tilkynningar

Afkomutilkynning 2023

11. mars 2024

Aðalfundur Varðar trygginga hf. var haldinn 7. mars 2024 þar sem samstæðureikningur ársins 2023 var samþykktur.

Guðbjörg Heiða Guðmundsdóttir, forstjóri Varðar:

„Okkar markmið er að veita viðskiptavinum framúrskarandi þjónustu og við erum afar stolt af því að hafa fjölgað viðskiptavinum meira á síðasta ári en sem nemur hlutfallslega stækkun markaðarins. Starfsfólk Varðar býr yfir miklum metnaði og gleði. Það er virkilega gaman að vera hluti af þessu teymi. Þá heldur samstarfið við Arion áfram að gefa af sér ný tækifæri til vaxtar og erum við bjartsýn fyrir framtíðinni. Starfsemi Varðar gekk vel á síðasta ári. Markmið félagsins um vöxt og aukningu markaðshlutdeildar náðust og sömuleiðis var ánægjulegt að sjá viðsnúning í fjárfestingatekjum frá erfiðu ári 2022.”

Rekstur ársins 2023

Rekstur ársins 2023 gekk vel og var hagnaður af rekstri Varðar árið 2023 840 m.kr. og arðsemi eigin fjár var 8,7%.

Vátryggingatekjur ársins hækkuðu um 15% milli ára og námu 17.802 m.kr. Tjón námu 13.316 m.kr. og hækkuðu um 18% milli ára. Almennt var þróun tjónakostnaðar góð en óvenju kostnaðarsöm brunatjón lentu á félaginu á árinu. Rekstrarkostnaður var 3.4011 m.kr. og hækkaði í takt við vöxt félagsins. Kostnaðarhlutfall stóð nánast í stað milli ára.

Heildareignir í árslok námu 32.693 m.kr. sem er hækkun um 11% á árinu. Fjárfestingaeignir námu 30.488 m.kr. og handbært fé 499 m.kr. Eigið fé hækkaði um 9% milli ára og var í árslok 10.091 m.kr. Eiginfjárhlutfall var 30,9%. Gjaldþol félagsins samkvæmt Solvency II var 142% í árslok en var 145% í lok árs 2022.

Viðurkenningar fyrir framúrskarandi gott starf

Vörður fékk fimmta árið í röð, viðurkenningu sem fyrirmyndarfyrirtæki í góðum stjórnarháttum. Viðskiptaráð Íslands, Samtök atvinnulífsins, Nasdaq Iceland og Stjórnvísi standa að baki viðurkenningunni. Hún þýðir að starfshættir stjórnar Varðar og stjórnskipulag eru til fyrirmyndar og í samræmi við leiðbeiningar um góða stjórnarhætti.

Félagið er aðili að Jafnvægisvog Félags kvenna í atvinnulífinu, sem ásamt samstarfsaðilum úr forsætisráðuneytinu og viðskiptalífinu standa að. Vörður hefur skýra sýn og stefnu í jafnréttismálum sem tryggir sanngirni, jöfn tækifæri og kjör alls starfsfólks. Félagið hefur frá árinu 2014 starfrækt jafnlaunakerfi og hlotið Gullmerki PWC, jafnlaunavottun VR og jafnlaunamerki velferðarráðuneytisins, fyrst fjármálafyrirtækja. Auk þess var Vörður með hæstu einkunn á kynjakvarðanum GEMMAQ. Kvarðinn metur fyrirtæki á íslenskum markaði eftir kynjahlutföllum í stjórnum og framkvæmdastjórnum og er því eins konar kynjagleraugu markaðarins

Þétt samstarf með Arion banka

Vörður er til húsa í höfuðstöðvum Arion banka í Borgartúni 19 og er auk þess með þjónustu í útibúaneti hans. Hluta af starfsemi Varðar er útvistað til bankans. Markmiðið er að veita viðskiptavinum samstæðunnar framúrskarandi þjónustu með því að bjóða þeim alla trygginga- og bankaþjónustu á einum stað. Með samstarfinu gefst líka tækifæri til að nýta einstaka stöðu samstæðunnar til að samþætta vöruframboð til hagsbóta fyrir viðskiptavini. Félagið hyggst halda markaðssókn sinni áfram af enn meiri krafti.

Um Vörð

Vörður tryggingar hf. er alhliða tryggingafélag í eigu Arion banka hf. sem býður tryggingar fyrir heimili og fyrirtæki. Félagið leggur áherslu á einföld og þægileg tryggingaviðskipti á samkeppnishæfu verði. Meðaltalsfjöldi stöðugilda var á síðasta ári 57 og eru viðskiptavinir félagsins liðlega 67.000 talsins. Starfsfólk Varðar vinnur markvisst að því að efla þjónustu og fjölga valkostum í tryggingaþjónustu til viðskiptavina.

Stjórn félagsins var endurkjörin á aðalfundi félagsins en hana skipa þau Benedikt Olgeirsson, Auður Björk Guðmundsdóttir, Guðný Benediktsdóttir, Iða Brá Benediktsdóttir og Ólafur Hrafn Höskuldsson. Á fundinum var Benedikt var áfram kjörinn formaður stjórnar.

Nánari upplýsingar veitir: Ingvar Örn Einarsson, markaðsstjóri Varðar í síma 514 1066 og [email protected].

author

Vörður tryggingar

11. mars 2024

Deila Frétt