20. febrúar 2022
Djúp lægð nálgast landið úr suðvestri með ofsaveðri og hafa verið gefnar út appelsínugular veðurviðvaranir um landið allt annað kvöld og fram á þriðjudag. Reiknað er með suðaustan stormi eða roki, 20-28 m/s. Gera er ráð fyrir talsverðri rigningu eða snjókomu. Útlit er fyrir truflanir á samgöngum og líkur eru á foktjóni. Fólki ráðlagt að ganga frá lausum munum. Verktökum er bent á að ganga vel frá framkvæmdasvæðum.
Húsnæði og aðrar eignir
Gangið úr skugga um að þakplötur séu tryggilega festar, einnig þakrennur, grindverk og þess háttar.
Heftið fok lausra muna utandyra. Trampólín, útihúsgögn, jólaskraut og grill fara gjarnan af stað í ofsaroki.
Fullvissið ykkur um að öllum gluggum og hurðum sé tryggilega lokað.
Fylgist með veðri og tilkynningum.
Ferðalög og mannamót
Aflýsið ferðalögum og mannamótum og sendið ekki börn í skóla nema í samráði við skóla.
Metið hvort ferðir út á land séu nauðsynlegar og hvort fresta eigi för vegna slæmrar veðurspár.
Hlustið á tilkynningar og/eða viðvaranir sem kunna að vera gefnar í sjónvarpi eða útvarpi.
Upplýsingar má sjá á vef Veðurstofunnar og Vegagerðarinnar.
Mundu ef þetta er neyðartilvik að hafa strax samband við 112.
Ef ekki skaltu gera þær ráðstafanir, sem nauðsynlegar eru, til að draga úr tjóni sé þess nokkur kostur en farið jafnframt að öllu með gát.
Þegar þú hefur brugðist við þá er næsta skref að tilkynna tjónið hjá okkur.
Að senda myndir með tjónstilkynningu getur flýtt fyrir afgreiðslu.
Mat á umfangi tjóns eða viðgerðar hefst ekki fyrr en veðrinu hefur slotað. Það þarf að vera óhætt fyrir almenning að vera á ferðinni svo að tjónaskoðunarmenn komist á staðinn.
Eftir að tjón hefur verið tilkynnt hafa starfsmenn samband við fyrsta tækifæri til að hefja úrvinnslu málsins.
Sé brýn neyð á aðstoð vegna tjóns bendum við á neyðarsímann 514 1099 sem opin er allan sólarhringinn.
Vörður tryggingar
20. febrúar 2022