almennt

Fögnum sumarsólstöðum

19. júní 2020

Sumarsólstöður er magnað fyrirbæri en þá er sólargangur lengstur hér á norðurhveli jarðar og hádegissólin hættir að hækka dag frá degi. Eftir það fer sólin að lækka aftur og daginn tekur að stytta á ný. Sumarsólstöður verða laugardaginn 20. júní og sólstöðumínútan er klukkan 21:44. Víðsvegar um Norðurlöndin er efnt til mikilla hátíðarhalda að þessu tilefni. Hér á landi hefur sumarsólstöðuganga verið stunduð árlega í Reykjavík og nágrenni frá árinu 1985.

Sumarsólstöðugangan fer fram í Viðey laugardagskvöldið 20. júní. Siglt verður frá Skarfabakka klukkan 20 og til baka ekki seinna en klukkan 23. Farin verður skemmtileg gönguleið umhverfis Kvennagönguhól og umhverfi hans skoðað og sögur sagðar af staðnum. Gestir eru hvattir til að taka með sér nesti og heitan drykk. Gönguleiðin er hæfileg, gengið er á mjúku undirlagi en mælt er með góðum skóm og skjólgóðum jakka.

Gestur göngunnar er Jón Atli Benediktsson rektor Háskóla Íslands sem flytur þátttakendum ávarp en fyrir göngu mun Árný Helgadóttir hjúkrunarfræðingur hita hópinn upp með kjörorð í huga: Kraftganga, hæfileg hreyfing léttir lífið.

Góð ganga í íslenskri náttúrunni er frábær hreyfing og heilsusamleg og uppbyggjandi fyrir líkama og sál. Munum bara að undirbúa okkur vel og fara varlega. Vörður hvetur alla sem geta til að halda upp á sumarsólstöður með hollri hreyfingu og upplifa þetta kynngimagnaða fyrirbæri. Veðurspáin er ágæt um mest allt land.

author

Vörður tryggingar

19. júní 2020

Deila Frétt