fréttir

Vörður hlýtur Hvatningarverðlaun jafnréttismála

30. nóvember 2021

Vörður hefur hlotið Hvatningarverðlaun jafnréttismála 2021 með áherslu á kynjajafnrétti. Verðlaunin eru árlega veitt fyrirtæki sem stendur sig vel þegar kemur að jafnréttismálum og veitir öðrum innblástur til að gera slíkt hið sama. Að Hvatningarverðlaunum jafnréttismála standa Samtök atvinnulífsins og Háskóli Íslands og voru þau nú veitt í áttunda sinn. Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, vísinda-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra afhenti Guðmundi Jóhanni Jónssyni forstjóra og Hörpu Víðisdóttur mannauðsstjóra verðlaunin við athöfn í hátíðarsal Háskóla Íslands þann 30. nóvember 2021.

„Við erum að springa úr hamingju yfir þessu. Við erum stolt, við erum auðmjúk, við erum þakklát Samtökum atvinnulífsins og Háskólanum fyrir að veita þessi verðlaun. Þau eru ótrúleg hvatning. Við erum hvergi nærri hætt. Þetta er í erfðaefninu okkar og bæði í vatns- og kaffivélinni á okkar vinnustað. Við höldum áfram veginn ötul. Það er fullt af tækifærum,“ segir Harpa Víðisdóttir.

Í rökstuðningi dómnefndar kemur meðal annars fram:

„Vörður hefur unnið markvisst að jafnrétti innan fyrirtækisins undanfarin ár. Félagið hefur einsett sér að vera til fyrirmyndar í jafnréttismálum í íslensku atvinnulífi og hvatt aðra til hins sama. Félagið hefur hlotið 10 af 10 mögulegum í GEMMAQ kynjakvarðanum og þá hefur félagið lagt sig fram við að fá vottanir og innleiða hugbúnaðarlausnir sem stuðla að auknu jafnrétti. Félagið telur að starfshættir þess stuðli nú að sanngirni og jafnrétti þar sem áherslan á jafnan rétt kvenna og karla sé sýnileg í allri starfsemi fyrirtækisins. Þá er það einnig markmiðið að útrýma kynbundinni mismunun sé hún til staðar og stuðla að jafnræði og mannréttindum í hvívetna. Loks hefur félagið sett sér einnig metnaðarfull markmið í jafnréttismálum til framtíðar.“

Stöndum vörð um samfélagið „Við erum mjög stolt af því að fá Hvatningarverðlaun jafnréttismála. Þau eru mikil viðurkenning fyrir okkar starf og góð hvatning fyrir starfsfólkið. Frá því Vörður birti fyrst jafnréttisstefnu sína árið 2011 og hlaut jafnlaunavottun árið 2014, fyrst allra fjármálafyrirtækja hér á landi, hefur félagið einsett sér að vera til fyrirmyndar í jafnréttismálum. Það er stefna okkar að vinna af heilindum að jafnrétti og tryggja jöfn tækifæri allra í íslensku samfélagi ásamt því að styðja við heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um jafnrétti kynjanna. Þannig stöndum við vörð um samfélagið,“ segir Guðmundur Jóhann Jónsson.

Fyrirtæki hvött til að hafa jafnrétti að leiðarljósi Markmið með Hvatningarverðlaunum jafnréttismála er að vekja athygli á fyrirtækjum sem hafa jafnrétti að leiðarljósi í starfsemi sinni og jafnframt að hvetja önnur fyrirtæki til að gera slíkt hið sama. Verðlaunin eru veitt fyrirtæki sem hefur stuðlað að jöfnum möguleikum kynjanna til starfsframa, jöfnum launum, jafnvægi í kynjahlutföllum og aukinni vitund um þann ávinning sem jafnrétti hefur fyrir fyrirtækið og samfélagið.

author

Vörður tryggingar

30. nóvember 2021

Deila Frétt