sjálfbærni

Sjálfbærniskýrsla Varðar 2020

20. apríl 2021

Umfangsmikið starf var unnið hjá Verði á árinu 2020 þegar stefna um sjálfbærni var mótuð og samþykkt af stjórn félagsins. Í nýju stefnunni er hugað að sjálfbærni í hvívetna í allri starfsemi Varðar. Stefnan var unnin með hliðsjón af niðurstöðum áhættugreiningar á umhverfisþáttum, félagslegum þáttum og stjórnarháttum Varðar. Samhliða stefnunni voru settir lykilmælikvarðar fyrir árið 2020.

Það er stefna Varðar að vinna að heilindum að sjálfbærnimálum og hafa jákvæð áhrif á hagaðila með því að gæta að beinum og óbeinum umhverfis- og félagslegum áhrifum í starfsemi sinni og styðja við heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna. Markmiðið er að rekstur félagsins sé til fyrirmyndar í íslensku atvinnulífi og er ekki eingöngu horft til fjárhagslegra markmiða sem tengjast arðsemi og hagkvæmni, heldur einnig til umhverfismála, félagslegra þátta og stjórnarhátta.

Árlega gefur Vörður út skýrslu um ófjárhagslegar upplýsingar eða sjálfbærniskýrslu. Skýrslan er unnin í samræmi við UFS-viðmið Nasdaq með tilvísun í Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun og leiðbeiningar Greenhouse Gas Protocol.

Markmið um minni losun náðist

Markvisst er unnið að því að auka umhverfisvæna þætti í allri starfsemi Varðar og draga úr neikvæðum áhrifum á umhverfið. Í sjálfbærniskýrslunni kemur fram að mesta losunin kemur frá aðföngum og nemur hún um 52 tonnum af koltvísýringi. Næstmest losun kemur frá ferðum starfsfólks til og frá vinnu og nemur hún 27 tonnum af koltvísýringi en minnkar um 59% milli ára og hefur COVID-19 mikil áhrif á losunina. Þrátt fyrir aukin umsvif í starfseminni, bæði í veltu og fjölgun starfsfólks, er heildarlosun gróðurhúsalofttegunda frá rekstri að dragast saman um 11% milli ára.

Áfram verður unnið að því að ná markmiðinu um að minnka kolefnisspor félagsins í samræmi við Parísarsáttmálann til ársins 2030.

Verðlaun fyrir framúrskarandi samfélagsábyrgð

Samfélagsábyrgð Varðar grundvallast á því að starfa af heilindum til hagsbóta fyrir alla hagaðila, eins og viðskiptavini, starfsfólk, eigendur og samfélagið í heild. Með því að fara fram með góðu fordæmi hvað jafnrétti, sanngirni og mannréttindi varðar og hvetja aðra, svo sem birgja og aðra hagaðila, til hins sama teljum við okkur sinna þessu hlutverki vel. Á síðasta ári var gerð könnun hjá helstu birgjum félagsins á ýmsum þáttum sem tengjast umhverfismálum, félagslegum þáttum og stjórnarháttum. Félagið mun vinna með niðurstöðurnar og er ætlunin að skilgreina viðmið og endurskoða verkferla við val á birgjum. Einnig er ætlunin að eiga samtal við hagaðila og framkvæma hagaðilagreiningu.

Vörður hefur um árabil lagt áherslu á að byggja upp fyrirmyndarvinnustað þar sem horft er til þess að tryggja jöfn tækifæri allra til ábyrgðar, þroska og launa. Lögð er áhersla á að hlúa vel að heilsu og vellíðan starfsfólks, bjóða upp á uppbyggilegt og framsækið vinnuumhverfi ásamt því að stuðla að starfsánægju og velsæld allra.

Í sjálfbærniskýrslunni kemur fram að Vörður er jafnlaunavottað og var fyrsta íslenska fyrirtækið sem skorar 10 á GemmaQ kynjakvarðanum sem greinir kynjahlutföll innan stjórnendalags. Félagið fær einnig hæstu mælingu á jafnréttisþættinum meðal stórfyrirtækja í könnun VR á Fyrirtæki ársins. Vörður hefur einnig hlotið vottun frá Rannsóknarmiðstöð um góða stjórnarhætti og hefur verið fyrirmyndarfyrirtæki í stjórnarháttum síðan 2018.

Á síðasta ári hlaut Vörður hvatningarverðlaun Creditinfo fyrir að sýna framúrskarandi samfélagsábyrgð en verðlaunin voru veitt í samstarfi við Festu, miðstöð um samfélagsábyrgð. Viðurkenningin hvetur félagið enn frekar til áframhaldandi góðra verka þegar kemur að sjálfbærni.

Sjálfbærniskýrsla 2020

Hér getur þú skoðað Sjálfbærniskýrslu Varðar fyrir árið 2020.

author

Vörður tryggingar

20. apríl 2021

Deila Frétt