tilkynningar

Ferðatryggingar, ferðalög og COVID-19

18. janúar 2022

Við höfum dregið saman helstu upplýsingar um ferðatryggingar og COVID-19. Hver og einn getur gert ýmislegt til að forðast smit og draga úr útbreiðslu veirunnar. Mikilvægt er að allir fari eftir leiðbeiningum sóttvarnarlæknis sem finna má á vefsíðunni Covid.is. Við hvetjum þig til að kynna þér upplýsingarnar.

Sóttvarnalæknir ráðleggur íbúum Íslands sem ekki eru full bólusettir (eða með staðfesta fyrri sýkingu) frá ferðalögum á áhættusvæði. Öll lönd og svæði að undanskildu Grænlandi eru nú skilgreind sem áhættusvæði vegna COVID-19. Ef ferðalög erlendis eru talin nauðsynleg þá eru mörg ríki sem óska eftir neikvæðu COVID-19 prófi. Misjafnt er eftir áfangastöðum hvort farið er fram á PCR-próf (sýnatökupróf) eða hvort skyndipróf (e. rapid antigen test) duga.

Á vef Landlæknisembættisins er að finna ráðleggingar fyrir Íslendinga á ferð erlendis. Þar er fjallað um notkun hlífðargríma, sýkingavarnir sem hver og einn þarf að viðhafa, ekki hvað síst erlendis og hvað skal gera við heimkomu. Mjög mikilvægt er að ferðast ekki ef einkenni um smit eru til staðar. Æskilegt er að hver og einn kanni, áður en lagt er í ferð, hvaða reglur gilda í því landi sem farið er til með því að kynna sér ferðaráð utanríkisráðuneytisins.

Við heimkomu til Íslands er bæði hægt að sýna vottorð um staðfesta COVID-19 sýkingu frá Íslandi, vottorð um bólusetningu á Íslandi og sambærileg vottorð samkvæmt leiðbeiningum frá sóttvarnalækni. Einstaklingar, með búsetu á Íslandi, sem hafa verið á skilgreindum áhættusvæðum og snúa heim eru hvattir til að fylgja tilmælum landlæknis. Ef þeir fá einkenni frá öndunarfærum, sérstaklega með hita, skulu þeir hafa samband við Læknavaktina í síma 1700 eða sína heilsugæslu símleiðis en ekki mæta óboðaðir á sjúklingamóttökur. Athugið að jákvæði niðurstaða úr skimun leiðir alltaf til einangrunar og frekari rannsókna. Einnig hjá bólusettum og fólki með fyrra smit.

Hér fyrir neðan má finna upplýsingar varðandi ferðatryggingar Varðar og kreditkort Arion banka og Landsbankans og COVID-19. Ef þú finnur ekki svarið sem þú leitar að bendum við þér á að hafa samband við okkur í síma 514-1000, í gegnum netfangið [email protected] eða í netspjalli á vef Varðar: www.vordur.is

Hver er munurinn á forföllum og ferðarofi?

 • Forföll eiga við ef þú verður að hætta við ferð vegna veikinda eða slyss áður en hún hefst og þú ert enn á Íslandi eða dvalarlandi þínu.

 • Ferðarof er ef þú þarf að rjúfa ferð sem er þegar hafin, þ.e. þú ert staddur erlendis og þarft að komast til Íslands vegna alvarlegra veikinda ættingja eða andláts á Íslandi eða vegna verulegs eignartjóns.

Ef ég er á leið utan...

 • og búið er að aflýsa fluginu mínu, er það bætt? Ef flugfélag aflýsir fyrirhuguðu flugi á flugfélagið að endurgreiða þér flugmiðann að fullu. Bendum við þér á að hafa samband við flugfélagið þitt varðandi endurgreiðslu. Athugaðu að bið eftir svörum hjá flugfélögum getur verið löng. 

 • í pakkaferð sem keypt var í gegnum ferðaskrifstofu og kemst ekki vegna lokunar á áfangastað, er það bætt? Nei, því miður. Pakkaferðir bætast ekki úr forfallatryggingu Varðar eða kreditkortatryggingu Arion banka eða Landsbankans þar sem þær eiga að bætast að fullu frá ferðsala á grundvalli laga um pakkaferðir. Sjá nánar:

 • og kemst ekki í ferðina þar sem þarlend yfirvöld hafa sett ferðabann/lokað landamærum, er það bætt? Ef yfirvöld hafa lokað áfangastað eða þínu heimalandi vegna sóttvarna og flugfélagið aflýsir fyrirhuguðu flugi á flugfélagið að bæta þér flugið. Athugaðu að bið eftir svörum hjá flugfélögum getur verið löng. Varðandi annan ferðakostnaður eins og vegna hótels og/eða bílaleigubíls ber þér að leita fyrst til þjónustuaðilanna (hótel og/eða bílaleiga), afbóka þjónustuna og sækja um endurgreiðslu. Ef ekki fæst allur ferðakostnaður endurgreiddur vegna hótels og/eða bílaleigubíls greiðast bætur úr forfallatryggingu Varðar og kreditkortatryggingu Arion banka og Landsbankans. Aðeins er bættur sá hluti sem ekki fékkst endurgreiddur, samkvæmt skilmála hverrar tryggingar fyrir sig. Þegar að þær upplýsingar liggja fyrir er hægt að tilkynna tjónið inn á www.vordur.is og skila inn viðeigandi gögnum.

 • og er óviss um hvað ferðabann þýðir og hvort þarlend yfirvöld hafi lokað landinu fyrir ferðamönnum, hvert á ég að leita? Ferðabann er þegar yfirvöld viðkomandi lands loka fyrir komur ferðamanna (opinber höft). Athugaðu þó að ferðatakmarkanir geta verið mismunandi milli landa. Opinber höft og ferðabann geta breyst mjög skyndilega. Við bendum þér á að ef þú átt ekki flug á allra næstu dögum að hafa frekar samband við ferðasala þegar nær dregur flugi. Við mælum með að þú kynnir þér eftirfarandi heimasíður varðandi ferðabönn og lokun á landamærum:

 • og þarlend yfirvöld hafa sett útgöngubann, er það bætt? Ef yfirvöld þess lands hafa sett útgöngubann en ekki ferðabann eða lokað landamærum og þú vilt ekki fara í fyrirhugað ferð vegna þess, er því miður ekki hægt að sækja í forfallatryggingu Varðar eða kreditkortatryggingu Arion banka og Landsbanka.

 • get ég sótt í forfallatryggingu Varðar og/eða kreditkortatryggingu Arion banka og Landsbanka ef ferðin mín er til skilgreindra svæða með mikla smithættu samkvæmt landlækni? Nei því miður. Aðeins er hægt að sækja í forfallatrygginguna ef yfirvöld hafa lokað áfangastað eða þínu heimalandi vegna sóttvarna.

 • og vil hætta við ferðina vegna mögulegrar smithættu, er það bætt? Nei því miður, en við bendum þér á að leita til þinnar ferðaskrifstofu/flugfélags og kanna rétt þinn þar.

 • og hef fengið ráðleggingar frá mínum lækni að hætta við ferðina vegna undirliggjandi sjúkdóms, er það bætt? Nei því miður, ekki fást greiddar bætur úr forfallatryggingu Varðar eða kreditkortatryggingu Arion banka og Landsbanka vegna breytinga á ferð vegna undirliggjandi sjúkdóms. Við hvetjum þig þó að huga að eigin heilsu og fylgja fyrirmælum landlæknis varðandi ferðalög, sjá leiðbeiningar fyrir einstaklinga með áhættuþætti.

 • og flugfélagið sem ég á fyrirhugaða ferð með fer í rekstrarstöðvun eða gjaldþrot, get ég sótt í forfallatryggingu Varðar eða kreditkortatryggingu Arion banka og Landsbanka? Nei, því miður, ekki eru bætt tjón farþega vegna fjárhagserfiðleika eða gjaldþrots flugrekenda eða annarra slíkra aðila sem annast farþegaflutninga. Frekari upplýsingar má finna á heimasíðu Samgöngustofu. Þar má finna umfjöllun um möguleika á endurgreiðslu, ýmist í gegnum kreditkortafyrirtæki eða ferðaskrifstofu.

Ef ég er á ferðalagi erlendis...

 • og staðurinn sem ég er á er settur í sóttkví og ég get ekki haldið ferðalaginu áfram vegna COVID-19 veirunnar, er það bætt? Ferðatryggingar Varðar og kortatryggingar Arion banka og Landsbanka ná ekki yfir þann auka kostnað sem kann að skapast við þær aðstæður.

 • og ég veikist af COVID-19 veirunni og get ekki haldið ferðalaginu áfram vegna sóttkvíar, er það bætt? Erlendur sjúkrakostnaður og aukinn kostnaður sem kann að skapast vegna veikinda er bættur úr ferðatryggingum Varðar og kortatryggingu Arion banka og Landsbanka, samkvæmt skilmálum hverrar tryggingar fyrir sig.

 • og vil koma fyrr heim til að forðast smit, er það bætt? Nei því miður, hvorki fæst ferðin endurgreidd né aukinn kostnaður vegna nýs flugs.

 • og þarf að flýta heimför vegna lokunar á gististað, landi eða því svæði sem ég er á, er það bætt? Nei, því miður, hvorki fæst kostnaður við nýtt flug eða breytingu á flugi endurgreiddur.

Leiðbeiningar til almennings frá Landlæknisembættinu.

 • Handhreinsun og hreinlæti kringum augu, nef og munn ásamt öruggri meðhöndlun fæðu eru lykilatriði til að forðast smit og fækka smitleiðum í þeim tilgangi að draga úr líkum á alvarlegum veikindum.

 • Kórónaveiran Novel (COVID-19) hagar sér í sumu eins og inflúensa, einkenni eru svipuð og smitleiðir áþekkar.

 • Einkenni líkjast helst inflúensusýkingu, hósti, hiti, bein- og vöðvaverkir, þreyta o.s.frv. Kórónaveiran Novel getur einnig valdið alvarlegum veikindum með neðri öndunarfærasýkingum og lungnabólgu, sem koma oft fram sem öndunarerfiðleikar á 4.-8. degi veikinda.

 • Ef einstaklingar finna fyrir veikindum er þeim bent á að hringja í síma 1700 (fyrir erlend símanúmar +354 544-4113) varðandi nánari upplýsingar og hvernig þeir eigi að nálgast heilbrigðiskerfið.

 • Þessir einstaklingar eru sérstaklega beðnir um að mæta ekki á bráðamóttöku sjúkrahúsa eða á heilsugæslustöðvar nema að fengnum ráðleggingum í síma.

Gagnlegar upplýsingar varðandi flug, ferðalög og COVID-19:

author

Vörður tryggingar

18. janúar 2022

Deila Frétt

Fleiri fréttir