Vetrarráð fyrir heimilið

Það er góð regla að undirbúa sig vel fyrir veturinn og gera viðeigandi ráðstafanir áður en kuldinn skellur á.

Snjór á þaki og grýlukerti

Oft myndast snjóhengjur og grýlukerti á þökum sem getur verið hættulegt. Snjór og ís hefur fallið á fólk og jafnvel valdið meiðslum. Það er því mikilvægt að gera ráðstafanir og reyna hreinsa burt sjóinn og brjóta grýlukertin frá. Látið börn aldrei sofa í vagni beint undir súð ef mikill snjór er á þaki. Snjór og klakastykki geta líka valdið tjóni á bifreiðum ef þeim er lagt beint undir húsþaki. Fara þarf varlega þegar þök eru hreinsuð og látum frekar fagmenn á kranabíl sjá um verkið í stað þess að verða okkur að voða.

 • Hafið auga með grýlukertum við innganga og gönguleiðir. Brjótið þau ef hægt er. Muna fara varlega.

 • Ekki láta börn sofa í vagni undir þaki með snjó eða grýlukerti.

 • Leggið bifreiðum ekki beint undir stórum grýlukertum.

 • Hitaþráður í rennu getur varnað myndun grýlukerta.

Hálkuvarnir kringum hús og innganga

Ef við náum ekki að moka snjónum í burt eða bræða hann þá þjappast hann saman, blotnar, frýs og verður að klaka. Mikilvægt er að eiga salt til þess leysa upp hálku við innganga eða sand til að bæta gripið. Göngum varlega um í hálkunni. Gott ráð er að bera sig að eins og mörgæs, taka stutt skref, halla sér aðeins fram og setja hendur út. Ef allt er orðið glært og varla stætt á planinu heima þá er ekkert að gera nema skella mannbroddunum á sig.

 • Mokið, saltið og sandið við innganga og bílaplan.

 • Gangið varlega í hálkunni. Stundum þarf að ganga eins og mörgæs.

 • Notið góða skó og mannbrodda þegar hálast er.

Þegar verst lætur þurfa yfir 100 manns að leita sér aðstoðar á dag á bráðamóttöku eða heilsugæslu vegna hálkuslysa. Talað er um hláku þegar mikil hlýnun og úrkoma kemur í kjölfar frosta- og snjókafla. Þá bráðnar snjórinn með tilheyrandi vatnsrennsli og þar sem hann bráðnar ekki verður flughált. Við þessar aðstæður myndast mikil slysahætta og hætta á vatnstjónum þar sem niðurföll hafa ekki undan. Það er ýmislegt hægt að gera til að koma í veg fyrir u tjón og hér að neðan verður farið yfir nokkur mikilvæg atriði.

Vatnstjón vegna ofankomu

Ef frárennslislagnir og niðurföll hafa ekki undan þá mun vatnið leita á næsta lágpunkt sem gæti verið jarðhæð, gluggi eða kjallari húss. Gerið ráðstafanir og tryggið að vatnið renni í opin niðurföll. Tjón vegna utanaðkomandi vatns frá t.d. þakrennum, svölum eða frárennslisleiðslum eru ekki bætt í húseigendatryggingum og því er mikilvægt að moka snjó af svölum, úr rennum og hreinsa frá niðurföllum. Nokkuð hefur borið á því undanfarin ár að djúpir pollar á götum sem myndast í hláku valdi skemmdum á rafhlöðum rafmagnsbíla. Ef mögulegt er eiga ökumenn að keyra framhjá þeim eða fara mjög hægt ef annar kostur er ekki í stöðunni. Þessi regla gildir um alla bíla raunar.

 • Mokið snjó af svölum, kjallaratröppum og við innganga almennt.

 • Mokið frá niðurföllum og saltið þau.

 • Akið varlega í polla sem myndast á götum.

 • Akið varlega þegar göturnar þorna, þá eru oft djúpar holur á götum.

Frostskemmdir

Það er að ýmsu að huga að þegar frostið er annars vegar. Huga þarf sérstaklega að vatnslögnum þar sem vatnið þenst út í frosti og getur sprengt lagnir. Yfirfara þarf lagnagrindur, krana utan á húsum, vatnslagnir í garðskúrum og bílskúrum þar sem hiti helst ekki vel. Frostið bítur líka á rafgeyma eins og flestir þekkja og rafhlöður eyðast hraðar.

 • Látið yfirfara lagnagrindur reglulega.

 • Skrúfið fyrir garðkrana og útikrana.

 • Í einhverjum tilvikum er gott að nota frostlög.

 • Tryggið að gluggar, hurðir og opnanleg fög séu þétt til að forða varmatapi.

 • Fylgist með veðurfréttum.