Forvarnir

Eldur vegna raf­magns­tækja í hleðslu

16. febrúar 2023

Nýverið var sagt frá því í fréttum að fjölskylda hefði misst nær allar eigur sínar í eldi sem kviknaði út frá hleðslutæki fyrir síma sem staðsett var upp í rúmi í barnaherbergi.

Sem betur fer var reykskynjari í herberginu sem varaði heimilisfólk við og hægt var að slökkva eldinn. Lærdómurinn af frásögn fjölskyldunnar er einfaldur en mikilvægur, ekki vera með hleðslutæki í notkun innan um eldfimt undirlag eða yfirbreiðslur og hafið reykskynjara í svefnherbergjum. Hleðslu- og rafmagnstæki sem eru upp í rúmi, liggja á eða undir sæng, púða eða kodda, valda eldhættu. Ekki hengja föt á rafmagnshjól í hleðslu, svona mætti áfram telja. Raftæki er best að hlaða á föstu, tregbrennanlegu undirlagi þar sem loftar um þau.

Aukning hefur verið á að eldur kvikni út frá raftækjum, til dæmis símum, rafhjólum og rafhlaupahjólum. Þar sem töluverð hætta getur skapast af því að hlaða tækin tókum við saman nokkur góð ráð sem auka öryggi þitt. Nokkur góð ráð til að forðast eld við hleðslu rafmagnstækja 

  • Notaðu upprunalegt hleðslutæki sem fylgir með tækinu. Það getur verið freistandi að spara og panta ódýrari hleðslutæki en þau gætu ekki staðist evrópskar kröfur og þá geturrafhlaðanofhitnað. 

  • Ef hleðslutækið hleður illa eða það sést í vírana í snúrunni þá er kominn tími til að skipta. 

  • Að sama skapi, ekki hlaða tæki með sjáanlega laskaða eða skemmda rafhlöðu. 

  • Forðumst að hlaða tækin þegar allir eru sofandi eða þegar enginn er til staðar. 

  • Hafðu hleðslutækið á tregbrennanleguundirlagi þegar það er að hlaða. Pössum að engin brennanleg efni séu nálægt eins og föt, sæng, koddi eða pappír og að það sé ekki breitt yfir tækið eða hleðslubúnað.  

  • Þegar tækið er fullhlaðið taktu þá það úr sambandi. 

  • Ekki nota mörg fjöltengi í sama rafmagnsinntakið. 

  • Hlöðum í rýmum þar sem reykskynjari er til staðar. 

Dæmin eru fleiri

Reglulega fáum við fregnir af því að eldur hafi komið upp vegna rafmagnstækja í hleðslu. Eldvarnabandalagið, Húsnæðis- og mannvirkjastofnun, Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins og fleiri hafa vakið athygli á þessu vandamáli vegna eldsvoða sem upp hafa komið, t.d. við hleðslu rafhlaupahjóla, handverkfæra og síma. Flestir eru nokkuð grunlausir þegar kemur að hleðslu tækja sem nota liþíum rafhlöður enda treystum við því að varan sé örugg. Alla jafna eru vottuð raftæki örugg en það eru samt nokkur öryggisatriði sem gott er að hafa í huga í umgengni við þau.

Sjáanlegar skemmdir á rafhlöðu

Ef það er sjáanleg skemmd á tækinu þínu/rafhlöðunni eftir t.d. að þú misstir það í gólfið þá er öruggast að fá nýja rafhlöðu. Skemmdar rafhlöður eru algeng ástæða eldsvoða og á þessu sviði eigum við ekki að spara við okkur. Ekki reyna að laga rafhlöðuna eða líma hana saman. Vinnueftirlitið í Bandaríkjunum (OSHA) hefur bent á þessa hættu þar sem mörg tæki sem við notum við vinnu eru með liþíum rafhlöðu. Þráðlausar myndavélar, talstöðvar og handverkfæri nota undantekningarlaust þessa gerð rafhlaðna.

Þetta tengi passar í þessa innstungu!

Það er alltaf öruggast að nota hleðslutæki frá framleiðanda tækisins sem er verið að hlaða. Það er ekki sjálfgefið að þó tengi passi að það anni þeirri orkuþörf sem tækið krefst. Ef það gerist er hættan sú að tækið ofhitni og brenni yfir. Þetta gildir um öll raftæki og hleðslu rafmagnsbíla líka. Ekki hlaða rafmagnbílinn þinn með framlengingarsnúrukeflum úr tengli sem annar ekki hleðsluþörf bílsins. Hér á landi eru þekkt dæmi um eld eftir slíka notkun. Notaðu viðurkennda hleðslustöð. Verið líka gagnrýnin á allar hleðslusnúrur, ekki nota sjáanlega laskaðar eða viðgerðar snúrur. Þá er góð regla að taka tæki sem búið er að hlaða úr sambandi.

Hvernig slekk ég eldinn?

Ef þú metur stöðuna þannig að eldur og reykur sé of mikill þá lokar þú dyrunum, hringir í 112, aðvarar fólk í kringum þig og yfirgefur húsnæðið. Líf og heilsa er alltaf forgangsatriði. Ef þú verður eldsins var í tæka tíð, taktu þá tækið/hleðslusnúruna úr sambandi. Haltu fjarlægð og notaðu duft- eða léttvatnstæki til að slökkva eldinn.

author

Vörður tryggingar

16. febrúar 2023

Deila Frétt