almennt

Gleðilega verslunarmannahelgi

30. júlí 2020

Stærsta ferðahelgi ársins er í vændum, sjálf verslunarmannahelgin. Hjá mörgum er það fastur liður að skella sér á útihátíð eða í útilegu um þessa helgi en í ár verður hún með óhefðbundnu sniði vegna kórónuveirufaraldursins. Útihátíðum víða um land hefur verið aflýst eða dagskrá þeirra breytt að miklu leyti enda verða fjöldatakmarkanir í gildi þar sem að hámarki 100 manns mega koma saman.

Þrátt fyrir að skipulögð dagskrá hafi breyst um verslunarmannahelgina má búast við því að margir verði á faraldsfæti líkt og verið hefur síðustu helgar. Því er ekki úr vegi að minna á mikilvægi þess að sýna fyrirhyggju og aðgát þegar haldið er í ferðalagið og hlýða tilmælum almannavarna, landlæknis og sóttvarnalæknis.

Hugum vel að öryggisatriðum

Áður en lagt er af stað í ferðalagið skal ganga úr skugga um að bíllinn sé í góðu ástandi og á það auðvitað líka við ferðavagninn ef hann er með í för. Athugið hvort öll ljós og önnur öryggisatriði séu í lagi og kannið ástand hjólbarða, bæði hvað slit og loftþrýsting varðar. Gangið þannig frá farangri að ekki sé hætta á að hann kastist til við árekstur, bílveltu eða ef bremsað er snögglega. Gætum þess að vera vel úthvíld áður en lagt er í hann og á meðan á akstri stendur.

Almenn tillitssemi

Bestu ferðafélagarnir eru góða skapið og tillitssemin. Þegar mikil umferð er má búast við að ferðalagið taki lengri tíma en venjulega. Viðurkenndur öryggisbúnaður barna á auðvitað að vera til staðar sem henta hæð og þyngd þeirra. Ef við ætlum að fara okkur hægt á ferðalaginu skulum við haga akstrinum þannig að auðvelt og öruggt sé að fara fram úr okkur. Að sama skapi þurfum við að gæta fyllstu varúðar þegar við förum fram úr öðrum bílum. Ökum samkvæmt aðstæðum hverju sinni og förum ekki hraðar en leyfður hámarkshraði segir til um. Munum að hafa beltin alltaf spennt. Áfengisneysla og akstur eiga enga samleið og setjumst ekki undir stýri þar til allt áfengi er farið úr blóðinu. Það getur tekið allt að 18 klukkustundir.

Fylgjumst með veðri og spám

Ferðalangar er hvattir til að skoða vel færð og veður áður en farið er af stað og að tryggilega hafi verið gengið frá heimilinu, gluggar lokaðir, húsið læst og öryggiskerfið sett á. Samkvæmt veðurspám er útlitið heldur dapurt til útilegu um helgina. Aðfaranótt föstudags er von á óvenju djúpri lægð að landinu með allt hvössum vindi og úrkomu um allt land. Veðrið gæti haft áhrif á akstur suðaustanlands og siglingar Herjólfs til Eyja.

Leiðbeiningar frá Landlæknisembættinu

Að gefnu tilefni er ástæða til að biðja landsmenn um að fara eftir tilmælum Landlæknisembættisins, almannavarna og sóttvarnarlæknis, huga vel að persónulegu hreinlæti til að draga úr sýkingarhættu og virða takmarkanir. Tveggja metra reglan hefur verið tekin upp að nýju og fjöldatakmarkanir hertar úr að hámarki 500 manns sem mega koma saman í 100.

  • Handhreinsun og hreinlæti kringum augu, nef og munn ásamt öruggri meðhöndlun fæðu eru lykilatriði til að forðast smit og fækka smitleiðum í þeim tilgangi að draga úr líkum á alvarlegum veikindum.

  • Kórónaveiran Novel (COVID-19) hagar sér í sumu eins og inflúensa, einkenni eru svipuð og smitleiðir áþekkar.

  • Einkenni líkjast helst inflúensusýkingu, hósti, hiti, bein- og vöðvaverkir, þreyta o.s.frv. Kórónaveiran Novel getur einnig valdið alvarlegum veikindum með neðri öndunarfærasýkingum og lungnabólgu, sem koma oft fram sem öndunarerfiðleikar á 4.-8. degi veikinda.

  • Ef einstaklingar finna fyrir veikindum er þeim bent á að hringja í síma 1700 (fyrir erlend símanúmar +354 544-4113) varðandi nánari upplýsingar og hvernig þeir eigi að nálgast heilbrigðiskerfið.

  • Þessir einstaklingar eru sérstaklega beðnir um að mæta ekki á bráðamóttöku sjúkrahúsa eða á heilsugæslustöðvar nema að fengnum ráðleggingum í síma.

Góða ferð, farið varlega og komið heil heim.

author

Vörður tryggingar

30. júlí 2020

Deila Frétt

Fleiri fréttir