07. ágúst 2024
Vörður er stoltur styrktaraðili Breiðabliks. Þar af leiðandi fannst okkur tilvalið að taka Ástu Eir Árnadóttur, fyrirliða kvennaliðsins í fótbolta, tali og spyrja hana út í boltann, heilsuna og fleira skemmtilegt.
Öll vitum við að svefn er mikilvægur, en hversu mikilvægur er hann fyrir íþróttafólk?
„Svefninn er gríðarlega mikilvægur, ekki aðeins fyrir íþróttafólk heldur bara fyrir alla! En það er mikilvægt fyrir okkur sem æfum og keppum mikið að hvílast vel og ná að minnsta kosti átta tímum á nóttu til að geta mætt fersk á æfingu næsta dag,“ segir Ásta sem lumar á ýmsum ráðum til að ná góðum svefni.
„Ég reyni að halda svipaðri rútínu á kvöldin. Dimmi ljósin nokkrum tímum fyrir svefn, drekk vatnsglas og fæ mér stundum magnesíum áður en ég fer upp í rúm. Svo reyni ég að lesa bók frekar en að skrolla í símanum.“
Er mikill nammigrís
Góður nætursvefn kemur fólki langt en það þarf líka að huga að mataræðinu. Ásta er nokkuð vanaföst þegar kemur að því að næra sig fyrir leiki, enda óþarfi að breyta því sem virkar vel.
„Ég byrja morguninn á skyri með granóla og berjum, ásamt kreatíni og vítamínum. Fæ mér svo alltaf Serrano, hef gert það í mörg ár svo það er erfitt að breyta til núna. Áður en ég mæti á leikinn fæ ég mér beyglu með smurosti og ávexti. Svo er mikilvægt að drekka nóg yfir daginn, bæði af vatni og steinefnum,“ segir Ásta sem hugar þó ekki bara að mataræðinu í kringum leiki, því hún borðar hollan mat allan ársins hring.
„Já ég reyni að borða fjölbreytt; fisk, kjöt, grænmeti, grjón og fleira. Er vissulega mikill nammigrís og leyfi mér það hér og þar. Ég passa þó alltaf að borða næringarríkan mat og bara borða nóg! Matur er orka.“
Þrífst vel þegar það er nóg að gera
Þegar kemur að íþróttum tekur fótbolti eðlilega mest pláss í lífi Ástu, þótt hún sjái mögulega fyrir sér að spila golf að ferlinum loknum. Hún viðurkennir einnig fúslega að hún hlaupi ekki mikið sér til skemmtunar, enda geri hún feikinóg af því á vellinum.
„Ég held að lengsta hlaupið séu 10 km í Kvennahlaupinu fyrir mörgum árum. En ég hef hlaupið meira í fótboltaleik,“ segir Ásta og hlær.
Eftir að hafa spurt út í líkamlega heilsu berst talið að andlegu hliðinni. Þótt Ásta kunni því vel að hafa mikið að gera finnst henni mikilvægt að taka tíma fyrir sjálfa sig.
„Ég er mjög upptekin manneskja og þrífst svo sem vel þegar það er nóg að gera. Ég reyni þó oft að kúpla mig út með smá tíma með sjálfri mér. Að fara ein í sund er eitthvað sem ég stunda, það hreinsar hugann og ég næ að hugsa vel um líkamann á sama tíma. Svo er ég mjög slök að eðlisfari og það er ákveðinn kostur að vera ekki að velta sér upp úr öllu sem er að gerast í kringum þig,“ kveður hún.
Sterkari til baka eftir barnsburð
Á yngri árum, þegar Ásta spilaði sem sóknarmaður, var Michael Owen í uppáhaldi. Erna Björk Sigurðardóttir, sem einnig spilaði fyrir Breiðablik, var þó líka í miklum metum.
„Mér fannst hún alltaf mjög góð. Þegar ég byrjaði að æfa með meistaraflokki tók hún svo á móti mér, sem var geggjað,“ segir Ásta og bætir við að það sé bæði frábært og gefandi að geta verið fyrirmynd annarra í boltanum.
„Mér finnst líka extra gaman að vera mamma í fótbolta. Ferillinn þarf alls ekki að vera búinn þegar þú eignast barn. Mig langaði að sýna að það er allt hægt ef þú æfir rétt og vel, þú getur komið enn sterkari til baka eftir barnsburð.“
Að lokum spurðum við Ástu hvort hún lumi á góðu heilsuráði og auðvitað stóð ekki á svörum.
„Huga að heilsunni allt árið um kring, frekar en að taka tímabil hér og þar. Borða næringarríkan mat, finna hreyfingu sem þér finnst skemmtileg og svo bara njóta þess! Erum öll að gera okkar besta!“
07. ágúst 2024