tilkynningar

Afkomutilkynning 2021

09. mars 2022

Á stjórnarfundi þann 24. febrúar 2022, samþykkti stjórn og forstjóri samstæðureikning Varðar fyrir árið 2021. Guðmundur Jóhann Jónsson forstjóri Varðar:

„Rekstur Varðar gekk afar vel á síðasta ári sem skýrist helst af góðri afkomu í fjárfestingarstarfsemi og bættri afkomu í tryggingarekstri. Samsett hlutfall er að lækka, eiginfjárhlutfallið að styrkjast og gjaldþolið að hækka. Allt skilar sér þetta í góðri arðsemi eigin fjár og sterkara félagi á markaði. Árið einkenndist af framþróun á flestum sviðum en á sama tíma af umbreytingu í starfseminni, sem gerð er til hagsbóta fyrir viðskiptavini en þeim fjölgaði mikið á árinu. Við erum á góðri vegferð og auðvitað stolt af árangrinum. Starfsfólk félagsins fær stórt hrós fyrir framúrskarandi gott starf.“

Sterkur efnahagur og traustur rekstur

Rekstur og starfsemi Varðar gekk vel árið 2021 líkt og undanfarin ár og heldur félagið áfram vegferð sinni að eflast á tryggingamarkaði. Hagnaður ársins var 2.487 m.kr. sem er 23% aukning frá fyrra ári og hefur hann aldrei verið hærri í sögu félagsins. Aukinn hagnaður skýrist helst af bættri afkomu í tryggingarekstri og mjög góðri afkomu í fjárfestingarstarfsemi.

Iðgjöld ársins hækkuðu um 12% milli ára og námu 13.703 m.kr. Tjón námu 9.560 m.kr. og jukust um einnig um 12% milli ára. Fjáreignatekjur hækkuðu um 21% milli ára og námu 2.283 m.kr. Rekstrarkostnaður var 3.043 m.kr. og hækkaði um 5% milli ára. Kostnaðarhlutfall var 20,7% en var 21,9% árið áður. Heildareignir í árslok námu 32.542 m.kr. sem er hækkun um 15% á árinu. Fjáreignir námu 26.099 m.kr. og handbært fé 600 m.kr. Eigið fé hækkaði um 19,5% milli ára og var í árslok 10.331 m.kr. Eiginfjárhlutfall var 31,7% og arðsemi eiginfjár 26,2%. Gjaldþol félagsins samkvæmt Solvency II var 150% í árslok en var 148,8% í lok árs 2020.

Hvatningarverðlaun fyrir jafnréttismál

Vörður hlaut fjölmargar viðurkenningar á árinu fyrir framúrskarandi gott starf á mörgum sviðum. Félagið hlaut Hvatningarverðlaun jafnréttismála með áherslu á kynjajafnrétti en verðlaunin eru árlega veitt fyrirtæki sem stendur sig vel þegar kemur að jafnréttismálum. Að verðlaununum standa Samtök atvinnulífsins og Háskóli Íslands. Vörður hlaut viðurkenningu Jafnvægisvogarinnar þriðja árið í röð en það er Félag kvenna í atvinnulífinu, ásamt samstarfsaðilum úr forsetaráðuneytinu og viðskiptalífinu sem standa að viðurkenningunni. Vörður hefur skýra sýn og stefnu í jafnréttismálum sem tryggir sanngirni, jöfn tækifæri og kjör alls starfsfólks. Félagið hefur frá árinu 2014 starfrækt jafnlaunakerfi og hlotið Gullmerki PCW, jafnlaunavottun VR og jafnlaunamerki velferðarráðuneytisins, fyrst fjármálafyrirtækja. Auk þess er Vörður með hæstu einkunn á kynjakvarðanum GEMMAQ. Kvarðinn metur mánaðarlega fyrirtæki í Kauphöll Íslands eftir kynjahlutföllum í stjórnum og framkvæmda-stjórnum og er því eins konar kynjagleraugu fyrir Kauphöllina. Hjá Verði eru 50% stjórnarmanna konur og hlutfall kvenna í framkvæmdastjórn er 60%. Fyrir það fær félagið einkunnina 10 sem er hæsta einkunn.

Vörður fékk einnig, þriðja árið í röð, viðurkenningu sem fyrirmyndarfyrirtæki í góðum stjórnarháttum. Viðskiptaráð Íslands, Samtök atvinnulífsins, Nasdaq Iceland og Stjórnvísi standa að baki viður-kenningunni. Hún þýðir að starfshættir stjórnar Varðar eru vel skipulagðir og þeir ásamt framkvæmd stjórnarstarfanna eru til fyrirmyndar. Þá var Vörður Fyrirtæki ársins þriðja árið í röð í flokki stórra fyrirtækja í árlegri vinnumarkaðskönnun VR. Fyrirtækin voru valin samkvæmt niðurstöðum viðamikillar könnunar á meðal þúsunda starfsfólks hjá fjölbreyttum hópi fyrirtækja á almennum vinnumarkaði. Félagið er ákaflega stolt af þessum viðurkenningum en þær hvetja starfsfólk áfram til  góðra verka. 

Þéttara samstarf með Arion banka

Á árinu var kynnt ákvörðun um þéttingu samstarfs milli Varðar og Arion banka og í framhaldinu hófst undirbúningur á flutningi á starfsemi Varðar í húsnæði Arion í Borgartúni 19 og útvistun helstu stoðsviða til bankans. Mörkuð var stefna um aukið samstarf um sölu og þjónustu trygginga sem byggir ekki síst á sterkri stöðu stafrænna dreifileiða Arion banka til viðbótar við þær lausnir sem þróaðar hafa verið innan Varðar. Með samstarfinu gefst líka tækifæri á að nýta einstaka stöðu samstæðunnar til að samþætt vöruframboð til hagsbóta fyrir viðskiptavini en þeim fjölgaði mikið á síðasta ári og eru nú orðnir um 64 þúsund. Félagið hyggst halda markaðssókn sinni áfram af enn meiri krafti.

Um Vörð

Vörður tryggingar hf. er alhliða vátryggingafélag í eigu Arion banka hf. sem býður tryggingar fyrir heimili og fyrirtæki. Félagið leggur áherslu á einföld og þægileg tryggingaviðskipti á samkeppnishæfu verði. Meðaltalsfjöldi stöðugilda var á síðasta ári 107 og eru viðskiptavinir félagsins liðlega 64.000 talsins. Starfsfólk Varðar vinnur markvisst að því að efla þjónustu og fjölga valkostum í tryggingaþjónustu til viðskiptavina.

Aðalfundur Varðar trygginga hf. var haldinn 9. mars 2022. Stjórn félagsins skipa þau Benedikt Olgeirsson, Auður Björg Guðmundsdóttir, Guðný Benediktsdóttir, Iða Brá Benediktsdóttir og Ólafur Hrafn Höskuldsson. Benedikt var kjörinn formaður stjórnar.

Nánari upplýsingar veitir:  Guðmundur Jóhann Jónsson, forstjóri Varðar í síma, 514 1020 og 824 1020.

author

Vörður tryggingar

09. mars 2022

Deila Frétt