forvarnir

Appelsínugular og gular veðurviðvaranir

07. október 2022

Veðurspáin er slæm fyrir helgina um stóran hluta landsins. Gular- og appelsínugular veðurviðvaranir hafa verið gefnar út fyrir sunnudaginn 9. október. Þá er útlit fyrir að það gangi í norðan hvassviðri eða storm með mikilli slyddu eða snjókomu á Norður- og Austurlandi. Þar verður ekkert ferðaveður ef að líkum lætur. Sunnanlands verður úrkomulítið en líklega bálhvasst, sérstaklega undir Vatnajökli.

Við hvetjum viðskiptavini til þess að fylgjast vel með veðurspám og færð um helgina. Notum tímann áður en veðrið skellur á og göngum frá öllum lausum hlutum svo þeir fjúki ekki út í veður og vind. Varhugavert getur verið að ferðast á sunnudaginn og þá sérstaklega yfir heiðar.

Hér höfum við tekið saman nokkur góð ráð um hvernig best er að bregðast við tjóni og hvað gott er að hafa í huga fyrir ofsaveður.

Gott að hafa í huga fyrir óveður

Ferðalög og mannamót

  • Aflýsið ferðalögum og mannamótum.

  • Metið hvort ferðir út á land séu nauðsynlegar og hvort fresta eigi för vegna slæmrar veðurspár.

  • Hlustið á tilkynningar og/eða viðvaranir sem kunna að vera gefnar í sjónvarpi eða útvarpi.

Húsnæði og aðrar eignir    

  • Gangið úr skugga um að þakplötur séu tryggilega festar, einnig þakrennur, grindverk og þess háttar.

  • Heftið fok lausra muna utandyra. Trampólín, útihúsgögn, jólaskraut og grill fara gjarnan af stað í ofsaroki.

  • Fullvissið ykkur um að öllum gluggum og hurðum sé tryggilega lokað.

  • Fylgist með veðri og tilkynningum.

Upp­lýs­ing­ar má sjá á vef Veðurstofunnar og Vega­gerðar­inn­ar. 

Viðbrögð við tjóni
  • Mundu að ef þetta er neyðartilvik að hafa strax samband við 112.

  • Ef ekki skaltu gera þær ráðstafanir, sem nauðsynlegar eru, til að draga úr tjóni sé þess nokkur kostur en farið jafnframt að öllu með gát.

  • Þegar þú hefur brugðist við þá er næsta skref að tilkynna tjónið til okkar.

  • Að senda myndir með tjónstilkynningu getur flýtt fyrir afgreiðslu.

  • Mat á umfangi tjóns eða viðgerðar hefst ekki fyrr en veðrinu hefur slotað. Það þarf að vera óhætt fyrir almenning að vera á ferðinni svo að tjónaskoðunarmenn komist á staðinn.

  • Eftir að tjón hefur verið tilkynnt hafa starfsmenn samband við fyrsta tækifæri til að hefja úrvinnslu málsins.

  • Sé brýn neyð á aðstoð vegna tjóns bendum við á neyðarsímann 514 1099 sem opin er allan sólarhringinn.

Einfaldari tjónstilkynningar

Ef þú þarft að tilkynna tjón er einfaldast að gera það hér á vefnum. Það hefur aldrei verið einfaldara.

Byrja

author

Vörður tryggingar

07. október 2022

Deila Frétt