31. mars 2022
Vörður gefur árlega út sjálfbærniskýrslu sem er hluti af samfélagsábyrgð félagsins en hún er unnin samkvæmt UFS viðmiðum Nasdaq Iceland. Í henni eru ófjárhagslegar upplýsingar um áhrif starfseminnar á umhverfið, félagsmál og stjórnarhætti. Vörður leggur áherslu á þá málaflokka innan UFS sem félagið getur haft mest áhrif á og eru viðeigandi og mikilvægir fyrir kjarnastarfsemina.
Vörður einsetur sér í allri starfsemi sinni að hafa jákvæð áhrif á samfélagslega þróun og umhverfið sem félagið starfar í. Samfélagsábyrgð Varðar grundvallast á að starfa af heilindum til hagsbóta fyrir alla hagaðila, eins og viðskiptavini, starfsfólk, eigendur og samfélagið í heild, til að skapa sameiginlegt virði. Samfélagsábyrgðin er samþætt stefnu og starfsháttum Varðar og í sinni einföldustu mynd snýst hún um ábyrga starfshætti. Grunnurinn er siðferðislegur og forsenda góðra verka og faglegra ákvarðana.
Markmið um minnkun kolefnisspors náðist
Markvisst er unnið að því að auka umhverfisvæna þætti í starfsemi Varðar og draga úr neikvæðum áhrifum á umhverfið. Í sjálfbærniskýrslunni kemur fram að Vörður hefur bein og óbein áhrif á loftlagsbreytingar í gegnum starfsemi sína. Langmest losun kemur frá ferðum starfsfólks til og frá vinnu. Nemur hún um 27 tonnum af koltvísýringi og stendur í stað milli ára. Þrátt fyrir aukin umsvif starfseminnar er heildarlosun gróðurhúsalofttegunda að dragast saman um 34% milli ára. Lækkunin er fyrst og fremst vegna Covid-19 og vegna minni innkaupa á aðföngum.
Hvatningarverðlaun jafnréttismála
Jafnrétti er stór hluti af samfélagsábyrgð Varðar. Sjálfbærniskýrslan sýnir að kynjahlutföll innan félagsins eru nokkuð jöfn og er ötullega unnið að því að jafna þau á öllum stigum. Þannig nást fram ólík sjónarmiðum sem stuðla að enn frekari framþróun félagsins. Kynjajafnrétti hefur lengi ríkt hjá Verði og er greipt í menningu félagsins. Á síðasta ári hlaut Vörður í þriðja sinn Jafnvægisvog Félags kvenna í atvinnurekstri, var þriðja árið í röð kosið Fyrirtæki ársins hjá VR og hlaut að nýju viðurkenningu sem Fyrirmyndarfyrirtæki í stjórnarháttum. Í árslok hlaut Vörður svo Hvatningarverðlaun jafnréttismála á sviði kynjajafnréttis fyrir framúrskarandi framlag sitt til jafnréttismála en að verðlaununum standa Háskóli Íslands og Samtök atvinnulífsins. Þá er Vörður eina íslenska tryggingafélagið sem skorar 10 á GemmaQ kynjakvarðanum sem greinir kynjahlutföll innan stjórnendalags. Þessar viðurkenningar eru félaginu mikilvægar því þær veita innblástur og hvatningu til áframhaldandi góðra verka.
Hér getur þú skoðað Sjálfbærniskýrslu Varðar fyrir árið 2021.
Vörður tryggingar
31. mars 2022