Framúrskarandi samfélagsábyrgð

21. október 2020

Vörður verðlaunað fyrir framúrskarandi samfélagsábyrgð

Vörður hlýtur hvatningarverðlaun fyrir framúrskarandi samfélagsábyrgð 2020 sem Creditinfo veitir í samstarfi við Festu, miðstöð um samfélagsábyrgð. Þá er Vörður jafnframt Framúrskarandi fyrirtæki og er í úrvalshópi þeirra 2% fyrirtækja sem viðurkenninguna hljóta að þessu sinni.

Sjálfbærni á öllum sviðum með breiðri þátttöku starfsfólks

Vörður hefur markvisst unnið með samfélagslega ábyrgð frá árinu 2012 og með tímanum hefur sjálfbærni náð inn í fleiri þætti starfseminnar. Kolefnisspor félagsins hefur verið reiknað frá árinu 2013 og starfsemin kolefnisjöfnuð frá árinu 2016. Vörður hefur sett sér skýra stefnu í sjálfbærni þar sem horft er til umhverfisþátta, félagslegra þátta og stjórnarhátta og hefur jafnframt  tengt kjarnastarfsemi félagsins við heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna. Með þessu hefur tekist að byggja upp sjálfbærnimenningu með breiðri þátttöku starfsfólks.

Stöndum vörð um samfélagið

Guðmundur Jóhann Jónsson, forstjóri Varðar, tók á móti verðlaununum fyrir hönd félagsins.

"Það er okkur hjá Verði sönn ánægja að taka á móti þessum hvatningarverðlaunum. Þau eru mikil viðurkenning fyrir okkar starf og góð hvatning fyrir starfsfólk Varðar. Frá því Vörður birti fyrstu umhverfisstefnu sína 2012 hefur félagið einsett sér að vera til fyrirmyndar í atvinnulífinu og taka virkan þátt í að efla umhverfismál, félagslega þætti og ábyrga stjórnarhætti. Okkur er jafnframt umhugað að sýna frumkvæði og ábyrgð í þessum málum og höfum sett okkur það takmark að taka þátt í vegferðinni af krafti og stíga markviss skref í átt að sjálfbærni. Það er einnig stefna okkar að vinna að heilindum að sjálfbærnimálum sem stuðla að sjálfbærri þróun íslensks samfélags ásamt því að styðja við heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna. Þannig stöndum við vörð um samfélagið."

Vörður er stofnaðili að IcelandSIF sem eru samtök um ábyrgar fjárfestingar og skrifaði nýverið undir viljayfirlýsingu um fjárfestingar í þágu sjálfbærrar uppbyggingar. Félagið fékk jafnlaunavottun árið 2014, fyrst allra fjármálafyrirtækja, er fyrirtæki ársins hjá VR og hefur verið fyrirmyndarfyrirtæki í stjórnháttum frá 2019, auk þess að vera með vottun samkvæmt ISO staðli um stjórnkerfi upplýsingaöryggis. Þá er Vörður aðili að Festu og þátttakandi í loftlagsyfirlýsingu Festu og Reykjavíkurborgar.

Hildur Grétarsdóttir, gæðastjóri, Guðmundur Jóhann Jónsson, forstjóri og Harpa Víðisdóttir, mannauðstjóri.

author

Vörður tryggingar

21. október 2020

Deila Frétt