forvarnir

Mundu eftir bílrúðumiðanum

17. mars 2022

Margir ökumenn kannast við að hafa fengið stein í framrúðuna á bílnum sínum. Skemmdar bílrúður geta truflað ökumenn við akstur og ef skemmdin er í sjónlínu þarf að skipta um rúðuna. Ef skemmdin er annar staðar í rúðunni er hægt að gera við hana svo fremi sem hún er ekki stærri en 100 krónu peningur og þá greiðir Vörður viðgerðina að fullu.

Vörður hefur látið útbúa límmiða sem kemur í veg fyrir að skemmd breiði úr sér þar til bíllinn kemst á verkstæði. Límmiðinn er ókeypis og hægt er að nálgast hann á skrifstofum okkar í Borgartúni 19, á Akureyri og í Reykjanesbæ.

Árið 2021 var hlutfall viðgerða á bílrúðum aðeins 11% á móti 89% þar sem skipt var um framrúðuna. Það samsvarar því að um 40 tonn af gleri fór í ruslið og 40 tonn af gleri voru flutt til landsins með tilheyrandi kolefnisspori. Það er því til mikils að vinna fyrir umhverfið að hækka hlutfall viðgerða á bílrúðum.

Helstu kostir bílrúðuviðgerða:

  • Ef skemmdin er minni en límmiðinn og ekki í sjónlínu ökumanns, eru góðar líkur á að hægt sé að gera við rúðuna. Þú borgar ekkert ef þú ert með bílrúðutryggingu. 

  • Styttri viðgerðartími og minna vesen. Það er mun fljótlegra að gera við rúðuna heldur en setja nýja í bílinn sem þýðir styttri bið fyrir þig. 

  • Með því að nota límmiðann eru auknar líkur á að hægt sé að gera við bílrúðuna. Þá þarf ekki að flytja nýja rúðu til landsins með tilheyrandi kolefnisspori og farga þeirri gömlu.

author

Vörður tryggingar

17. mars 2022

Deila Frétt