna og góðum árangri í persónutryggingastarfseminni. Vörður hefur átt góðu gengi að fagna á liðnum árum. Félaginu hefur ár frá ári vaxið fiskur um hrygg og fengið fleiri og fleiri viðskiptavini úr hópi heimila og fyrirtækja til liðs við sig. Tryggð viðskiptavina er mikil, sem er vísbending um að þeir kunna að meta þjónustu og kjör sem í boði eru. Það er mikill metnaður innan Varðar til að gera stöðugt betur þegar kemur að þjónustu og öðrum þáttum starfseminnar og mikil áhersla lögð á hagkvæmni rekstrar sem skilar sér í samkeppnishæfum kjörum til viðskipatvina.“
Traustur rekstur og sterkur efnahagur
Starfsemi Varðar gekk vel árið 2020 líkt og undanfarin ár og er reksturinn stöðugur og traustur. Hagnaður ársins var 2.026 m.kr. sem er 12% aukning frá fyrra ári og hefur hann aldrei verið hærri í sögu félagsins. Afkoman skýrist helst af góðum árangri í fjárfestingum og af persónutrygginga-starfseminni. Afkoma skaðatryggingarekstursins er jákvæð en versnar milli ára og munar þar mest um verri afkomu í eignatryggingum. Afkoma ökutækjatrygginga er neikvæð en batnar milli ára og er það viðvarandi og krefjandi verkefni að ná jafnvægi í afkomu þeirra.
Iðgjöld ársins hækkuðu um 4% milli ára og námu 12.283 m.kr. Tjón námu 8.565 m.kr. og jukust um 2% milli ára. Fjáreignatekjur hækkuðu um 22% milli ára og námu 1.891 m.kr. Rekstrarkostnaður var 2.903 m.kr. og hækkaði um 13% milli ára. Kostnaðarhlutfall var 21,9% og hækkaði um 1,7% milli ára en helsta ástæðan er áframhaldandi fjárfesting í mannauði og þróun stafrænna þjónustulausna. Heildareignir í árslok námu 28.339 m.kr. sem er hækkun um rúmlega 13% á árinu. Fjáreignir námu 22.450 m.kr. og handbært fé 493 m.kr. Eigið fé hækkaði um 6,5% milli ára og var í árslok 8.644 m.kr. Eiginfjárhlutfall var 30,5% og arðsemi eiginfjár 22,2%. Gjaldþol félagsins samkvæmt Solvency II var 148,8% í árslok en var 144,3% í lok árs 2019.
Á ári hverju koma til nýjar áskoranir í rekstri hvers fyrirtækis. Árið 2020 var engin undantekning hvað það varðar en starfsfólk Varðar tókst á, eins og umheimurinn allur, við fordæmalausar og nýjar áskoranir sem reyndu á hugvit og hugmyndaauðgi hópsins. Kórónuveirufaraldurinn hafði mikil áhrif á alla starfsemi félagsins frá marsmánuði til ársloka. Starfsfólk vann stóran hluta úr árinu í fjarvinnu en þar sem að félagið hafði að miklu leyti fartölvuvætt starfsemina gengu umskiptin yfir í heimavinnu vel. Lokanir á starfsstöðvum félagsins gerðu það síðan að verkum að samskipti við viðskiptavini fóru mestmegnis fram í gegnum stafrænan búnað. Þessar kringumstæður leiddu það svo af sér að viðskiptavinir nýttu sér í auknu mæli Mínar síður og aðrar stafrænar leiðir sem félagið hefur innleitt undanfarin ár.
Iðgjöld lækkuð til að létta undir með viðskiptavinum
Efnahagssamdrátturinn sem kórónuveiran leiddi af sér breytti áður þekktu árstíðarmynstri í starfsemi félagsins. Ein birtingarmynd ástandsins voru færri tjón í helstu flokkum vátrygginga sem stafaði m.a. af samkomubanni, fólk vann heima og mikið dró úr umferð. Í maí var ákveðið að láta viðskiptavini félagsins, einstaklinga og fjölskyldur njóta ávinningsins sem af hlaust og voru tryggingar þann mánuðinn lækkaðar um þriðjung. Lækkunin náði til allra trygginga, s.s. ökutækja-, fasteigna-, innbús- og persónutrygginga og nam hún í heildina liðlega 260 milljónum króna. Viðskiptamenn kunnu vel að meta framlag félagsins inn í þær erfiðu aðstæður sem víða ríktu. Þegar ljóst var að landsmenn væru ekki að fara erlendis í orlof og hvattir til að ferðast innanlands fjölgaði ökutækjum á vegum landsins á ný með tilheyrandi tjónum.
Verðlaun fyrir framúrskarandi samfélagsábyrgð
Vörður fékk á árinu 2020 hvatningarverðlaun fyrir framúrskarandi samfélagsábyrgð sem Creditinfo veitir í samstarfi við Festu, miðstöð um samfélagsábyrgð. Markmiðið með viðurkenningunni er að vekja athygli á því að framúrskarandi rekstur felur í sér að fyrirtæki hámarki jákvæð áhrif sín á umhverfið og samfélagið sem þau starfa í ekki síður en fjárhagslegan árangur sinn. Horft er til þess að fyrirtækin sýni fram á skýra stefnu um samfélagsábyrgð, sjálfbærni, kynjajafnrétti og réttindi starfsfólks.
Vörður hefur markvisst unnið með samfélagslega ábyrgð frá árinu 2012 og með tímanum hefur sjálfbærni náð inn í fleiri þætti starfseminnar. Kolefnisspor félagsins hefur verið reiknað frá árinu 2013 og starfsemin kolefnisjöfnuð frá árinu 2016. Vörður hefur sett sér skýra stefnu í sjálfbærni þar sem horft er til umhverfisþátta, félagslegra þátta og stjórnarhátta og hefur jafnframt tengt kjarnastarfsemi félagsins við heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna. Vörður er stofnaðili að IcelandSIF sem eru samtök um ábyrgar fjárfestingar og hefur skrifað undir viljayfirlýsingu um fjárfestingar í þágu sjálfbærrar uppbyggingar. Félagið fékk jafnlaunavottun árið 2014, fyrst allra fjármálafyrirtækja, er fyrirtæki ársins hjá VR, hefur hlotið Jafnvægisvog FKA síðastliðin tvö ár, er með einkunnina 10 samkvæmt kynjakvarða GEMMAQ í Kauphöll Íslands og hefur verið fyrirmyndarfyrirtæki í stjórnháttum frá 2019, auk þess að vera með vottun samkvæmt ISO staðli um stjórnkerfi upplýsingaöryggis. Þá er Vörður aðili að Festu og þátttakandi í loftlagsyfirlýsingu Festu og Reykjavíkurborgar. Félagið er ákaflega stolt af viðurkenningunni um framúrskarandi samfélagsábyrgð en hún hvetur starfsfólk áfram til góðra verka.
Ný sjálfbærnistefna
Á árinu var unnið að nýrri sjálfbærnistefnu á grundvelli áhættugreiningar á UFS viðmiðum Nasdaq og byggist stefnan m.a. á þessum viðmiðum. Í stefnunni kemur fram að félagið styðji við öll heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna en hefur valið að styðja sérstaklega við fimm þeirra þar sem þau eiga best við kjarnastarfsemi félagsins. Þau eru heilsa og vellíðan, jafnrétti kynjanna, nýsköpun og uppbygging, ábyrg neysla og framleiðsla og aðgerðir í loftlagsmálum. Þá er jafnframt farið yfir hlutverk og ábyrgð stjórnar, stjórnenda, starfsfólks og annarra hagaðila. Stefnan var samþykkt af stjórn þann 26. ágúst 2020 ásamt markmiðum fyrir árið 2021 og lykilniðurstöðum.
Stafrænar þjónustulausnir allan sólarhringinn
Á árinu 2020 var áfram unnið að þróun og innleiðingu stafrænna þjónustuleiða en markmið félagsins er að gera viðskiptavinum kleift að afgreiða algengustu erindi í gegnum snjallsíma eða annan tæknibúnað hvenær sem er sólarhringsins allt árið um kring. Á sama tíma stendur viðskiptavinum einnig til boða að leita til starfsmanna á skrifstofum félagsins kjósi þeir það. Þannig er ekki hvikað frá stefnu félagsins um að vera stafræn en mannleg. Markmið félagsins með þróun stafrænna lausna er fyrst og síðast að auka og bæta þjónustuframboð félagsins. Öll þjónusta Varðar er aðgengileg á netinu og hafa stafrænar þjónustulausnir félagsins komið sér ákaflega vel fyrir viðskiptavini í kórónuveirufaraldrinum og eru mikið notaðar.
Um Vörð
Vörður tryggingar hf. er alhliða vátryggingafélag í eigu Arion banka hf. sem býður tryggingar fyrir heimili og fyrirtæki. Félagið leggur áherslu á einföld og þægileg vátryggingaviðskipti á samkeppnishæfu verði. Meðaltalsfjöldi stöðugilda var á síðasta ári 102 og eru viðskiptavinir félagsins liðlega 62.000 talsins. Starfsfólk Varðar vinnur markvisst að því að efla þjónustu og fjölga valkostum í tryggingaþjónustu til viðskiptavina.
Aðalfundur Varðar trygginga hf. var haldinn 10. mars sl. Stjórn félagsins skipa þau Benedikt Olgeirsson, Guðný Benediktsdóttir og Ólafur Hrafn Höskuldsson.
Nánari upplýsingar veitir: Guðmundur Jóhann Jónsson, forstjóri Varðar í síma, 514 1020 og 824 1020.
Vörður tryggingar
11. mars 2021