Sumardekkin á bílinn

14. apríl 2023

Nú er sá tími árs að renna upp að ekki megi aka um á nagladekkjum en eftir 15. apríl þurfa sumardekkin að fara undir bílinn, nema aðstæður gefi tilefni til annars. Því fyrr sem nagladekkin fara undan bílnum því betra, því þau auka kostnað á viðhaldi gatna. Nagladekk slíta malbiki margfalt hraðar en önnur dekk, þau auka eldsneytiskostnað, eru hljóðmengandi og draga úr loftgæðum með mengun. Því er ráð að panta tíma á hjólbarðaverkstæði og láta fagmenn skipta út nagladekkjum fyrir sumardekk.

Hjólbarðar eru einn stærsti öryggisþáttur bílsins og geta skipt sköpum þegar á reynir. Dekk mynda einu snertingu bílsins við veginn og því er afar mikilvægt að þau séu alltaf í góðu lagi. Stöðugleiki bíls og hemlunarvegalengd hans ræðst til dæmis að stóru leyti af þeim. Ökumenn þurfa því að huga vel að sumardekkjum sínum, að þau séu í lagi og ef ekki þá að fjárfesta í nýjum.

Gott er að hafa eftirfarandi í huga:

  • Aldur og slit Á flestöllum dekkjum er lítill rammi sem segir til um viku árs og ár þegar dekkið var framleitt. Gömul dekk en óslitin geti verið jafn hættuleg og slitin dekk.

  • Mynstursdýpt Mynstur sumardekkja á að vera a.m.k. 1,6 mm djúpt. Mynstursdýpt nýrra dekkja er yfirleitt a.m.k. 9 mm. Slit dekkja minnkar veggrip þeirra og þar með öryggi.

  • Dekk sömu gerðar Dekk undir bifreið sem er 3.500 kíló eða minna að leyfðri heildarþyngd eiga öll að vera sömu gerðar.

  • Loftþrýstingur Sé loftþrýstingur of mikill eða of lítill minnkar snertiflötur dekkjanna og um leið veggrip þeirra. Réttan þrýsting má finna í handbók bílsins eða inn í hurðarstaf bílstjóramegin eða bensínloki.

  • Jafnvægisstilling Mikilvægt er að dekk séu rétt jafnvægisstillt en dekk í ójafnvægi hafa veruleg áhrif á aksturshæfni bíls og eldsneytiseyðslu.

  • Hrein dekk Þvoðu dekkin með dekkja- eða tjöruhreinsi. Hrein dekk grípa betur.

Ef kaupa þarf ný sumardekk borgar sig að vanda valið vel og mikilvægt að hafa í huga að margir þættir skipta máli í gæðum dekkja, s.s. viðnám, hávaði og grip í bleytu. Seljendum hjólbarða er skylt að hafa þá merkta með upplýsingum um samræmdar gæðaprófanir. Þannig er hægt að gera áreiðanlegan samanburð á gæðum og öryggi dekkja.

Hugum að öryggi okkar og annarra í umferðinni og ökum alltaf á góðum dekkjum.

Eru dekkin í lagi?

Viðskiptavinir Varðar fá sérkjör á dekkjum og annarri þjónustu hjá samstarfsaðilum okkar.

author

Vörður tryggingar

14. apríl 2023

Deila Frétt