almennt

Fögnum þjóðhátíðardeginum heima

15. júní 2020

Við búum enn við samkomutakmarkanir og höldum auðvitað áfram að vera ábyrg og fara eftir fyrirmælum um sóttvarnir. Vörður hvetur alla landsmenn til þess að fagna þjóðhátíðardeginum heima í ár. Væri ekki frábært ef fólk myndi skreyta hús sín og götur, slá upp grillveislu og kenna börnunum sígilda útileiki eins og fallin spýta, hlaupa í skarðið, stórfiskaleik, parís og pokahlaup.

Aðstæður í samfélaginu hafa verið óvenjulegar síðustu mánuði og haft áhrif á okkur öll með einum eða öðrum hætti. Við höfum þurft að breyta lifnaðarháttum okkar og gera hlutina öðruvísi en áður. Nú er komið að þjóðhátíðardeginum og þar sem hátíðarhöld verða með óhefðbundnu sniði í ár er upplagt að gleðjast og fagna deginum á óvenjulegan og öðruvísi máta með okkar eigin heimahátíð - heima með fjölskyldu og vinum eða í allri götunni með nágrönnunum. Pössum að virða 500 manna samkomuhámarkið.

Ertu byrjaður að skipuleggja þín hátíðarhöld? Hverjum er boðið?

  • Fallin spýta fer þannig fram að einn úr hópnum er valinn til að bíða hjá spýtu sem er stillt upp við vegg, tré, ljósastaur eitthvað annað. Hann byrjar á því að telja upp að 20 og á meðan hlaupa hinir þátttakendurnir burt og fela sig. Markmiðið er að finna alla sem földu sig. Ef hann sér einhvern, hleypur hann að spýtunni og kallar fallin spýta fyrir Ásu einn, tveir, þrír og er þá viðkomandi úr leik. Þeir sem földu sig reyna aftur á móti að komast að spýtunni á undan þeim sem leitar og ef einhverjum tekst það kastar hann spýtunni upp í loftið og kallar: fallin spýta fyrir öllum og með því frelsar hann alla. Þetta er bæði skemmtilegur og spennandi leikur sem hægt er að leika nærri hvar sem er.

  • Hlaupa í skarðið fer þannig fram að Allir mynda hring. Einn þátttakandi byrjar fyrir utan hringinn, hann hleypur af stað réttsælis og slær einhvern létt í bakið. Sá hleypur í gagnstæða átt og síðan er kapphlaup hringinn um hvor er á undan í skarðið. Sá sem er á eftir slær síðan í einhvern annan o.s.frv. Þeir sem eru búnir að hlaupa snúa bökum inn í hringinn þannig að þeir verði ekki slegnir aftur.

  • Stórfiskaleikur fer þannig fram að einn þátttakandi stendur á miðjum velli og kallast hákarlinn. Hinir þátttakendurnir kallast fiskarnir og þeir standa á öðrum enda vallarins. Þegar Hákarlinn klappar eiga fiskarnir að hlaupa yfir á hinn enda vallarins og hákarlinn á að reyna að klukka þá. Sá sem er klukkaður gengur í lið með hákarlinum og sá vinnur sem stendur einn eftir en engu að síður þarf hann líka að vera klukkaður.

Vörður óskar öllum landsmönnum til hamingju með þjóðhátíðardaginn 17. júní. Njótum dagsins með fjölskyldunni og í góðra vina hópi. Förum varlega og göngum hægt um gleðinnar dyr.

author

Vörður tryggingar

15. júní 2020

Deila Frétt