fréttir

Úthlutun úr afrekssjóði kylfinga

24. janúar 2022

Nýlega lauk úthlutun úr Forskoti afrekssjóði kylfinga vegna ársins 2022 en þetta er jafnframt ellefta árið í röð þar sem úthlutað er úr sjóðnum til íslenskra afrekskylfinga.

Fimm leikmenn fá úthlutað úr sjóðnum á árinu 2022 en þeir eru í stafrófsröð.

Axel Bóasson, GK Aron Snær Júlíusson, GKG Guðmundur Ágúst Kristjánsson, GR. Guðrún Brá Björgvinsdóttir, GK. Haraldur Franklín Magnús, GR.

Að sjóðnum standa fyrirtækin Eimskip, Valitor, Íslandsbanki, Icelandair Group, Vörður tryggingar, Bláa Lónið auk Golfsambands Íslands.

Frá því að Forskot afrekssjóður var stofnaður árið 2012 hefur slagkrafturinn hjá íslenskum atvinnukylfingum verið meiri en áður og samtakamáttur þeirra aðila sem koma að sjóðnum fleytt okkar bestu kylfingum inn á nýjar brautir.

Ríkar kröfur eru gerðar til styrkþega um ráðstöfun styrkja og ber þeim að leggja fram æfinga- og keppnisáætlanir auk fjárhagsáætlunar fyrir öll verkefni auk þess sem gerðir eru sérstakir samningar við hvern afrekskylfing um að þeir virði reglur Íþrótta- og Ólympíuhreyfingarinnar og sjóðsins.

Þeir kylfingar sem fá úthlutað eiga það sameiginlegt að vera sterkar fyrirmyndir og afreksfólk í fremstu röð. Það að eiga afreksmenn í íþróttum er mikilvægur þáttur í því að hvetja börn og unglinga til að sinna íþróttum og þannig stuðla að forvörnum og lýðheilsu.

Fyrirtækin sem koma að sjóðnum eru virkilega ánægð hvernig íslenskt afreksgolf hefur þróast í stöðugri framför frá stofnun sjóðsins. Sjóðurinn hefur frá upphafi haft það að markmiði að styðja við þá atvinnukylfinga sem stefna á að komast í fremstu röð í íþróttinni og eru að stíga sín fyrstu skref í atvinnumennsku.

Einn fulltrúi frá hverju fyrirtæki sem aðild eiga að Forskoti situr í stjórn sjóðsins en auk þess hefur stjórn sjóðsins sér til ráðgjafar fagteymi sem leggur fram tillögur um úthlutanir úr sjóðnum á ári hverju.

Stjórn Forskots óskar öllum afrekskylfingum góðs gengis á árinu 2022.

author

Vörður tryggingar

24. janúar 2022

Deila Frétt