tilkynningar

Afkomutilkynning 2022

10. mars 2023

Á stjórnarfundi þann 28. febrúar 2023, samþykkti stjórn og forstjóri samstæðureikning Varðar fyrir árið 2022. Guðmundur Jóhann Jónsson forstjóri Varðar:

„Almenn starfsemi Varðar gekk vel á síðasta ári en rekstrarniðurstaðan er vonbrigði. Neikvæð afkoma af fjármálastarfsemi félagsins skýrir að langmestu leyti þá staðreynd að tap varð á rekstri Varðar í fyrsta skipti frá árinu 2008. Þá jókst tjónakostnaður um 26% sem er óvanaleg hækkun milli ára. Afkoma síðasta árs er því lituð af ytri aðstæðum sem erfitt var að sjá fyrir. Þrátt fyrir tímabundinn mótbyr er framtíðin björt. Grunnur félagsins er góður, fjárhagur traustur og ímynd og staða á markaði jákvæði. Viðskiptavinum fjölgar ár frá ári og framundan eru ótal tækifæri til að láta félagið vaxa og dafna. Með traustan bakhjarl eins og Arion banka, sem er tilbúinn að styðja við félagið og efla, eru spennandi tímar framundan. Starfsfólk félagsins fær stórt hrós fyrir framúrskarandi gott starf.“

Rekstur ársins 2022

Tap varð af rekstri Varðar árið 2022 sem nam 737 m.kr. Neikvæð afkoma skýrist einkum af óhagstæðum aðstæðum á verðbréfamarkaði sem olli lækkun á öllum helstu eignaflokkum og skilaði sér í 3 ma.kr. neikvæðum viðsnúningi í fjáreignatekjum frá fyrra ári. Árið var einnig markað af óvenju miklum tjónum og má skipta ástæðum þeirra í þrjá megin þætti. Mikil tjón á eignum og ökutækjum sem rekja má að miklu leyti til tíðra stórviðra á árinu og slæmra akstursskilyrða framan af ári. Stórtjón lenti á samstæðunni og er það einungis í þriðja sinn sem slíkt gerist. Þá gætti mikillar ferðagleði meðal landsmanna og samhliða jókst tíðni ferðatjóna til muna eftir tvö róleg ár í þeirri grein.

Iðgjöld ársins hækkuðu um 11% milli ára og námu 15.197 m.kr. Tjón námu 12.011 m.kr. og jukust um 26% milli ára. Rekstrarkostnaður var 3.045 m.kr. og hækkaði lítillega milli ára. Kostnaðarhlutfall var 18,8% en var 20,7% árið áður. Heildareignir í árslok námu 33.218 m.kr. sem er hækkun um 2% á árinu. Fjáreignir námu 26.891 m.kr. og handbært fé 600 m.kr. Eigið fé lækkaði um 7% milli ára og var í árslok 9.610 m.kr. Eiginfjárhlutfall var 29% og arðsemi eiginfjár var neikvæð um 7,4%. Gjaldþol félagsins samkvæmt Solvency II var 145% í árslok en var 150% í lok árs 2021.

Viðurkenningar fyrir framúrskarandi gott starf

Vörður hlaut fjölmargar viðurkenningar á árinu fyrir framúrskarandi gott starf á mörgum sviðum. Félagið hlaut viðurkenningu Jafnvægisvogarinnar fjórða árið í röð en það er Félag kvenna í atvinnulífinu, ásamt samstarfsaðilum úr forsætisráðuneytinu og viðskiptalífinu sem standa að viðurkenningunni. Vörður hefur skýra sýn og stefnu í jafnréttismálum sem tryggir sanngirni, jöfn tækifæri og kjör alls starfsfólks. Félagið hefur frá árinu 2014 starfrækt jafnlaunakerfi og hlotið Gullmerki PWC, jafnlaunavottun VR og jafnlaunamerki velferðarráðuneytisins, fyrst fjármálafyrirtækja. Auk þess er Vörður með hæstu einkunn á kynjakvarðanum GEMMAQ. Kvarðinn metur mánaðarlega fyrirtæki í Kauphöll Íslands eftir kynjahlutföllum í stjórnum og framkvæmda-stjórnum og er því eins konar kynjagleraugu fyrir Kauphöllina.

Vörður prýðir lista Creditinfo yfir Framúrskarandi fyrirtæki 2022. Viðurkenningin, sem aðeins 2% fyrirtækja á Íslandi hljóta, er staðfesting á góðum árangri félagsins og frábæru starfi starfsfólks. Í sambærilegri úttekt Keldunnar og Viðskiptablaðsins var félagið líka á lista yfir Fyrirmyndarfyrirtæki. Vörður var valið Fyrirmyndarfyrirtæki í flokki meðal stórra fyrirtækja í árlegri vinnumarkaðskönnun VR. Fyrirtækin voru valin samkvæmt niðurstöðum viðamikillar könnunar á meðal þúsunda starfsfólks hjá fjölbreyttum hópi fyrirtækja á almennum vinnumarkaði.

Vörður fékk einnig, fjórða árið í röð, viðurkenningu sem fyrirmyndarfyrirtæki í góðum stjórnarháttum. Viðskiptaráð Íslands, Samtök atvinnulífsins, Nasdaq Iceland og Stjórnvísi standa að baki viður-kenningunni. Hún þýðir að starfshættir stjórnar Varðar eru vel skipulagðir og þeir ásamt framkvæmd stjórnarstarfanna eru til fyrirmyndar.

Þá hlaut Guðmundur Jóhann Jónsson, forstjóri Varðar, Stjórnendaverðlaun Stjórnvísi 2022 í flokki yfirstjórnenda. Stjórnvísi er stærsta stjórnunarfélag á Íslandi og hefur þrettán ár í röð verðlaunað stjórnendur fyrirtækja sem þykja hafa skarað fram úr á sínu sviði. Guðmundur Jóhann hefur starfað innan vátrygginga í um 35 ár en síðastliðin 16 ár hefur hann starfað sem forstjóri Varðar. Hann hefur leitt uppbyggingu félagsins í erfiðu samkeppnisumhverfi, margfaldað stærð þess og gert það að einu öflugasta og best rekna fyrirtæki landsins. Guðmundur Jóhann sagði starfi sínu lausu í lok síðasta árs og lætur af störfum 1. apríl næstkomandi.

Félagið er ákaflega stolt af þessum viðurkenningum en þær hvetja starfsfólk áfram til góðra verka.

Þétt samstarf með Arion banka

Á árinu var gerð breyting á rekstrarlíkani Varðar þegar nánara samstarf var tekið upp við móðurfélagið, Arion banka. Í lok árs 2021 flutti Vörður í höfuðstöðvar bankans í Borgartúni 19 og útvistaði um leið hluta af starfseminni til bankans til að auka hagkvæmni rekstrar. Markmiðið er að veita viðskiptavinum samstæðunnar enn betri þjónustu með því að bjóða þeim alla trygginga- og bankaþjónustu á einum stað. Útvistunarsamningur er í gildi um þá starfsemi sem Arion banki vinnur fyrir Vörð. Leitast verður við að þróa sameiginlega þjónustu áfram þannig að hún verði í fararbroddi á íslenskum fjármálamarkaði. Með samstarfinu gefst líka tækifæri til að nýta einstaka stöðu samstæðunnar til að samþætta vöruframboð til hagsbóta fyrir viðskiptavini en þeim fjölgaði mikið á síðasta ári og eru nú orðnir um 65 þúsund. Félagið hyggst halda markaðssókn sinni áfram af enn meiri krafti.

Um Vörð

Vörður tryggingar hf. er alhliða vátryggingafélag í eigu Arion banka hf. sem býður tryggingar fyrir heimili og fyrirtæki. Félagið leggur áherslu á einföld og þægileg tryggingaviðskipti á samkeppnishæfu verði. Meðaltalsfjöldi stöðugilda var á síðasta ári 55 og eru viðskiptavinir félagsins liðlega 64.000 talsins. Starfsfólk Varðar vinnur markvisst að því að efla þjónustu og fjölga valkostum í tryggingaþjónustu til viðskiptavina.

Aðalfundur Varðar trygginga hf. var haldinn 9. mars 2023. Stjórn félagsins skipa þau Benedikt Olgeirsson, Auður Björk Guðmundsdóttir, Guðný Benediktsdóttir, Iða Brá Benediktsdóttir og Ólafur Hrafn Höskuldsson. Benedikt var kjörinn formaður stjórnar.

Nánari upplýsingar veitir: Guðmundur Jóhann Jónsson, forstjóri Varðar í síma, 514 1020 og 824 1020.

author

Vörður tryggingar

10. mars 2023

Deila Frétt