Vörður með hæstu einkunn á kynjakvarðanum

10. febrúar 2021

Vörður fær hæstu einkunn á kynjakvarðanum GEMMAQ sem birtur er á Keldunni. Kvarðinn metur mánaðarlega fyrirtæki í Kauphöll Íslands eftir kynjahlutföllum í stjórnum og framkvæmdastjórnum og er því eins konar kynjagleraugu fyrir Kauphöllina. Hjá Verði eru 60% stjórnarmanna konur og hlutfall kvenna í framkvæmdastjórn er einnig 60%. Fyrir það fær fyrirtækið einkunnina 10 og er hæst allra fyrirtækja.

Kynjakvarði GEMMAQ veitir fjárfestum og almenningi upplýsingar um kynjahlutföll í leiðtogastörfum fyrirtækja sem eru með skráð hlutabréf og skuldabréf í Kauphöllinni. Einkunnir eru gefnar á skalanum 0-10, þar sem 10 er hæsta mögulega einkunnin. Séu kynjahlutföll í stjórnunarstöðum jöfn fær fyrirtækið 10 í einkunn. Miðað við stöðuna í dag er Vörður eina fyrirtækið á landinu með einkunnina 10 samkvæmt kynjakvarða GEMMAQ í Kauphöll Íslands. „Við erum mjög stolt af því að fá hæstu einkunn á kynjakvarðanum. Frá því Vörður birti fyrst jafnréttisstefnu sína árið 2011 og hlaut jafnlaunavottun árið 2014, fyrst allra fjármálafyrirtækja hér á landi, hefur fyrirtækið einsett sér að vera til fyrirmyndar í jafnréttismálum,“

segir Harpa Víðisdóttir, mannauðsstjóri Varðar. Hún bendir einnig á að kynjahlutföll forstöðumanna fyrirtækisins eru jöfn og í hópi teymisstjóra er hlutfall kvenna 46%. Þá séu konur í meirihluta hjá Verði eða 60% af heildarfjölda starfsfólks.

Stöndum vörð um samfélagið

author

Vörður tryggingar

10. febrúar 2021

Deila Frétt