sjálfbærni

Dagur jarðar

20. apríl 2021

Sumardagurinn fyrsti er á fimmtudaginn og þá fögnum við komu sumarsins. Sama dag er Dagur jarðar en hann hefur verið haldinn 22. apríl ár hvert síðan 1970. Degi jarðar er ætlað að minna okkur á að fara vel með jörðina okkar og umhverfið. Deginum er einnig ætlað að vekja athygli heimsins á loftlagsbreytingum og hlýnun jarðar og hvetja alla til að vinna að verndun umhverfisins.

Á Degi jarðar á hverju ári er fjallað um margar ólíkar leiðir til að fara vel með jörðina og umhverfið, þar á meðal endurvinnslu, aðferðir til að minnka mengun og umhverfisvænar vörur. Þema Dags jarðar í ár er Endurheimtum jörðina okkar.

Hugsum vel um umhverfið okkar

Það halda kannski ekki margir upp á Dag jarðar á Íslandi en við höfum okkar eigin dag umhverfisins sem er 25. apríl ár hvert. Dagurinn er tileinkaður Sveini Pálssyni lækni sem fæddist þann dag árið 1762. Sveinn var annálaður fræðimaður, rithöfundur, læknir og ferðagarpur sem var frumkvöðull í rannsóknum á náttúru landsins og þá sérstaklega jöklunum. Hann er talinn meðal fyrstu Íslendinganna sem vöktu athygli á hugmyndafræði sjálfbærrar þróunar, og vegna þess var dagur umhverfisins tileinkaður honum.

Þá er tilvalið að minnast á Stóra plokkdaginn sem verður haldinn hátíðlegur fjórða árið í röð laugardaginn 24. apríl. Framundan er mikið verkefni við að losa umhverfið við einnota grímur og hanska sem fylgt hafa kórónuveirufaraldrinum. Allstaðar um landið eru öflugir plokkarar sem vinna mikil afrek í þágu umhverfisins og samfélagsins alls.

Allir geta gert eitthvað

Jörðin okkar þarfnast þess sárlega að hugsað sé betur um hana og það er öllum í hag að svo sé gert enda höfum við engan annan stað til að búa á. Það geta allir gert eitthvað fyrir jörðina, til dæmis:

  • Gakktu eða hjólaðu ef þú hefur tök á í stað þess að fara í bíl.

  • Plokkaðu rusl, sérstaklega plast.

  • Kauptu ekkert nema brýnar nauðsynjavörur.

  • Minnkaðu neyslu og núllstilltu lífstílinn, rólegur lífstíll er oft loftlagsvænn.

  • Prófaðu grænkerafæði, að fækka kjötdögum eða skipta alfarið um mataræði.

  • Kláraðu úr frystinum og ísskápnum áður en nýtt er keypt, því matarsóun er loftlagsmál.

  • Lestu bók í stað þess að glápa á streymi, netið er líka með kolefnisfótspor.

Vissir þú að:

  • Mýkingarefni í þvotta eru óþörf, auk þess að skaða bæði umhverfið og heilsu okkar.

  • Rafbíll er alltaf vistvænni en bensín- og díselbílar á Íslandi, fyrir utan að vera mun ódýrari í rekstri.

  • Þegar búið er að aka rafbíl á Íslandi í um tvö ár er búið að spara nóg bensín og olíu til að bæta fyrir þá losun sem varð við framleiðsluna.

  • Jörðin er eina plánetan með kaffi, súkkulaði og víni og að framleiðsla þess muni breytast mikið vegna loftslagsbreytinga, ekki endilega til góðs.

  • Umhverfismerktar vörur tryggja að framleiðsla, notkun og förgun hafi eins lítil áhrif á umhverfi og heilsu og mögulegt er.

  • Á Íslandi kemur til með að rigna meira samhliða loftslagsbreytingum.

Vörður hefur metnaðarfulla stefnu um samfélagslega ábyrgð og ber virðingu fyrir náttúrunni. Okkur er umhugað að draga úr losun gróðahúsalofttegunda og lágmarka neikvæð umhverfisáhrif og sýna þar með frumkvæði og ábyrgð gagnvart umhverfinu og samfélaginu. Með þessu styðjum við einnig heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um aðgerðir í loftlagsmálum.

Stöndum vörð um umhverfið í sumar

author

Vörður tryggingar

20. apríl 2021

Deila Frétt