almennt

Tjónaþróun ökutækja

13. október 2015

Tjónakostnaður tryggingafélaganna vegna ökutækjatjóna hefur aukist mikið á undanförnum árum og segir Atli Örn Jónsson að samkvæmt uppgjörum íslensku tryggingafélaganna séu þau í dag öll í þeim sporum að tapa á ökutækjatryggingum. Atli er framkvæmdastjóri sölu- og þjónustusviðs Varðar. Vörður er alhliða tryggingafélag fyrir einstaklinga og fyrirtæki og nær saga félagsins allt aftur til ársins 1926, þegar Vélbátasamtrygging Eyjafjarðar var stofnuð á Akureyri.

Þungt og hratt

Að sögn Atla má einkum skrifa tjónþungann á að umferð hefur aukist, hraði í umferðinni sé einnig að aukast og þá hefur tíðarfar haft mikil áhrif. „Við sjáum að bara á höfuðborgarsvæðinu er bílaflotanum ekið fleiri kílómetra ár hvert. Viðgerðarkostnaður hefur um leið farið hækkandi í takt við tækniþróun nýrra ökutækja Þá er kostnaður vegna líkamstjóna vaxandi, án þess að um sé að ræða samsvarandi fjölgun slasaðra. Er sennilegasta skýringin sú markaðsbreyting sem orðið hefur með sókn lögmannsstofa sem sérhæfa sig í tjónauppgjörum.“ Bendir Atli á að iðgjöld þurfi ávallt að endurspegla tjónakostnað, og haldi þróunin áfram á sömu braut megi búast við að iðgjöld muni á endanum fara hækkandi. „Hörð samkeppni hefur komið sér vel fyrir neytendur og ýtt iðgjöldunum niður, en þessi óhagstæða tjónaþróun sem verið hefur upp á síðkastið er áhyggjuefni.“ Ein breyta gæti líka verið að hafa neikvæð áhrif, og það eru snjallsímarnir. Segir Atli vert að rannsaka betur að hvaða marki slysum kann að vera að fjölga vegna þess að ökumenn eru ekki með athyglina við umferðina. „Það má sjá þetta vel á morgnana þegar stór hluti borgarbúa ekur til vinnu. Ef staðnæmst er á ljósum má víða sjá fólkið í bílunum í kring að skoða Facebook, senda SMS eða lesa fréttir á meðan beðið er eftir græna ljósinu eða jafnvel við akstur.“ Fylgst með hverri beygju

Tæknin gæti þó líka, á endanum, orðið til að umbylta ökutækjatryggingum og láta iðgjöldin endurspegla betur akstursmáta hvers og eins. Úti í heimi hafa verið gerðar tilraunir með ökurita sem miðla upplýsingum til tryggingaafélaga um aksturslag þess tryggða. „Nú síðast er þessi sama virkni komin í GSM símana og hægt að mæla og miðla ýmsum gögnum,“ segir Atli og bætir við að enn sé margt óljóst um þau lagalegu atriði sem ættu að gilda um þessa tækni. „En það er hægt að ímynda sér að ef þróa má ásættanlega leið til að vinna úr þessum gögnum án þess að brjóti gegn reglum um meðferð persónuupplýsinga og verndun einkalífs, þá gefist þar leið til að umbuna þeim ökumönnum sem aka í samræmi við lög og reglur og fara vel með ökutækið.“ Aldrei aftur slys?

Þegar horft er enn lengra fram á veginn má svo sjá glitta í sjálfkeyrandi bíla. Eru vonir bundnar við að með aukinni sjálfvirkni í akstri muni draga mjög úr slysum og gæti jafnvel gerst einn daginn að banaslys í umferðinni heyri sögunni til. Atli segir þróunina mjög spennandi en óljóst hvaða áhrif sjálfkeyrandi bílar myndu hafa á tryggingamarkaðinn. „Útkoman yrði vonandi að slysum myndi fækka, en á móti gæti komið að sjálfkeyrandi bílar eru fullkomnari og dýrari en venjulegir bílar og því gæti kostnaðurinn við hvert tjón orðið meiri. Einnig má ekki gleyma mannlega þættinum en það er eðli mannsins að vilja keyra bíla og hafa gaman af.“

author

13. október 2015

Deila Frétt