forvarnir

Verðmætabjörgun fyrir haustið

24. september 2024

Haustið er skollið á og ekki ólíklegt að fyrstu haustlægðirnar láti bráðlega á sér kræla. Við höfum því tekið saman nokkur góð ráð fyrir haustið og veturinn.

Trampólín og garðhúsgögn
  • Það er óskemmtileg reynsla að sjá trampólínið í garðinum takast á loft og stefna á bíl nágrannans, en hættan á því eykst eftir því sem við bíðum lengur með að ganga frá. Trampólínin eru tiltölulega létt, hoppdúkurinn tekur mikinn vind á sig og virkar eins og segl þegar haustlægðirnar bruna yfir. Nú í byrjun haustsins er rétti tíminn að pakka trampólínun saman og setja í geymslu.

  • Hefur þú vaknað með ný garðhúsgögn í garðinum þínum eftir appelsínugula veðurviðvörun? Léttir stólar og borð taka á sig vind og best að ganga frá þeim á háaloftið eða undir pallinn.

Þriðja tunnan
  • Margir þekkja þá stöðu að eiga tvöfalt sorptunnuskýli sem lengi vel dugði vel. En svo var þriðja tunnan kynnt til sögunnar og stendur hún eins og umkomulaus afgangsstærð fyrir utan húsið.

  • Þessa þriðju tunnu þarf a.m.k. að binda niður eða festa svo hún fari ekki á flakk. Endanleg lausn er auðvitað að stækka sorptunnuskýlið en þangað til þarf að verða sér úti um keðju eða reipi og tjóðra við húsið eða grindverkið.

Lauf í niðurföllum og rennum
  • Haustlitirnir eru fallegir, laufin verða gul og rauð áður en tréin fella þau alveg. Þar sem eru mörg há tré getur það verið vandamál þar sem þau safnast upp í rennum og stífla niðurföll. Verum duglega að hreinsa þau upp og tökum sérstaklega frá öllum niðurföllum svo þau stíflist ekki í komandi vatnsveðrum.

Skrúfum fyrir útikrana
  • Nú er byrjað að frjósa á næturnar og þá þarf að huga að vatnslögnum og útkrönum. Í mörgum tilvikum er þetta ekki vandamál en ef kraninn er í óupphituðum skúr eða tæmir sig ekki þegar skrúfað er fyrir þá er alltaf hætta á að frostsprungum og vatnsskemmdum.

Ferðavagninn í geymslu
  • Varstu búinn að bóka innipláss fyrir ferðavagninn í vetur? Upphitað geymsluhúsnæði er besta lausnin til þess að verja hann fyrir náttúröflunum.

  • Það fer ekki vel með vagninn að láta hann standa úti í vetur og svo viljum við ekki að hann fjúki. Það er líka best að flytja hann núna áður en verstu veðrin og hálkan kemur.

Hvernig er staðan á bústaðnum?
  • Við mælum með að fólk geri sér ferð í bústaðinn fyrir veturinn og geri sérstakar ráðstafanir.

  • Mikilvægt er að skrúfa fyrir inntak heita og kalda neysluvatnsins og tæma viðtengd tæki þegar húsið er yfirgefið.

  • Ef bústaður er kynntur með miðstöðvarofnum er öruggast að hafa lokað hringrásarkerfi með frostlög og forhitara sem er utan aðalhúss.

  • Alltaf skal loka fyrir inntak þegar sumarbústaður er yfirgefinn.

  • Þá er góð hugmynd að fylgjast með hita í bústaðnum, t.d. í gegnum app ef það er hægt, sérstaklega mikilvægt eftir mikla frostakafla og ef bústaður er í lítilli notkun.

  • Munið svo að ganga vel frá lausum munum og smíðaefni utandyra svo ekki verði foktjón.

Birgjum okkur upp af salti og sandi.
  • Vonandi fer ekki að snjóa strax en við þurfum samt að undirbúa okkur. Salt er góð lausn til að vinna á hálku en virkni saltsins er þannig að það lækkar frostmark vatnsins og leysir klakann upp ef svo má segja. Sandurinn virkar vel líka en hann eykur viðnám íssins og gefur meira grip.

  • Á mörgum þjónustustöðvum sveitarfélaga er hægt að fá salt og sand í kistum en einnig er hægt að versla í byggingavöruverslunum.

  • Innkeyrslur, inngangar, tröppur og brekkur eru staðir sem hús- og fyrirtækjaeigendur eiga að moka, salta eða sanda reglulega.

Fylgjumst vel með veðurspám í vetur og fylgjum ráðleggingum veðurfræðinga!

author

Ágúst Mogensen

24. september 2024

Deila Frétt