Hreyfum okkur í vetur

12. febrúar 2024

Hreyfing er ein besta leiðin til að bæta andlega og líkamlega heilsu en það getur verið þrautin þyngri að koma sér af stað í svartasta skammdeginu. Þegar vaða þarf snjóskafla eða feta sig yfir svellbunka og slabb finnst mörgum lokkandi að koma sér frekar vel fyrir í sófanum undir teppi og hámhorfa á sápuóperu um bresku konungsfjölskylduna.  

Reglubundin hreyfing verður hins vegar fljótt ávanabindandi! Að svitna og reyna á líkamann, þó ekki sé nema stutta stund, er náttúruleg vörn gegn streitu og kvíða, stuðlar að betri svefni og veitir okkur meiri kraft í daglegum störfum. 

Hvað þarf ég mikla hreyfingu?

Landlæknir mælir með því að hreyfa sig rösklega í minnst 75-150 mínútur á viku eins og með því að fara í fjallgöngu, hlaupa, sippa, hjóla, synda, stunda kröftuga lotuþjálfun, spila fótbolta og lengi mætti áfram telja. Gott viðmið er þó að hreyfa sig rösklega á hverjum degi í um það bil 30 mínútur – til dæmis fara í tvo fimmtán mínútna göngutúra. Gullna reglan er að það er betra að hreyfa sig lítið en ekki neitt og takmarka langvarandi kyrrsetu. Til þess þarft þú ekkert endilega að eiga líkamsræktarkort!  

Nokkur góð ráð fyrir veturinn

Þegar byrjað er að hreyfa sig eftir langa pásu er nauðsynlegt að átta sig á líkamlegri getu og fara ekki of geyst af stað. Gott er að setja sér raunhæf markmið og gera æfingaáætlun.

  1. Hreyfðu þig úti. Þú getur gengið, skokkað, hlaupið eða hjólað. Mundu bara að hita upp og gera teygjuæfingar ef það er mjög kalt – og njóta útiverunnar! Að hreyfa sig er góð skemmtun, ekki kvöð, og á að vera skemmtilegt! 

  2. Klæddu þig eftir veðri. Skoðaðu spána á vedur.is og reyndu að velja létt og þægileg föt. Líkaminn hitnar fljótt þegar við hreyfum okkur svo að renndar peysur eru sniðugar og sömuleiðis húfa og vettlingar sem stinga má í vasa þegar ylur er kominn í kroppinn. 

  3. Finndu æfingar á netinu. Á netinu má finna alls kyns leiðsögn, t.d. á Youtube. Veldu það sem þér finnst skemmtilegt – þolfimi, dans, teygjur, styrktaræfingar, jóga, pílates eða karate. Möguleikarnir eru óþrjótandi! 

  4. Teldu húsverkin með. Heimilisstörfin fela í sér hreyfingu - að ryksuga, sópa, skúra, þurrka af. Skrúfaðu aðeins upp í tónlistinni og sláðu tvær flugur í einu höggi.  

Regluleg hreyfing hefur margþættan ávinning fyrir heilsuna. Hún minnkar líkur á sjúkdómum, bætir og kætir og lengir líf okkar. Njótum þess að rækta líkamann – og munum að hafa gaman. 

author

Vörður tryggingar

12. febrúar 2024

Deila Frétt