almennt

Golfleikur Varðar og GSÍ

05. júní 2020

Regluvörðurinn er mættur!

Golfleikur Varðar og Golfsambands Íslands er kominn í gang - áttunda sumarið í röð. Í leiknum geta spilarar kannað þekkingu sína á golfreglunum og þeir sem standast prófið geta fengið hin eftirsóknarverðu Regluvarðar verðlaun. Vinsældir leiksins hafa aukist með ári hverju en í fyrrasumar tóku um 30 þúsund þátt og hafði starfsfólk Varðar ekki undan að senda verðlaunapeninga til stoltra Regluvarða.

Golfleikurinn sameinar bæði gagn og gaman og um leið eiga spilarar kost á glæsilegum verðlaunum. Með því að þekkja reglurnar til hlítar verður leikurinn skemmtilegri, einfaldari og gengur hraðar fyrir sig. Þátttakendur geta margfaldað líkurnar á vinningi. Því betri árangri sem þeir ná, því meiri líkur á vinningi. Í sumar verða flottir aukavinningar í hverjum mánuði á Facebook en golfsumrinu lýkur svo með stóra vinningnum

Golfleikur til gagns og gamans

Golfleikurinn er til gamans gerður fyrir kylfinga, bæði til þess að reyna á kunnáttuna og til að rifja upp golfreglurnar. Spilarar í leiknum geta unnið brons-, silfur- eða gullverðlaun. Með betri árangri aukast líkurnar á að hreppa stóra vinninginn. Leikurinn hefur svo sannarlega fest sig í sessi hjá golfurum og áhugafólki um golfíþróttina og fleiri og fleiri taka þátt með hverju árinu sem líður. Leikurinn var fyrst haldinn sumarið 2013 og var fjöldi spilara yfir fjögur þúsund. Þátttakan hefur margfaldast síðan þá.

Golfleiknum er einnig ætlað að vekja athygli á Golfvernd Varðar, sem er sérstök trygging fyrir kylfinga gegn þjófnaði á golfbúnaði og öðrum óvæntum atvikum utan vallar sem innan. 

Traustur bakhjarl GSÍ

Vörður er traustur bakhjarl GSÍ og meðal þess sem Vörður veitir fé til er útgáfa alþjóðlegrar reglubókar fyrir íslenska kylfinga. Golf byggir á nákvæmum og dálítið flóknum reglum. Það þarf stundum að láta reyna á reglubókina sem allir kylfingar ættu að hafa með í golfpokanum. Golfreglur og tryggingaskilmálar eiga það sameiginlegt að fjalla af nákvæmni og í smáatriðum um atriði sem fæstir vilja hugsa um. Þegar á reynir er hins vegar gott að geta gripið í reglubókina.

Allir kylfingar landsins eru hvattir til að kynna sér reglur golfsins og hafa alltaf eintak af Golfreglubókinni í golfpokanum.

Við vonum að allir kylfingar eigir ánægjulegar stundir á golfvellinum í sumar.

author

Vörður tryggingar

05. júní 2020

Deila Frétt