03. október 2025


„Orsök tjóns á sumarhúsinu má rekja til leka á heitu vatni sem rann yfir talsverðan tíma án þess að nokkur yrði þess var. Vatn náði að frjósa í lögnum að öllum líkindum vegna bilunar á hringrásardælu fyrir ofnakerfi hússins og síðan hefur byrjað að leka úr rifnum lögnum í næstu þýðu. Slökkvilið var kallað út til að aðstoða við að dæla upp vatni og að þeirra sögn var meira en 10cm vatn yfir öllu gólfi hússins þegar þeir komu á staðinn og mikil gufa í flestum rýmum.“
Svona hljóðar lýsing á vatnstjóni í sumarbústað á síðasta ári og var bústaðurinn ónýtur. Þetta er ekki einsdæmi því á hverju ári verða miklar skemmdir á sumarhúsum vegna frostsprunga í lögnum. Vatnstjón í sumarhúsum eru algeng og við það veðurfar sem við búum við hér á landi geta auðveldlega skapast aðstæður sem valda þeim. En það er líka hægt að koma í veg fyrir þau eða a.m.k takmarka með einföldum forvörnum:
Ef hiti er tekin af sumarhúsinu yfir vetur:
Lokaðu aðalvatnsloka.
Opnaðu alla krana úti og inni og tæmdu vatn af kerfi.
Tæmdu salerni og vatnstanka.
Helltu frostlegi í vatnslása (vaskar, salerni, sturta) og niðurföll.
Ef hiti er á sumarhúsinu yfir vetur:
Haltu hitanum á a.m.k. 10°C í öllum rýmum með lagnir.
Gakktu úr skugga um að varmaskynjarar, ofnar og hitakerfi virki rétt.
Einangraðu vel lagnir sem liggja í köldum rýmum
Ef þú ert með snjallkerfi getur þú fylgst með hitastigi í appinu
Einnig er mikilvæg að sumarhúsaeigendur kynni sér allar þær leiðir sem færar eru til þess að reyna að koma í veg fyrir alvarleg tjón:
Wi-Fi vatnsskynjarar
Ýmsir möguleikar eru í boði þegar kemur að því að setja upp öryggiskerfi í sumarhúsinu. Flest kerfi eru nettengd og hægt er að fá aðvörun í síma gegnum app ef eitthvað er í ólagi. Hægt er að fá svokallaða 4g hnetu ef ekki er Wi-Fi í bústaðnum og tengja kerfið gegnum hana. Vatnskynjararnir eru tiltölulega ódýrir og kjörið að hafa í eldhúsi, baðherbergi og stofu. Ef þú ert í vafa um hvernig á að setja upp öryggiskerfi í sumarhúsi þá geta sölumenn öryggisverslanna aðstoðað þig með uppsetningu þeirra.
Öryggisloki fyrir vatn
Hægt er að fá öryggisloka á vatnslagnir sem loka fyrir innstreymi á vatn til salernis, vasks eða heimilistækja eins og uppþvottavéla eða þvottavéla. Lokinn er millistykki milli tækis og krana sem virkjast ef of mikið vatn fer gegnum hann á ákveðnum tíma. Til eru einfaldir, öruggir og tiltölulega ódýrir lokar sem þurfa ekki rafmagn. Hægt er að stilla mismunandi öryggismörk á lokanum eftir því hversu mikið vatn er verið að nota.
Næ ég í tæka tíð?
Hvað ef það byrjar að leka í bústaðnum og ég er ekki þar? Því fyrr sem þú kemst til þess að skrúfa fyrir, því minni verður skaðinn. En það eru líka hægt að nota tengslanetið á sumarbústaðasvæðinu og biðja aðra að gæta að húsinu fyrir þig. Mögulega er einhver nágranni í bústað nálægt og getur brugðist við eða íbúi í nágrenninu sem hægt er að semja við um eftirlit. Hafa bera í huga að oft byrjar að leka þegar frostakaflinn er yfirstaðinn og klakinn sem sprengdi lagnirnar byrjar að þiðna.
Flestir tengja ferð í sumarbústaðinn við slökun og kyrrð. Það vill engin lenda í því að koma að húsinu sínu á floti og því mikilvægt að fyrirbyggja slík tjón. Ekki bíða með að grípa til aðgerða, gangið vel frá sumarhúsinu fyrir brottför og skoðið hvaða möguleikar eru í boði með vöktun og snjallkerfi. Ef ráðast þarf í viðamiklar breytingar lögnum í sumarhúsi mælum við alltaf með að samráð sé haft við fagmenn.

Ágúst Mogensen
03. október 2025