31. október 2024
Gaman er að segja frá því að Vörður er aðalbakhjarl Breiðabliks sem varð á dögunum Íslandsmeistari í knattspyrnu bæði kvenna og karla. Sömuleiðis er gleðiefni að tilkynna að samningur milli Varðar og Breiðabliks hefur verið framlengdur til ársins 2026.
Samstarf Varðar og Breiðabliks á sér langa og farsæla sögu en Vörður hefur verið bakhjarl knattspyrnudeildarinnar frá árinu 2010. Samningurinn styður við meistaraflokka félagsins í efstu deild karla og kvenna og eflir jafnframt uppeldis- og afreksstarf stærstu knattspyrnudeildar landsins.
„Í starfi okkar hjá Verði leggjum við ríka áherslu á forvarnir. Íþróttir hafa fyrir löngu sannað gildi sitt sem öflug forvörn, bæði þegar kemur að heilsufars- og félagslegum þáttum. Með samstarfi okkar við Breiðablik, eitt öflugasta íþróttafélag landsins, getum við í sameiningu haldið áfram að hafa jákvæð áhrif á íslenskt samfélag. Til hamingju, Breiðablik!“ sagði Guðbjörg Heiða Guðmundsdóttir, forstjóri Varðar.
Saman vilja Vörður og Breiðablik hvetja til hollrar hreyfingar og heilbrigðs lífernis og þannig styðja við heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um heilsu og vellíðan. Regluleg hreyfing hefur margþættan ávinning fyrir heilsuna, minnkar líkur á sjúkdómum, eykur lífsgæði og lengir lífið.
Vörður hlakkar til áframhaldandi samstarfs og óskar Blikum hjartanlega til hamingju með árangurinn!
Vörður tryggingar
31. október 2024