Innbrot

Innbrot hafa færst í aukana síðustu ár. Við höfum tekið saman nokkur góð ráð til að draga úr líkum á innbroti.

Árlega er lögreglu tilkynnt um 450 innbrot á heimili. Það eru nokkur atriði sem þú getur gert til þess að draga úr líkum á innbroti. Mikilvægt er að venja sig á að læsa öllum hurðum og gluggum til að gera innbrotsþjófum erfiðara fyrir. Svalahurðir og hurðir sem snúa út í garð á jarðhæð eru inngönguleiðir og því þarf að læsa þeim vandlega. Öryggiskerfi er góður kostur og þar eru margar lausnir í boði.

Ertu á leið í frí?
  • Fáðu nágranna eða ættingja til þess tæma póst og jafnvel slá grasið ef farið er í langan tíma.

  • Geymdu aukabíl í bílastæðinu þínu og segðu nágrönnum þínum frá því að þú sért að fara. Biddu þá að fylgjast með ferðum ókunnugra við eign þína.

  • Læsið öllum hurðum og gluggum til að varna auðveldri inngöngu. Svalahurðir og hurðir sem snúa út í garð á jarðhæð eru líka inngönguleiðir og því þarf að læsa þeim vandlega.

  • Öryggiskerfi er góður kostur og þar eru margar lausnir í boði.

  • Ef þú tekur myndir í sumarleyfinu og deilir með vinum þínum skaltu gæta þess að þær myndir séu ekki sýnilegar öllum á vefnum.

Tjónið er bæði tilfinningalegt og fjárhagslegt

Innbrotum fylgja margvísleg óþægindi og tjón. Skemmdarverk geta verið unnin við innbrotið. Gluggar eða hurðir brotnar og kostnaður jafnvel meiri að laga það en sem nemur andvirði þýfisins. Tilfinningalegt tjón er líka oft mikið. Það getur verið mjög óþægilegt að ókunnugur aðili hafi gengið um heimilið og rótað í innbúi og einkamunum. Eftirköstin geta verið langvinn og lýst sér með ótta, kvíða og að það sé óþægilegt að yfirgefa heimilið af ótta við innbrot. Reiði og sjálfsásökun eru einnig þekkt viðbrögð.

Eftir hverju er verið að slægjast?
  • Meðfærileg verðmæti sem auðvelt er að koma í verð.

  • Fartölvur, símar, spjaldtölvur, fatnaður/merkjavara.

  • Skartgripir, lausafé og listmunir eru annað dæmi.

  • Reiðhjól, vespur og rafmagnshjól þarf að læsa með öflugum lás ef þau standa úti og það er góð regla að skrá hjá sér verksmiðjunúmer. Vefurinn reidhjolaskra.is býður eigendum reiðhjóla að skrá hjólin sín þar, sem getur auðveldað endurheimt sé þeim stolið.

Innbrot í bifreiðar
  • Munum að læsa bílnum ávallt tryggilega.

  • Það er sérstaklega mikilvægt að skilja aldrei verðmæti eftir í bílnum.

  • Göngum frá bifreiðinni þannig að það sjáist ekki í hluti þegar skimast er inn um gluggann.

  • Geymum bílinn inni í bílskúr eða læstum bílakjallara ef kostur er.

Vantar öryggiskerfi á heimilið?

Viðskiptavinir Varðar fá sérkjör á öryggiskerfum hjá samstarfsaðilum okkar.