Hlaup

Regluleg hreyfing hefur margþættan ávinning fyrir heilsuna, hún minnkar líkur á sjúkdómum, eykur lífsgæði og lengir líf okkar.

Heilræði fyrir hlaupara

Hreyfing hefur mikil og góð áhrif á líkamlega og andlega heilsu okkar. Flestöll finnum við hvað það gerir okkur gott að fara út og hreyfa okkur, og með hækkandi sól eykst löngunin til að hreyfa sig úti. Hlaup eru frábær leið til bættrar heilsu og léttari líðan enda hefur hlaupaáhugi landsmanna aukist mikið á síðustu árum.

Byrjaðu rólega

Þegar byrjað er að hlaupa er nauðsynlegt að átta sig á líkamlegri getu og fara ekki of geyst af stað. Gott er að setja sér raunhæf markmið og gera æfingaáætlun. Í upphafi er ráðlegt að blanda saman göngu og hlaupi og miða frekar við tíma en vegalengd, t.d. 30 mínútur í senn 3-4 sinnum í viku. Hvert hlaup getur byrjað með röskri göngu sem léttri upphitun og svo getur verið hæfilegt að byrja að hlaupa í fjórar mínútur og ganga í tvær mínútur til skiptis. Síðan er tíminn aukinn smá saman, t.d. hlaupa í sex mínútur og ganga í þrjár mínútur o.s.fv. Svo kemur að því að hlaupatíminn lengist á kostnað göngunnar.

Vertu með réttan búnað

Þegar farið er út að hlaupa er nauðsynlegt að vera í góðum hlaupaskóm í réttri stærð með góðri dempun á tábergi og hæl. Hlaup á gömlum og vondum skóm sem misst hafa alla dempun geta leitt til meiðsla og því er skynsamlegt að fjárfesta í góðum skóm sem henta þínu hlaupalagi. Góðir sokkar skipta líka máli en þeir geta komið í veg fyrir eymsli í tám, hælsæri og blöðrur. Bestu hlaupafötin eru úr efni sem kælir líkamann niður í hita og heldur honum heitum í kulda. Bómull er alls ekki hentugt í hlaupafatnað og henta ýmis gerviefni mun betur. Þá er gott er að eiga endurskinsvesti eða skæran jakka með endurskinsröndum þegar farið er út að hlaupa, sérstaklega þegar farið er skyggja.

Hugaðu að líkamanum

Teygjur og styrktaræfingar eru nauðsynlegar, bæði fyrir og eftir hlaup, en þær auka liðleika líkamans og minnka líkur á meiðslum. Þær gera öllum gott og ættu að vera partur af æfingaáætluninni. Hreyfiteygjur og liðleikaæfingar fyrir hlaup koma líkamanum í gang og auka blóðstreymi og súrefnisflæði til allra vöðva. Stöðuteygjur að loknu hlaupi sem haldið er í 20-30 sekúndur teygja ýmsa vöðva og taugar líkamans og auka liðleika hans. Næring er annað mikilvægt atriði sem huga þarf að. Ekki hlaupa með fullan maga en passaðu að drekka nóg af vatni fyrir og eftir hlaup.

Þolinmæði þrautir vinnur allar

Þolinmæði er einn mikilvægasti eiginleiki sem byrjendur í hlaupum verða að tileinka sér. Það er fáir sem koma sér í gott hlaupaform á örfáum vikum. Þess vegna er skynsamlegt fyrir byrjendur að gefa sér góðan tíma til að koma sér í gott form. Fyrsta markmiðið ætti að vera að hafa gaman af því að hlaupa og svo gera það reglulega samkvæmt áætlun.

Góð ráð fyrir þá sem eru að byrja að hlaupa:
  • Byrjaðu rólega og settu þér raunhæf markmið.

  • Gerðu æfingaáætlun, skipulag er lykillinn að árangri.

  • Fjárfestu í góðum hlaupaskóm með góðri dempun.

  • Hugaðu vel að næringunni og drekktu nóg af vatni.

  • Gerðu teygjur og styrktaræfingar eftir hlaup.

  • Tileinkaðu þér þolinmæði og hafðu gaman.

Vörður vill stuðla að hollri hreyfingu og heilbrigðu líferni enda er góð næring og dagleg hreyfing nauðsynleg undirstaða heilbrigðis lífs. Regluleg hreyfing hefur margþættan ávinning fyrir heilsuna, hún minnkar líkur á sjúkdómum, eykur lífsgæði og lengir líf okkar. Að hreyfa sig er samfélagsleg ábyrgð í verki og með þátttöku styðja viðskiptavinir og Vörður saman við heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna númer þrjú um heilsu og vellíðan.

Er skóbúnaðurinn í lagi?

Viðskiptavinir Varðar fá 10% afslátt af öllum vörum hjá Fjallakofanum.