forvarnir

Akstur með ferðavagna

19. maí 2022

Öll viljum við ferðast um landið okkar á öruggan og áfallalausan hátt. Margir aka um þjóðvegina í sumar með ýmiss konar ferðavagna í eftirdragi eins og hjólhýsi, fellihýsi og tjaldvagna. Þá er mikilvægt að hafa í huga að aksturseiginleikar bílsins geta breyst, hann orðið óstöðugri og getur rásað á veginum. Fjölmörg önnur atriði er gott að hafa í huga áður en lagt er af stað í ferðalag með ferðavagn.

Ferðavagnar þurfa að fara í lögbundna skoðun fjórum árum eftir skráningu og síðan á tveggja ára fresti. Skoðunarmánuður er í maí, óháð síðasta tölustaf á skráningarmerki ferðavagnsins. Bremsu- og ljósabúnaður og dekk verða ávallt að vera í lagi. Gæta þarf þess að bíllinn megi draga ferðavagninn og að ökuréttindi nái yfir samanlagða þyngd vagnsins og bílsins. Lesa má upplýsingar um heimilaða þyngd eftirvagns eða tengitækis í skráningarskírteini bifreiðar. Á skráningarskírteini ferðavagns kemur fram þyngd þeirra en hún er auðvitað án alls búnaðar sem settur er um borð í vagninn.

Ef ferðavagn er breiðari en bíllinn og hindrar baksýni þarf að framlengja hliðarspegla hans báðu megin og gott er að hafa útsýni úr baksýnisspegli til að geta fylgst með ferðavagninum sjálfum aftur úr bílnum. Ganga þarf vel frá tengibúnaði við bílinn og öryggiskeðju skal alltaf nota. Tengibúnaðurinn á að vera traustur og af viðurkenndri gerð og skráður í skráningarskírteini. Allir ferðavagnar eiga að vera með ljós sem eru hliðstæð aftur- og hliðarljósum bílsins.

Það er ekki sjálfgefið að ökumenn kunni að aka með ferðavagn en æfingin skapar meistarann. Huga þarf t.d. að því að hemlunarvegalengd og beygjuradíus breytist þegar ekið er með ferðavagn. Þá getur ferðavagn tekið á sig mikinn vind þannig að við verstu aðstæður getur hann fokið út af veginum ásamt bílnum.

Besta ráðið er að fara varlega, gefa sér nægan tíma og aka ávallt eftir aðstæðum.

Tryggingar eftirvagna

Samkvæmt lögunum, sem tóku gildi 1. janúar 2020, telst eftirvagn eða annað tæki sem fest er við ökutæki, vera ein heild. Eftirvagn eða tengivagn getur verið t.d. tjaldvagn, fellihýsi, hjólhýsi eða kerra.

Þetta þýðir að ábyrgðartryggingar ökutækja ná ekki yfir tjón sem verða á eftirvögnum, óháð eignarhaldi. Ábyrgðartrygging tók áður á slíku tjóni ef eigandi eftirvagns var ekki ökumaður eða eigandi ökutækisins. Til að tryggja eftirvagn þarf að kaskótryggja hann en kaskótrygging ökutækis nær aldrei yfir eftirvagninn sjálfan.

Tökum dæmi: Jói fær lánað fellihýsi hjá Guðrúnu og verður svo valdur að árekstri með tilheyrandi tjóni á fellihýsinu. Ef þessi atburður hefði gerst á síðasta ári hefði tjónið á fellihýsinu greiðst úr ábyrgðartryggingu ökutækis Jóa. Ef svona atburður gerist á þessu ári greiðist tjónið ekki úr ábyrgðartryggingu ökutækis Jóa.

Ef þú átt eftirvagn, farðu þá vel yfir tryggingarnar þínar. Þú getur óskað eftir tryggingu fyrir eftirvagninn þinn hjá okkur með því að hafa samband.

author

Vörður tryggingar

19. maí 2022

Deila Frétt