forvarnir

Gróðureldar

06. maí 2021

Óvissustigi almannavarna hefur verið lýst yfir vegna hættu á gróðureldum á svæðinu frá Eyjafjöllum að sunnanverðu Snæfellsnesi. Ástæðan er að lítið hefur rignt á þessu svæði undanfarið, jarðvegur er mjög þurr og veðurspá sýnir litla sem enga úrkomu á næstunni.

Almenningur er hvattur til að sýna aðgát með opinn eld á þessu svæði og öðrum þar sem gróður er þurr. Það þarf ekki mikinn neista til þess að af verði stórt bál.

Gróðureldar eru sem betur fer ekki algengir á Íslandi en geta verið illviðráðanlegir ef eldur berst í þurran gróður. Fyrstu viðbrögð við gróðureldi eru að hringja í Neyðarlínuna 112, greina frá því hvar eldurinn er og lýsa staðsetningu og staðháttum. Rétt viðbrögð í upphafi geta breytt miklu. Reykur getur verið hættulegur og því er mikilvægt að hafa eigið öryggi alltaf í forgangi. 

Á vefsíðunni Gróðureldar má kynna sér forvarnir og fyrstu viðbrögð við gróðureldum og gagnlegar upplýsingar um flóttaáætlanir, útbúnað til eldvarna í gróðri, meðferð elds á grónu svæði og fleira.

Við hvetjum íbúa á svæðinu frá Eyjafjöllum að sunnanverðu Snæfellsnesi að kynna sér vel allar upplýsingar á vefnum Gróðureldar.is. Þá bendum við jafnframt á brunavarnavef Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar en þar má finna brunavarnaráætlanir og leiðbeiningar um brunavarnir.

Gott er að hafa eftirfarandi í huga varðandi fyrstu viðbrögð við gróðureldi:

  • Hringdu í Neyðarlínuna 112, greindu frá því hvar eldurinn er og lýstu staðsetningu og staðarháttum. Aðstoð má alltaf afturkalla ef aðstæður breytast.

  • Láttu fólk í nágrenninu sem kynni að vera í hættu vita af eldinum strax.

  • Leggðu mat á aðstæður og reyndu að slökkva eldinn sem fyrst ef aðstæður leyfa á þess að taka áhættu. Hafðu eigið öryggi alltaf í forgangi.

  • Sækja skal að eldi undan vindi þannig að reykmengun hindri ekki yfirsýn og aðgerðir.

  • Reykur frá gróðureldum í of miklumagni getur verið lífshættulegur.

  • Klöppur, skóflur eða önnur áhöld og vatn ættu alltaf að vera tiltæk.

Þá er gott að gera áætlun um hvert þú getur flúið ef eldur kemur upp. Í hvassviðri og þurrki getur eldur borist hratt yfir í gróðri og lokað flóttaleiðum. Kynntu þér hvaða leiðir eru færar út af því svæði sem þú ert á og hvar öruggari svæði er að finna. Athugaðu að vindátt getur stýrtþví hvaða leið er valin. Hafa í huga að vara alla á svæðinu við ef vart verður um eld og hafa tölu á þeim sem þú tekur með þér. Hrópaðu ELDUR. Hafðu tiltækan neyðarbúnað sem hentar fyrir þínar aðstæður.

author

Vörður tryggingar

06. maí 2021

Deila Frétt