Frágangur á sumarhúsinu skiptir miklu máli til að koma í veg fyrir eða lágmarka tjón. Þú slakar betur á þegar öryggismálin eru á hreinu.
Við viljum tryggja að sumarhúsið sé griðarstaður. Maður slakar best á þegar öryggismálin eru á hreinu og það á svo sannarlega við um sumarhúsið líka. Hvort sem húsið er í notkun eða orðið autt eftir notalega helgi þá er mikilvægt að huga vel að forvörnum til að koma í veg fyrir eða lágmarka tjón.
Mikilvægt er að skrúfa fyrir inntak heita og kalda neysluvatnsins og tæma viðtengd tæki þegar húsið er yfirgefið.
Ef bústaður er kynntur með miðstöðvarofnum er öruggast að hafa lokað hringrásarkerfi með frostlög og forhitara sem er utan aðalhúss. Alltaf skal loka fyrir inntak þegar sumarbústaður er yfirgefinn.
Það er góð hugmynd að fylgjast með hita í bústaðnum, t.d. í gegnum app ef það er hægt, sérstaklega mikilvægt eftir mikla frostakafla og ef bústaður er í lítilli notkun.
Gangið vel frá lausum munum og smíðaefni utandyra svo ekki verði foktjón.
Hafið reykskynjara í sumarhúsinu líkt og á heimilum ykkar. Fjöldi þeirra fer eftir stærð hússins og gott er að eiga alltaf nokkrar rafhlöður til skiptana.
Ef svefnloft er í húsinu þarf flóttaleið að vera greið. Er utanáliggjandi brunastigi á þínu húsi?
Hafið duft- eða léttvatnsslökkvitæki á áberandi stað við útgang sumarhússins.
Eldvarnarteppi er nauðsynlegt í eldhúsið.
Ef þú ert með rafmangsofn þá þarf að passa að hylja þá ekki. Til dæmis ekki þurrka föt á þeim.
Síðasti maður í háttinn slekkur á öllum kertum.
Hafið gasskynjara í eldhúsinu sem næst gólfi.
Geymið gaskúta á öruggum stað, helst í þar til gerðum skápum.
Takið gaskútinn undan grillinu þegar þið notið það, þannig er hann minna útsettur fyrir hita og fitu.
Passið að mýsnar nagi ekki allt í sundur.
Látið fagmann tengja hitastýrð blöndunartæki og tryggið þannig gæði og rétt hitastig.
Hafið hitamæli í pottinum.
Skiljið aldrei ung börn ein og eftirlitslaus í heitum potti og setjið alltaf öryggislok yfir hann strax eftir notkun.
Passið að lokið á pottinum sé tryggilega fast á svo það fjúki ekki af.
Lokið og læsið hurðum og gluggum tryggilega.
Dragið fyrir glugga svo ekki sjáist inn.
Almennt ekki geyma mikil verðmæti í sumarhúsum eða hafa þau sýnileg.
Talið við nágranna ykkar um að fylgjast með húsum hvers annars.
Takmarkið umferð í sumarhúsahverfum með hliði.
Setjið upp góða lýsingu og myndvélakerfi ef það er hægt.