14. desember 2022
Vörður og knattspyrnudeild Breiðabliks hafa endurnýjað samning sín á milli um að Vörður verði áfram aðalstyrktaraðili deildarinnar til næstu fjögurra ára. Þetta er í þriðja sinn sem samningurinn er endurnýjaður og hefur Vörður verið bakhjarl knattspyrnudeildar Breiðabliks frá árinu 2010. Samningurinn er mikilvægur fyrir báða aðila en hann styður við meistaraflokka félagsins í efstu deild karla og kvenna og styrkir enn frekar öflugt uppeldis- og afreksstarf stærstu knattspyrnudeildar landsins.
Guðmundur Jóhann Jónsson, forstjóri Varðar: „Við eru mjög ánægð með samstarfið við Breiðablik og viljum halda áfram að styðja við það góða uppeldis- og afreksstarf sem þar fer fram. Mikilvægt samfélagsstarf er unnið innan íþróttafélaga og ungt fólk sem elst upp við skipulega íþróttaiðkun býr að því alla ævi. Innan knattspyrnudeildar Breiðabliks eru um 1.700 iðkendur á öllum aldri og er það mesti fjöldi á landinu hjá einu félagi. Við erum því virkilega stolt af þátttöku okkar og stuðningi við þetta starf. Það rímar vel við gildi og áherslur Varðar.“
Eysteinn Pétur Lárusson, framkvæmdastjóri Breiðabliks: „Vörður hefur staðið með Breiðablik í 12 ár núna sem aðal samstarfsaðili og við höfum gengið í gegnum súrt og sætt saman. Við stefnum áfram hátt og markmiðin innan félagsins eru að gera enn betur á öllum vígstöðvum. Það skiptir okkur gríðarlega miklu máli að hafa bakhjarl eins og Vörð í okkar liði og erum við spennt fyrir næstu 4 árum saman þar sem við stefnum á stóra og smáa sigra saman. Breiðablik og Vörður hafa markað saman ákveðna leið og það eru gleðitíðindi að halda áfram á saman á þeirri vegferð“.
Vörður og Breiðablik vilja stuðla að hollri hreyfingu og heilbrigðu líferni og styðja þannig við heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna númer þrjú um heilsu og vellíðan. Regluleg hreyfing hefur margþættan ávinning fyrir heilsuna, hún minnkar líkur á sjúkdómum, eykur lífsgæði og lengir lífið. Að hreyfa sig er samfélagsábyrgð í verki.
Vörður tryggingar
14. desember 2022